Náttúra

Strandir draga nafn sitt af vogskorinni strandlengjunni sem einkennir svæðið og liggur sunnan úr botni Hrútafjarðar norður eftir austanverðum Vestfjarðakjálkanum.
Landslagið á Ströndum er þó æði fjölbreytt og einskorðast síður en svo við strandaflæmi. Syðst einkennist landslagið einna helst af undirlendi, aflíðandi fjallshlíðum og ströndum en eftir því sem norðar dregur tekur við meira fjalllendi og hærri klettabelti, sem ná víða fram í sjó. Norðarlega á Ströndum, þar sem Hornstrandir taka við, er einnig Drangajökull, nyrstur jökla á Íslandi og sá eini sem er eftir á Vestfjörðum. Hæsti tindur hans er Jökulbunga, 925 m hár. Jökullinn er ansi seigur og er eini jökullinn á Íslandi sem hefur ekki smækkað á undanförnum árum. Engu að síður er talið að Drangajökull muni hverfa í kringum árið 2050, haldi þróun hlýnunar jarðar áfram eins og spár gera ráð fyrir.

Landslag og landmótun

Kaldalónsjökull, skriðjökull úr Drangajökli. Mynd: Silja Á.

Landið á Ströndum var að mestu sorfið og mótað af ísaldarjöklum, sem hafa skilið eftir sig greinileg ummerki víða, en einnig hefur sjávarágangur mótað landið. Styðjist fólk við þjóðsögur má einnig segja að tröll hafi komið að mótun landsins, en sagan segir að þrjú tröll hafi ætlað að gera Vestfirði að eyju, en ekki getað klárað verkið áður en sólin kom upp. Sú tröllkerling sem sá um austurhliðina var búin að sjá allar eyjarnar vestur á Breiðafirði og vildi ekki að austurhliðin væri algjörlega laus við eyjar, svo hún nýtti síðustu andartökin fyrir sólarupprás í að búa til Grímsey í Steingrímsfirði, sem er stærsta eyjan á Ströndum.

Líkt og annars staðar á Vestfjörðum er bergtegundin blágrýti og jarðlög á meðal þeirra elstu á landinu, en hraunlögin hlóðust upp í eldgosum fyrir um 10-12 milljónum ára. Eldstöðvar á svæðinu eru allar löngu kulnaðar, en sjá má ummerki þeirra í fornum berggöngum, berglögum og holufyllingum.

Jarðhiti er þó nokkuð víða, og má njóta hans m.a. í pottunum á Drangsnesi, Gvendarlaug og sundlauginni á Laugarhóli og Krossneslaug í Árneshreppi.

Grímsey á Steingrímsfirði og þorpið Drangsnes í forgrunni. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsd.