Dýralíf

Dýralíf á Ströndum er fjölskrúðugt sem markast af fjölbreyttum búsvæðum dýranna en þar er auðugt fuglalíf hvort heldur við ströndina, á láglendi eða uppi á heiðum og fjöllum. Svæðið er líka kjörlendi fyrir spendýr á landi og í sjó.

Fuglar

Dýralíf á Ströndum er fjölbreytt og þá alveg sérstaklega fuglalífið. Í fjörum, móum og mýrum má sjá fjölmargar fuglategundir, svo svæðið er tilvalið til fuglaskoðunar. Þar má m.a. sjá nokkuð fágætar tegundir eins og örn, fálka og jafnvel branduglu á réttum tíma árs.

Æðarvarp er talsvert, en merki þess má m.a. sjá í fjölbreyttum fuglahræðum sem halda vargi frá varpinu. Þessar fuglahræður eru gjarnan gerðar úr rekavið, sem er eitt af einkennum Stranda.

Lundi í Grímsey í Steingrímsfirði. Mynd: Silja Á.

Í Grímsey er mikið lundavarp, en um 30-40.000 pör verpa í eyjunni.
Eyjan er einnig varpstaður fleiri fuglategunda og er líklega eini staðurinn á Vestfjörðum þar sem sjá má fjórar tegundir máva verpa á sama svæðinu. Það eru hvítmávar, svartbakur, silfurmávar og sílamávar.

Spendýr

Af landdýrum eru Vestfirðir auðvitað sérstaklega þekktir fyrir refi og á Hornströndum er friðland heimskautarefsins. Þar má sjá hann í tveimur algengustu litaafbrigðunum, hinu hvíta og því mórauða, en einnig hinu sjaldgæfa bleika litarafbrigði.

Úti fyrir ströndinni má finna sellátur, aðallega landsels- en líka útselslátur, svo nokkuð algengt er að sjá forvitna seli í námunda við land. Oft má sjá hvali í námunda við land, sérstaklega í Steingrímsfirði, þar sem finna má mikið af hnúfubak á sumrin. Hrefnur og höfrungar láta einnig sjá sig, auk þess sem háhyrningar, búrhvalir, grindhvalir og jafnvel steypireyðar hafa heimsótt svæðið.

Refur á Hornströndum. Mynd: Silja Á.
Selir við Tungugrafarvoga. Mynd: Silja Á.
Háhyrningar við Fiskines, Kaldrananeshreppi. Mynd: Ásta Þ.