Þjóðtrú

Strandir státa af ríkum menningararfi í formi þjóðsagna sem oft birtast hreinlega í landslagi svæðisins þar sem hægt er að berja augum steinrunnin tröll, álagabletti og híbýli álfa og huldufólks. Við sjóinn í Kollafirði og á Drangsnesi standa tröllin sem reyndu að grafa Vestfirðina frá meginlandinu til að stofna þar tröllanýlendu. Á Ströndum eru líka álagablettir sem ekki má hreyfa við því þá mun eitthvað slæmt gerast, einna frægastur er álagabletturinn í Goðdal þar sem snjóflóð féll eftir að byggt var á honum. Á Ennishálsi fær draugurinn Ennis-Móri stundum far með ferðafólki og verður fólk hans vart þar sem vond lykt gýs óvænt upp í bílnum.

Þjóðsögur á Ströndum

Til er óhemja af þjóðsögum þar sem Strandir eru sögusviðið. Það er spennandi að hugsa til þess við hvaða tækifæri og hvernig fólk hefur sagt hvert öðru þessar sögur fyrr á öldum. Sumar hafa verið sagðar til skemmtunar og allir hlegið dátt að þeim, en aðrar hafa kannski vakið óhug og hroll hjá fólki. Börnin hafa örugglega heyrt  meira af hræðilegum draugasögum en hollt var, alla vega fyrir þau sem myrkfælin  voru. Hér er nokkrar drauga- og tröllasögur af Ströndum, til skemmtunar.

Þorpa-Gudda

Draugurinn Þorpa-Gudda er kennd við bæinn Þorpa við Steingrímsfjörð á  Ströndum. Draugurinn var þannig til kominn að eitt sinn var ósætti milli hreppstjóranna sitt hvoru megin við fjörðinn um hvar kerling sem kölluð var Gudda ætti  heimasveit. Var hún loksins flutt nauðug hreppaflutningum frá Þorpum í Tungusveit  yfir á Selströnd, en var mjög ósátt. Hafði hún í heitingum og formælti vinnumönnum  sem fluttu hana á bát yfir fjörðinn og sagði að hún yrði á undan þeim heim aftur. Héldu síðan vinnumenn til baka.

Þegar sjómennirnir komu til baka að Þorpum hafði veðrið versnað og þeim brá í  brún þegar þeir sáu kerlinguna afturgengna í lendingunni, tilbúna að taka á móti  þeim. Hafði hún steypt sér í sjóinn skömmu eftir að þeir lögðu frá landi og drekkt  sér og gengið tafarlaust aftur til að koma fram heitingum sínum. Hvolfdi hún nú  bátnum í lendingunni og drukknuðu sumir vinnumennirnir.

Gekk Þorpa-Gudda nú aftur og gerði allskyns óskunda, drap skepnur og hrelldi fólk. Hreppstjórinn sá að svona gat ekki gengið og fyrirskipaði að líkið af kerlingunni yrði  grafið upp. Rak hann síðan sjálfur nagla í iljar og hendur á kerlingunni til að afturgangan yrði erfiðari fyrir hana. Varð miklu minna vart við Þorpa-Guddu eftir þessa meðferð, en fylgdi hún þó hreppstjóranum og sást oft á undan honum og eftir. Skreið hún þá jafnan á hnjám og olnbogum eða mjakaði sér áfram á annarri  rasskinninni. Var hún þá stundum kölluð Mjaka.

Karl og kerling í Drangavík

Einu sinni voru þrjú nátttröll sem ætluðu að sneiða Vestfirði af Íslandi, með því að  moka sund þar sem styst er á milli Breiðafjarðar og Húnaflóa. Til að hleypa í sig  eldmóði ákváðu þau að keppast við að búa til sem flestar eyjar úr því efni sem til félli við moksturinn. Þau skiptu liði og hófust handa. Að vestanverðu mokuðu karl og  kerling inn Gilsfjörð og hömuðust sem mest þau máttu. Breiðafjörðurinn er grunnur  og því urðu eyjarnar eins og berjaskyr um allan fjörðinn.

Karl og kerling í Drangavík. Mynd: Jón Jónsson.

Strandamegin gekk allt miklu verr. Bæði var tröllkerling sú er mokaði í Kollafirði ein  að verki og Húnaflóinn miklu dýpri en Breiðafjörður svo flest það sem hún kastaði  frá sér varð að blindskerjum sem síðan hafa gert Flóann hættulegan skipum.

Tröllin þrjú kepptust við alla liðlanga nóttina og uggðu ekki að sér fyrr en birta tók  af degi. Þá tóku vestantröllin til fótanna og stikuðu hvað þau gátu yfir Steinadalsheiði og út Kollafjörð í leit að felustað. En sólin kom upp og skein á þau rétt innan  við Kollafjarðarnes, þar sem nú heitir Drangavík. Þar urðu þau að steindröngum þeim sem enn standa.

Skessan sem mokaði að austanverðu varð líka sein fyrir og gáði ekki að sér. Stökk  hún þá í snarhasti norður yfir Steingrímsfjörð og komst að klettabelti einu sem þar  gengur í sjó fram og heitir Malarhorn. Varð henni þá litið út yfir Húnaflóa og sá að eftir næturlangt stritið hafði henni ekki tekist að mynda eina einustu eyju, bara fáeina varphólma og smásker. Í reiði sinni hjó hún skóflunni sinni í Malarhornið um leið og sólin skein á hana. Við það sprakk fram á Steingrímsfjörð eyja sú myndarleg sem Grímsey heitir. Er það eina stóra eyjan sem skessunni tókst að mynda. Við norðurenda Grímseyjar er klettur, líkur nauti að lögun, sem heitir Uxi. Þann uxa átti kerling og stóð hann á Malarhorninu þegar hún sprengdi það fram á fjörðinn og  varð uxinn að steini þar. Kerlingin varð hins vegar að steindrangi þeim sem Drangsnes er kennt við og stendur við hliðina á sundlauginni í þorpinu.

Ennis-Móri

Draugurinn Ennis-Móri hefur lengi verið afar virkur draugur um miðbik Strandasýslu og margir núlifandi menn hafa orðið varir við hann. Einkum heldur hann sig í nágrenni við fólk úr Ennisættinni sem hann fylgir og á Ennishálsi og við utanverðan Bitrufjörð. Ennis-Móri var sérlega magnaður draugur í upphafi og drap nokkra menn. Upphaf  hans var að galdramaður magnaði upp draug fyrir annan sem vildi hefna sín á  heimasætunni á Skriðinsenni í Bitru af því hún vildi ekki giftast honum. Vakti galdramaðurinn upp hálfdauðan sjómann sem var í verbúð undir Snæfellsjökli og hafði drukknað í lendingunni. Draugurinn þeyttist tafarlaust norður á Strandir. Þegar hann kom inn í húsið á Enni  breytti hann sér í flugulíki og settist í grautarskeiðina hjá heimasætunni. Hún var þá  einmitt að borða graut og ætlaði svo af stað til kirkju á Óspakseyri. Þegar draugsi var kominn upp í munn stúlkunnar breytti hann sér aftur í fulla stærð og sprengdi á henni hausinn. Hélt draugurinn síðan tafarlaust aftur til galdramannsins sem vakti hann upp og  drap hann. Síðan snéri hann aftur á Strandir og fylgdi ætt stúlkunnar. Ennis-Móri  tengdist síðan líka bænum Sólheimum í Dölum, þangað sem hluti ættarinnar flutti, og var þá þekktur undir nafninu Sólheima-Móri. Einnig gekk hann um tíma undir  nafninu Mussuleggur út af mussu sem hann klæddist stundum.

Ódámur, ódámur! Fussum, fussum!

Einu sinni bjó maður að nafni Guðmundur á bænum Brunngili í Bitrufirði. Sögur sögðu að tröllkona byggi framar á dalnum, en Guðmundur lagði lítinn trúnað á þær. Hann gekk þangað ávallt til að leita fjallagrasa og hafði aldrei orðið trölla var.

Haust eitt gerði hlýviðri og þokur miklar og var veðrið hentugt til grasatekju. Guðmundur gekk á dalinn eins og hann var vanur og þegar leið að kvöldi hélt hann heim á leið. Er hann hafði gengið drjúga stund sá hann afar stórvaxna konu sem  stefndi í áttina til hans. Guðmundi leist ekki á að verða á vegi kerlingar og greikkaði  sporið, en kerla stikaði þá stórum til að komast fyrir hann og kallaði: „Flýr þú nú  Gvöndur?“ Enn síður leist Guðmundi á að eiga nokkur viðskipti við tröllið eftir að  hafa heyrt til hennar og tók til fótanna í átt heim að bænum.

Ódámur. Teikning: Sunneva Guðrún Þórðardóttir

Á hlaupunum leit hann um öxl og sá að skessan elti hann og dró á. Guðmundi varð  ljóst að hann hefði ekki við kerlu á hlaupum svo hann brá á það ráð að hneppa frá  sér buxunum. Þegar skessan átti skammt ófarið til að ná honum, snarstansaði hann,  sneri sér við og gyrti niður um sig. Kerlingin stakk við fótum, góndi á hann neðan mittis og hrópaði: „Ódámur, ódámur! Fussum, fussum!“ Tók hún síðan á rás til fjalla. Guðmundur hysjaði upp um sig buxurnar, hélt heim á leið og varð ekki framar var  við kerlinguna.

Frá þessum degi hefur krökkum í Strandasýslu verið kennt það óbrigðula ráð að  girða niður um sig ef þau rekast á tröll á fjöllum uppi og hræða þau þannig burt.

Kleppa í Staðardal

Tröllkona ein hét Kleppa og bjó í Staðardal í Steingrímsfirði um það leyti sem kristni barst til landsins. Var henni afar uppsigað við kristna trú og afrekaði það meðal annars að eyðileggja steinboga sem var göngubrú yfir ána við Kirkjutungur í norðanverðum Staðardal. Þetta gerði hún til að spilla leiðinni til kirkjunnar á Stað. Kleppa fór oftsinnis norður í Trékyllisvík til að sækja stórviði í hof sem hún hafði í byggingu. Þá bjó Finnbogi rammi á Finnbogastöðum og hafði hann reist kirkju á bæ sínum. Þegar Kleppa var í ferðum sínum stríddi Finnbogi henni gjarnan með því að  hringja kirkjuklukkunum. Varð henni ætíð svo bilt við að hún fleygði frá sér  byrðunum og stökk í burtu með ópum og óhljóðum. Einhverju sinni þegar Kleppa var búin að fá sig fullsadda af stríðni Finnboga, tók hún sig til og klippti allt gras af grundunum í kringum bæ hans. Síðan meig hún þvílíku flóði að gríðarmiklar mýrar mynduðust við býlið. Finnboga þótti meira en nóg um þessa framtakssemi skessunnar, skundaði upp í fjall og spyrnti heljarmiklu bjargi niður yfir hana. Segja menn að hóllinn sem stendur upp við hlíðarrótina, milli Finnbogastaða og Bæjar, hafi orðið til úr skriðunni og ber hann nafn Kleppu sem  hvílir undir hólnum.

Pjakkur

Í vonskuveðri um miðjan vetur var barið að dyrum á bænum Rauðamýri við Ísafjarðardjúp. Ásgeir bóndi opnaði og sá auman og tötralegan förudreng standa fyrir utan í snjóbylnum. Pilturinn bað um húsaskjól yfir nóttina, en fékk heldur fáleg svör. Húsfreyjan latti mann sinn mjög til þess að hleypa drengnum inn og fyrir orð hennar var honum úthýst. Þegar förudrengurinn sá að ekki fengi hann gistinguna brást hann reiður við, hafði í heitingum og sagði að hann myndi finna þau hjón í fjöru ef hann yrði úti í þessu veðri. Ekki þarf að orðlengja að hann týndist þessa nótt og er talið að hann hafi reynt að komast yfir á Strandir um Steingrímsfjarðarheiði, en farið niður um ís á ánni og drukknað. Eftir dauða piltsins urðu menn varir við að hann fylgdi Ásgeiri og ættmennum hans. Þegar þau fluttu síðar frá Rauðamýri yfir á Vatnshorn í Þiðriksvalladal, nærri  Hólmavík, flutti draugurinn með þeim. Sagt var að hann hefði stokkið upp á bakið á síðasta hestinum sem flutti búslóðina á Strandir og sá hestur datt dauður niður þegar hann kom í áfangastað. Draugurinn var nefndur Pjakkur vegna þess að draugurinn gekk við stóran broddstaf sem hann pjakkaði stöðugt niður fyrir framan sig, eins og til að reyna ótraustan ís. Allir sáu Pjakk, bæði skyggnir og óskyggnir, og sögðu hann vera í sauðsvartri peysu og með fornlega lambhúshettu á höfði. Draugurinn olli Ásgeiri miklu hugarangri meðan hann lifði, enda hagaði hann sér  eins og aðrar afturgöngur, drap búpening, hrelldi fólk og gerði ýmsan óskunda. Pjakkur var svo magnaður að hann sást bæði í myrkri og um hábjartan dag, en  yfirleitt heyrðu menn þó bara í honum. Pjakkur var vandlátur draugur og fylgdi ekki  öllum í ættinni. Þegar mátturinn fór að þverra virtist það fara eftir því hversu  skemmtilegir menn voru, hvort hann hélt það út að fylgja þeim eða ekki.

Þjóðbrók, Gissur og hákarlinn

Tröllskessan Þjóðbrók átti bústað í Þjóðbrókargili sem er vestanvert í Selárdal við  Steíngrímsfjörð á Ströndum. Eitt sinn var Gissur húskarl á Stað við fjárleit í dalnum. Kallaði þá Þjóðbrók til hans og heimtaði að hann dveldi hjá sér og vildi fá hann fyrir mann. Fannst henni Gissur þó helst til smávaxinn til að eiga svo stórfenglega konu og togaði hann og teygði, svo að hann varð miklu hærri en áður. Gissuri líkaði dvölin illa og brá að lokum á það ráð að þykjast veikur. Sagðist varla lifa nema hún gæti útvegað sér fimmtán ára gamlan hákarl. Þjóðbrók vildi allt til vinna að halda lífi í verðandi ástmanni sínum og hélt norður í Árneshrepp til að útvega hákarlinn, en Gissur strauk þegar í stað og hélt heim á leið. Þegar hann var kominn á fjallsbrúnina fyrir ofan Stað sá hann hvar skessan kom  æðandi á eftir honum með hákarlskippu og æpti hástöfum: „Hákarlinn, Gissur,  hákarlinn, fimmtán ára gamall og sextán ára þó.“ Gissur hljóp nú eins hratt og fætur toguðu þar til hann náði kirkjunni á Stað. Þar stóð yfir messa og hringdi fólkið kirkjuklukkunum. Það bjargaði honum að tröllum er illa við klukknahljóð og  Þjóðbrók hörfaði undan. Sagan er samt ekki búin þarna, því tröllskessan sat um Gissur og vildi ná fram hefndum fyrir svikin. Þetta vissu allir heimilismenn á Stað og höfðu góðar gætur á Gissuri, svo hann var aldrei látinn vera einn. Eitt sinn var hann samt einn við fjósverkin og kom þá Þjóðbrók, réðist á hann og dauðrotaði á flórhellunni í fjósinu. Seinna á Þjóðbrók að hafa dagað uppi í gilinu sem við hana er kennt og stendur steindrangurinn þar enn í fallegum hvammi.

Selkolla

Fyrir mörg hundruð árum fæddist meybarn á bænum Eyjum norður á Bölum á  Ströndum og var ákveðið að færa barnið sem fyrst til Staðarkirkju í Steingrímsfirði  til skírnar. Í förina valdist vinnufólk af bænum, karl og kona, og héldu þau sem leið lá til kirkjunnar. Uppi á Bjarnarfjarðarhálsi varð þeim ljóst að þau báru ástarhug hvort til annars og námu staðar við stein einn mikinn til að njóta holdsins lystisemda. Konan lagði barnið frá sér öðru megin við steininn og síðan brugðu þau á leik hinu megin við hann. Að drjúgri stund liðinni ætluðu þau að halda ferðinni áfram. Var þá ekkert lífsmark með barninu og var það svo illilegt á svip að þau hrukku frá. Hröðuðu þau ferð sinni aftur til bæjar og voru gerðir út menn til að sækja barnið, en hvorki fannst af því tangur né tetur. Fljótlega urðu menn varir við einkennilega og stórvaxna kvenveru á hálsinum, stundum í kvenmannsmynd, en stundum með selshöfuð og fékk hún af því nafnið Selkolla. Töldu sumir að barnið hefði orðið að afturgöngu, en aðrir sögðu að illur andi hefði hlaupið í það. Selkolla sást oftast á ferð nærri Selkollusteini en gerði víðreist um hálsinn og drap fénað. Varð hún einnig djarftæk til selveiða og útrýmdi næstum öllum sel við Selströnd. Bændum þótti illt að bera skaðann og gerðu eitt sinn aðsúg að henni, en við það tvíefldist Selkolla og hefndi sín grimmilega. Hrakti hún menn í opinn dauðann, en villti um fyrir öðrum á hálsinum. Einnig átti Selkolla það til að bregða sér í líki eiginkvenna bændanna og leita eftir ástum þeirra, en eftir slík atlot misstu þeir vitið. Þó gerði hún mannamun, eitt sinn gekk hún fram á fátæka stúlku rammvillta sem hafði ætlað að Hafnarhólmi á Selströnd. Selkolla rétti henni reipisenda og teymdi hana síðan til bæjar í óveðrinu.

Að lokum var það Guðmundur biskup góði sem bjargaði Strandamönnum frá  óvættinni. Hann setti drauginn Selkollu niður í gólfið á Hafnarhólmi og lét svo setja niður sex krossa í kringum bæinn, söng messu og stökkti á krossana vígðu vatni. Varð þá ekki vart við drauginn um aldir, ekki fyrr en á 19. öld. Þá fór aftur miklum sögum af reimleikum á Bjarnarfjarðarhálsi og þóttust menn vissir um að þar væri  Selkolla aftur komin. Er ekki laust við að enn þyki sitthvað óhreint á sveimi við  Selkollustein.

Selkollusteinn á Bjarnafjarðarhálsi. Mynd: Silja Á.

Steingrímur trölli

Á Staðarfjalli við Steingrímsfjörð á Ströndum er klettaholt sem er kallað  Steingrímshaugur, þakið grastorfu. Þar á Steingrímur trölli landnámsmaður í  Steingrímsfirði að vera heygður, en ýmist er sagt að hann hafi búið í Tröllatungu eða á Stað. Sagan segir að hann hafi viljað láta heygja sig þar sem víðsýnast væri um landnámið og mælt svo fyrir að skip myndu ekki farast á firðinum þar sem sæist frá  haugnum. Steingrímur faldi fjársjóð í haug sínum áður en hann var heygður og sagnir eru um að menn hafi reynt að grafa eftir góssinu. Eitt sinn hófu tveir menn gröft í hauginn í leit að fjármunum, en þeim varð fljótlega ljóst að að þörf væri á öflugri verkfærum og fór annar að sækja þau. Þegar hann kom fram á brúnina sýndist honum bærinn á Stað standa í ljósum logum. Hann sneri við til að segja félaga sínum tíðindin, en þá voru fætur hins fastir við jörðina. Hættu þeir félagar þá greftrinum og hurfu frá. Í annari útgáfu af sömu sögu segir að þegar mennirnir tveir hafi farið að grafa í hólinn hafi skollið á svarta þoka, svo þeir sáu ekki handa sinni skil. Þeir héldu þó áfram að grafa, en fannst þá skyndilega eins og þeir stæðu sjálfir í ljósum logum. Þá hættu  þeir leitinni að fjársjóði Steingríms trölla. Þriðja sögnin segir að í Steingrímshaugi hafi fundist hringur sem síðar var notaður á kirkjuhurð Staðarkirkju og gulli sleginn skírnarfontur sem líka var notaður í kirkjunni.

Gvendur góði og skessan

Sagan segir að tröllskessu einni sem átti heima í Skreflufjalli í Árneshreppi á  Ströndum hafi þótt bóndinn í Kolbeinsvík alveg óþolandi. Ástæðan var sú að hann byggði bæinn sinn svo nálægt hellinum hennar. Leitaði hún margra leiða til að  hrekja hann í burtu og vildi helst drepa hann og allt hans hyski.  Nótt eina tók hún það til bragðs að setjast á fjallsbrúnina fyrir ofan bæinn og  sparkaði fram vænni sneið af fjallinu. Hugmyndin var sú að enginn sem yrði undir þeirri skriðu þyrfti framar um sárt að binda. Kerla varaði sig hins vegar ekki á því að þessa sömu nótt gisti Guðmundur biskup hinn góði í Kolbeinsvík. Hann vaknaði við skruðningana í grjóthruninu, vatt sér í snatri framúr og sá hvar fjallshlíðin skreið fram. Biskupinn hljóp út úr bænum og sá  strax að þessu myndi tröllkerlingin valda. Guðmundur biskup breiddi þá út faðminn móti hrapandi fjallinu og hrópaði: „Hjálpa  þú nú Drottinn, eigi má veslingur minn!“ Á sömu stundu og biskup mælti þessi orð stöðvaðist grjóthrunið þar sem það nú er, rétt við bæinn, og hefur aldrei hreyfst  síðan.

Heimildir: Draugar og tröll og ósköpin öll… Smávegis um þjóðsögur og þjóðtrú.

Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir. Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðtrúarstofa 2019

 

Áhugaverðir hlekkir:

Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum. Þjóðfræðstofa.
https://www.hi.is/rannsoknaseturstrandir

Galdrasýningin. Ýmsar upplýsingar um þjóðtrú og galdra
www.galdrasyning.is/viskubrunnur/

Kort með útbreiðslu sagna og þjóðsagnasöfn.
www.sagnagrunnur.com

Frásagnir og viðtöl, m.a. Frá Ströndum:
www.ismus.is

Könnun um þjóðtrúarviðhorf Íslendinga. Hér má sjá niðurstöður hennar:
www.fel.hi.is/islensk_thjodtru_og_truarvidhorf_19742006