Galdrar

Strandir eru sögusvið galdra og segja má að galdrafárið á Íslandi hafi byrjað þar. Margar sögur af svæðinu tengjast göldrum sem flokka mætti undir þjóðsögur en einnig eru raunverulegar sögur af örlögum fólks sem stundaði kukl og galdra eða var ásakað um slíkt. Í Trékyllisvík í Árneshreppi er klettagjáin Kista sem var aftökustaður fyrir galdramenn sem voru brenndir þar.

Galdrasýning á Ströndum gerir sögunni vel skil á sýningu sinni á Hólmavík en heldur einnig úti vefsíðu með ýmsum áhugaverðum fróðleik.

Galdrar á Ströndum

Hetjan féll á höfuðið,
Hrikti í liðaböndum.
Ekki er gott að glíma við
Galdramenn af Ströndum.
-Húsgangur úr Dalasýslu

Á Íslandi voru í það minnsta 170 aðilar dæmdir fyrir galdur. Af þeim voru 21 brenndir en fjórði hver var hýddur og fjórðungur náði að sverja sakleysi sitt eða var sýknaður. Þrátt fyrir að fyrirmenni hafi verið ásökuð um galdra þá þurftu þau ekki að þola þær líkamlegu refsingar sem almenningur varð fyrir. Dómskerfið var um margt örðuvísi á þessum tíma og vald sýslumanna mikið. Ekki þurfti ákæru til að réttað væri yfir mönnum, orðrómur eða grunur dugði. Æðra dómstig var í höndum lögmanna en síðar meir hlutuðust dómstólar í Danmörku til um að dauðadóma skildi bera undir þá og eftir það var galdrabrennum hætt.

Ekki er mikið til af rituðum heimildum úr fornöld um Strandir en svæðið var harðbýlt og afskekkt. Strandir koma hins vegar sterkar inn þegar talið berst að göldrum og má rekja upphaf galdrafársins á Íslandi á Strandirnar.

Samantekt: Galdrasýning á Ströndum. ABÞ

Trékyllisvík – Árneshreppi

Undrin í Trékyllisvík

Árið 1652 fer að bera á einhverjum ókyrrleika og sjúkleika hjá íbúum í Trékyllisvík. Þetta lýsti sér með því að þegar fólk fór til kirkju fór það að haga sér undarlega, ropa og fundu fyrir almennri vanlíðan. Þetta lagðist verst á ungar og ógiftar konur en eftir að þessi óárann rann af fólki kenndi það sér einskis meins. Nýráðinn sýslumaður Strandasýslu, Þorleifur Kortsson, fékk það verkefni að komast til botns í þessu máli. Þetta leiddi til þess að Þórður Guðbrandsson var brenndur fyrir galdra eftir að hafa fallið á tylftareið, þ.e.a.s. hann fékk ekki menn til að sverja eið að hann væri ekki galdramaður og var hann brenndur í klettagjánni Kistu í Trékyllisvík ásamt Agli Bjarnasyni sem játaði ýmsa sök s.s. samneyti og samninga við djöfulinn. Rétt áður en kveikt var í Þórði sagði hann að Grímur Jónsson væri mestur galdramanna í Trékyllisvík. Eftir rannsókn kom í ljós að hann hafði einnig mikið galdraorð á sér og játaði hann á sig alls konar kurl. Hann var dæmdur og sá þriðji sem var brenndur í Kistu í Trékyllisvík árið 1654. Eftir þetta róuðust íbúar í Trékyllisvík um tíma en ári síðar er Margrét, dóttir Þórðar, sökuð um meinsemdargaldur og flýr sveitina svo hún fái ekki sömu örlög og faðir sinn. Mál hennar kom oft fyrir dómstóla en hún náði að sverja sakleysi sitt 1662 og var þá laus allra mála.

Samantekt: Galdrasýning á Ströndum. ABÞ

Bjarnarfjörður – Kaldrananeshreppi

Í miðjum dalnum bjó […] frægasti galdrakarl Íslendingasagna, Svanur á Svanshóli, einrænn karl og forn í háttum sem ekki vildi láta grafa sig í krikjugarði og hvarf úr kistu sinni þegar líkfylgdin nálgaðist kirkju, og Jón glói sem um tíma bjó í Goðdal þar sem kerling hans átti að brúka tilbera eða snakk.

Heimild: Angurgapi, um galdramál á Íslandi. 2003 Strandagaldur ses og Magnús Rafnsson.

Hólmavík – Strandabyggð

Í Steingrímsfirði kom upp eitt mál sem telja verður með þeim mikilvægustu í sögu galdramála á Íslandi. Þar var Klemus Bjarnason ákærður fyrir kukl í hefndarskyni, en hann var síðasti maður sem dæmdur var til að brennast lifandi á báli þótt dómnum væri síðan breytt í útlegð.

Heimild: Angurgapi, um galdramál á Íslandi. 2003 Strandagaldur ses og Magnús Rafnsson.

Hægt er að lesa meira um Klemus á vefsíðu Galdrasýningarinnar hér. Skúlptúr eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson af Klemusi stendur á Galdratúninu, við Galdrasýninguna á Hólmavík.

Klemus eftir listamanninn Arngrím Sigurðsson. Mynd: Galdrasýning

Ísafjarðardjúp – Strandabyggð

Árið 1683 er Sveinn Árnson dæmdur, líklega á Nauteyri við Ísafjarðardjúp, fyrir að hafa valdið veikindum prófastfrúarinnar Helgu Pálsdóttur í Selárdal. Sveinn var einn af sex manns sem brenndir voru fyrir sömu sakargiftir. Munnmæli segja að það hafi átt að flytja Svein á Alþingi en þeir sem það áttu að gera nenntu ekki lengra en inn í skóginn við Arngerðareyri í Ísafirði og brenndu hann þar. Það er síðasta galdrabrenna á Íslandi.

Heimildir: Ólína Þorvarðardóttir: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2000

Hrútafjörður

Þorleifur Kortsson bjó á Bæ í Hrútafirði. Hann var sýslumaður Strandamanna og lögmaður meðan galdrafárið reis sem hæst.

Heimild: Angurgapi, um galdaramál á Íslandi. 2003 Strandagaldur ses og Magnús Rafnsson