Strandmenning

Lífið á Ströndum hefur í gegnum tíðina verið mótað af ströndinni sem svæðið er nefnt eftir, enda búa flestir íbúar svæðisins við ströndina. Frá ströndinni hefur Strandafólk sótt mikil verðmæti í hafið. Þegar hvað mest var um rekavið á Íslandi var hann helst að finna á Ströndum og hefur verið þónokkur búbót af honum. Enn er rekaviðurinn nýttur og m.a. er Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík byggt úr rekaviði.

Það má greina mikilvægi strandmenningar í öllum sveitarfélagamerkjum svæðisins. Rekaviðurinn er viðfangsefnið í auðkennismerki Kaldrananeshrepps, skipsstafn og sjór í merki Strandabyggðar og hákarl í merki Árneshrepps.

Þónokkuð mikið er um rekavið á Ströndum. Mynd: ÁÞ

Hákarlaveiðar voru enda stundaðar á svæðinu lengi og myndaðist m.a. þorp í kringum hákarlaveiðar á Gjögri um aldamótin 1900, en þar var þekkt verstöð. Hákarlalýsið var brætt og flutt úr landi. Svo mikil og mikilvæg voru þessi viðskipti að verslunarhöfnin í Kúvíkum í Reykjarfirði var um tíma kölluð lýsishöfn. Við þessar veiðar voru mest notaðir opnir árabátar, framanaf einungis sexæringar, svo einhverjir áttæringar og að endingu fáeinir teinæringar.

Hvalveiðar voru einnig stundaðar á svæðinu allt frá 17. öld, þegar baskneskir hvalveiðimenn komu á svæðið, en þá hafði hvalur horfið af hefðbundnum veiðisvæðum þeirra við Nýfundnaland og fært sig norðar. Hákarlaveiðarnar lögðust að mestu af í kringum aldamótin 1900, en skömmu síðar, árið 1917, urðu ákveðin kaflaskil varðandi nýtingu gjafa hafsins, þegar Elías Stefánsson setti á fót síldarsöltunarstöð í Djúpavík og fyrsta síldarævintýrið hófst á Ströndum. Þá risu fleiri söltunarstöðvar, og voru á þessum árum reknar 4-5 stöðvar til viðbótar við þá í Djúpavík, m.a. a Eyri við Ingólfsfjörð. Fyrsta síldarævintýrið stóð fram til kreppunnar miklu árið 1919, en seinna síldarævintýrið stóð frá 1934 til 1954. Stærsta síldarverksmiðja landsins – og raunar stærsta steinsteypta bygging á Íslandi á þeim tíma – reis þá í Djúpavík á örskömmum tíma, en hún er 90 metra löng á þremur hæðum. Íbúum fjölgaði mjög í báðum þessum „síldarævintýrum“. Í dag er í verksmiðjunni gömlu sögusýning, auk þess sem þar hafa farið fram menningarviðburðir. Þar hafa verið sett upp leikrit, böll haldin og fjölmargir tónleikar, þ.á.m. tónleikar Sigur Rósar árið 2006.

Gamla síldarverksmiðjan á Eyri við Ingólfsfjörð, Árneshreppi. Mynd: Silja Á.