Sjávarútvegur

Líkt og á svo mörgum svæðum við strendur Íslands, hefur sjávarútvegur verið mikilvægur fyrir Strandafólk í gegnum árin. Svo mikilvægur var hann framan af 20. öldinni að langvarandi aflabrestur olli talsverðu atvinnuleysi í kringum 1950. Atvinnulíf glæddist svo árið 1965 þegar rækjuvinnsla hófst á Hólmavík, en enn þann dag í dag er rækjuvinnslan á Hólmavík, sem er svæðinu mikilvæg. 

Ketillinn örlagaríki

Það var nokkuð ævintýri að koma rækjuvinnslunni af stað, þar sem það þurfti gufuketil til að sjóða rækjuna. Slíkur var til á svæðinu, en hann hafði verið notaður í lifrarbræðslu. Ketillinn hafði hins vegar verið dæmdur ónýtur og honum velt út í sjó þegar lifrarbræðslan hafði verið lögð niður nokkrum árum áður. Það þurfti því að veiða ketilinn upp úr sjónum til að kanna ástand hans, en með litlum tilkostnaði var hægt að gera við hann og hefja rækjuvinnslu.

Síðustu ár hefur útgerð á svæðinu aðallega verið smábátaútgerð og þá sérstaklega línuveiðar, en einnig grásleppuveiðar á vorin.

Fiskveiðibátur í Steingrímsfirði. Mynd: Haukur Sig.