Vill sjá markvissa sókn í ný atvinnutækifæri

Skrifað af:

Ritstjórn

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar. Mynd: Jón Jónsson, bakgrunnsmynd: Þorgeir Pálsson.

Þorgeir Pálsson var ráðinn sveitarstjóri Strandabyggðar í júlí 2018 og hóf formlega störf í ágúst sama ár. Strandir.is fékk Þorgeir til þess að svara nokkrum spurningum um sig, stöðu Strandabyggðar og framtíðarsýn.

Hver er bakgrunnur þinn og hvað leiddi þig í þetta starf?

Ég hef unnið við ýmislegt, en lengst við ráðgjöf og alþjóðleg verkefni, auk þess að hafa kennt við ýmsa háskóla í um 27 ár. Undanfarin 17 ár ca. við Háskólann í Reykjavík, en þar áður við Háskólann á Akureyri. Ég hef aðeins komið að kennslu við Háskólann á Bifröst og reglulega undanfarin ár hef ég kennt og leiðbeint við sjávarútvegsháskóla Sameinuðu Þjóðanna, hér á Íslandi.

Ég er fæddur á Hólmavík og á hér marga ættingja og vini og því hafa alltaf verið taugar hingað.  Á seinni árum fann ég síðan fyrir áhuga á að koma meira að uppbyggingu og þróun Strandabyggðar. Árin 2014 og 2015 tók ég að mér sem ráðgjafi að stýra stefnumótunarvinnu Strandabyggðar og það var mjög skemmtileg og dýrmæt reynsla. Kannski kviknaði áhuginn á þessu starfi þar, ég veit ekki, en ég sótti a.m.k. um og fékk starfið.  

Hvað menntun mína varðar, tók ég BSc gráðu í sjávarútvegshagfræði í Bodø í norður Noregi á árunum 1985-1989 og svo eitt ár í alþjóðaviðskiptum í Skedsmo, rétt utan við Osló. Mörgum árum seinna, eða 2006-2008, tók ég meistaragráðu í rekstrarhagfræði, MBA við Háskólann í Reykjavík.

Starf sveitarstjóra er ótrúlega fjölbreytt en engu að síður get ég oft á tíðum sótt í bakgrunninn, menntunina og reynsluna. Margir dagar eru þó algerlega opin bók, sem er krefjandi en spennandi í senn.

Hvað fékk þig til að flytja til Hólmavíkur?

Þetta er í raun í annað skiptið sem ég bý hér. Eins og ég sagði, fæddist ég 10. apríl 1963, í miklu óveðri skilst mér. Foreldrar mínir, Páll Þ. Þorgeirsson og Kristín Lára Þórarinsdóttir, bjuggu þá hjá afa og ömmu í Snæfelli, þeim Þorgeiri Sigurðssyni og Kristbjörgu Pálsdóttur. Þar vorum við víst í eitt ár, og fluttum þá suður. Ég var mikið hér á sumrin þegar ég var 7-9 ára og var þá sendur með rútu frá Guðmundi Jónassyni hingað til Erlu frænku (Erla Þorgeirsdóttir, föðursystir mín) og Binna (Brynjólfur Sæmundsson). Það var mikið ferðalag, um 8 klukkutíma ferð frá BSÍ og ég man enn vel tilfinninguna að keyra strandirnar og að koma svo niður brekkuna fyrir neðan kirkjuna og inn í þorpið. Í seinni tíð fann ég svo sterka löngun til að vera meira hér og fór að svipast um eftir húsnæði.

Ég keypti mér hús hér 2001 og eftir að við Hrafnhildur Skúladóttir, sambýliskona mín, eignuðumst Heklu Karítas, 2013, ákváðum við að taka barneignarleyfið hér í húsinu okkar. Það barneignarleyfi varði í um þrjú ár. Okkur hefur alltaf liðið mjög vel hérna, jafnvel í 65m² húsinu, sem auðvitað er of lítið, sérstaklega núna þegar annað barn, Erling Þórarinn hefur bæst við.  Stóra stelpan og verðandi unglingurinn á heimilinu, Jóhanna Rannveig, sýnir þessu plássleysi mikinn skilning og á mikið hrós fyrir. Við gátum bara ekki sleppt nálægðinni við Borgirnar, náttúruna, álfana (segja krakkarnir) og útsýninu héðan af Borgabrautinni. Þetta eru vandfundin lífsgæði sem vega upp plássleysið.

Hvað finnst þér best við að búa í Strandabyggð?  

Kyrrðin. Þægindin sem felast í því hversu vel tíminn nýtist. Fólkið. Hér er gott fólk sem líður vel hér, hefur tekið þátt í að byggja þetta samfélag upp og vill sjá það vaxa. Vissulega erum við fámenn og fámenninu fylgja bæði kostir og gallar. En það vita allir sem flytja í lítil þorp úti á landi. En þetta er dómhart samfélag og það er nokkuð sem við ættum að hugleiða. Það eru oftast tvær hliðar á öllum málum.

En hvað finnst þér mest krefjandi við að búa í Strandabyggð?

Það sem ég tel vera mjög krefjandi og um leið hamlandi, sem sveitarstjóri, er aðgengi að fólki, mönnun stöðugilda og verkefna. Þar kemur fámennið í bakið á okkur. Það er ekki svo flókið að fá margar góðar hugmyndir, t.d. varðandi uppbyggingu atvinnulífs. En það er verra þegar á svo að finna einhverja til að framkvæma þessar góðu hugmyndir. Það á nefnilega ennþá við að góð hugmynd er lítils virði, ef enginn er til staðar til að framkvæma hana og gera úr henni verðmæti.

Eru einhverjar ákveðnar breytingar/framþróun sem þú værir til í að sjá í Strandabyggð?

Já, ég hef nokkuð skýra skoðun hvað það varðar. Fyrst verð ég þó að segja að sá mikli niðurskurður sem varð á síðasta ári á framlögum Jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins, hefur eðlilega beint sjónum okkar að kostnaði og sparnaði. Hvar og hvernig getum við sýnt aðhald í rekstri, sparað, dregið úr kostnaði, verið markvissari en samt viðhaldið grunnþjónustu og því þjónustustigi sem við erum vön og viljum? Þetta eru allt eðlilegar spurningar og áherslan hefur verið á kostnað. En það eru tvær hliðar á þessum pening eins og öðrum og hin hliðin snýst um tekjur. Við verðum að skapa meiri tekjur, tryggja okkur fleiri tekjustofna, því það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að spara og hagræða í rekstri. Það er heldur ekki eins og Strandabyggð hafi eytt um efni fram eða fjárfest óviturlega, svona almennt séð, þótt þar megi vissulega finna undantekningar. 

Ég vil gjarnan sjá markvissa sókn í ný atvinnutækifæri, nýjar atvinnugreinar og þar horfi ég t.d. til fiskeldis. Það hefur sýnt sig að margföldunaráhrif fiskeldis eru mikil, fasteignaverð hækkar, atvinnutækifærum fjölgar og ýmis þjónusta vex. Það þarf að skoða alla möguleika og þá er gott að hafa í huga að fiskeldi er ekki bara laxeldi í opnum kvíum. Hvað aðrar atvinnugreinar varðar, þarf að skoða þá innviði sem við bjóðum hér í Strandabyggð. Hér er ljósleiðaratenging möguleg, hægt að bjóða iðnaðarlóðir að einhverju marki a.m.k. En, það er samt margt sem vantar.  Húsnæði; bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Fagþekkingu; við erum ekki með pípulagningamann né rafvirkja á staðnum. Hingað vantar fólk í svo mörg störf. 

Það er umræða um þessi atriði í gangi innan sveitarfélagsins og innan fagnefnda sveitarfélagsins, svo við verðum bara að sjá hverju sú umræða skilar. En í mínum huga er ljóst að við verðum að sækja þessi tækifæri. Þau koma ekki sjálfkrafa. Og þá þurfum við að vera tilbúin að hugsa út fyrir kassann fræga, vera tilbúin til að skoða nýjar leiðir, nýjar atvinnugreinar.  Strandabyggð mun ekki þróast án nýrra tekjustofna inn í framtíðina. Hugsanlega mun sameining hjálpa til, en við verðum að skapa meiri tekjur. Annars höfum við ekki efni á okkur, svo einfalt er það.

Hvaða áhrif hefur Covid-19 haft á Strandabyggð?

Covid-19 og allt sem því fylgdi, hefur að mínu mati undirstrikað eitt mjög mikilvægt og dýrmætt einkenni á íbúum Strandabyggðar; samstöðu. Hér hefur fólk einfaldlega staðið saman í sóttvörnum frá því snemma á síðasta ári. Íbúar tóku þetta alvarlega og gera enn. Ég er stoltur af þessari samstöðu og hrósa hér með íbúum Strandabyggðar fyrir þeirra framlag. Við höfum sloppið vel; ekki alveg, en vel. Auðvitað raskaði þessi faraldur starfseminni á tímabili, en fólk vann vel úr því. Skólastarfið er gott dæmi. Þar tileinkaði starfsfólk sér nýja starfshætti og vinnufyrirkomulag á stuttum tíma og allir spiluðu með; foreldrar, atvinnurekendur, og síðast en ekki síst; nemendur.

Það er erfitt að meta efnahagsleg áhrif á sveitarfélagið, en þó er ljóst að margir, sérstaklega í ferðaþjónustu tóku á sig verulegan samdrátt í tekjum. Það átti þó ekki við um alla, því hér var mikill straumur ferðamanna yfir hásumarið og t.d. tjaldsvæði, sundlaug og veitingastaðir nutu góðs af því.

Samfélagslegi kostnaðurinn, ef við getum talað um þau áhrif sem kostnað, er mjög óljós. Ég held í raun að enginn viti né geti skilgreint þessi samfélagslegu áhrif. Það er alveg ljóst að margir áttu mjög erfitt á þessum tíma, með endalausar samkomutakmarkanir, aukna einveru o.s.frv. Sveitarfélagið bauð fram þjónustu til þeirra sem áttu erfitt, í samstarfi við sóknarprestinn og Rauða Krossinn, en það eru alltaf einhverjir sem bera sín vandamál í hljóði. Covid-19 var og er mikil þolraun á samfélagið allt og því miður er í mínum huga ómögulegt að segja til um endanleg áhrif á samfélagið.

Hvað er helst á döfinni í Strandabyggð um þessar mundir?

„Það er alltaf eitthvað að frétta. Hins vegar er staðan erfið og fjárhagur sveitarfélagsins mjög erfiður. Strandabyggð hefur þó náð samkomulagi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjárhagslega aðstoð út þetta ár, á sama tíma og farið verður ítarlega í rekstrarforsendur sveitarfélagsins, fjárhagsáætlun og ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins. Það verður erfið en mikilvæg naflaskoðun að mínu mati. Ég segi að við verðum að líta á þessa stöðu og það ferli sem er framundan sem tækifæri. Kreppa elur gjarnan af sér tækifæri. Uppgjöf er allavega ekki í boði.

Það eru margir einstaklingar að hugleiða eigin rekstur og það er gott. Við þurfum fólk sem þorir að sækja sína drauma og láta þá rætast. Þar hefur þátttaka okkar í verkefninu Brothættar Byggðir hjálpað mikið og dregið fram vissa gerjun og nýsköpun meðal fólks. Þessi grasrótarvinna er mjög mikilvæg.

Svo má nefna t.d. að Trésmiðjan Höfði er að undirbúa byggingu húsnæðis á Skeiði, sem samanstendur af átta einingum, 40m² hver og gefst fyrirtækjum og einstaklingum færi á að kaupa sér bil. Þarna er aðstaða í boði fyrir þá sem vilja koma einhverju af stað.

Ef við horfum á þessar hefðbundnu atvinnugreinar; sjávarútveg og landbúnað, þá skipta þessar atvinnugreinar okkur miklu máli. Það er viss þróun í matvælaframleiðslu í landbúnaði sem þarf að styðja við og efla. Vinnsla í sjávarútvegi er hins vegar erfiðara viðfangsefni og veiðar í dag eru hráefnisöflun fyrst og fremst. Starfsemi útgerðarfyrirtækjanna er engu að síður mjög mikilvæg fyrir sveitarfélagið.

Tækifærin liggja víða og má nefna; haftengd ferðaþjónusta (sjóstangaveiði, kajaksiglingar o.s.frv.), vetraríþróttir (skíðaganga, jöklaferðir, vélsleðaferðir), fjallahjólreiðar, gönguleiðir milli sveitarfélaga, heilsutengd ferðaþjónusta og heilsutengd þjónusta almennt og Sýslið verkstöð, ný miðstöð skapandi greina á Ströndum og margt fleira.

Þetta er alls ekki tæmandi listi. Strandabyggð er þjónustukjarni þessa svæðis og við verðum að viðhalda þeirri stöðu, með allri þeirri þjónustu sem því fylgir.  

Ógnanirnar eru að mínu mati mannfæðin og ótrygg rekstrarforsenda sveitarfélagsins.  

Það verður að segja eins og er, að sú staðreynd að hér var farið í persónukjör í síðustu kosningum, hefur reynst okkur erfið. Nokkrir af þeim tíu fulltrúum sem kosnir voru sem aðalmenn og varamenn í sveitarstjórn, eru farnir og ólíkt því sem gerist í listakjöri, færast einstaklingar ekki upp listann í stað þeirra sem fara. Þess vegna er Strandabyggð í dag bara með einn varamann. Þetta er veikleiki í okkar stjórnsýslu og hefur þvælst fyrir okkur. Það eru þó ekki fyrirsjáanlegar neinar breytingar held ég fyrr en vorið 2022, þegar kosið verður í sveitarstjórnarkosningum. Sjáum hvað gerist þá.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir Strandabyggð að taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir?  

Það er mikilvægt og hefur gefið fólki aukna trú á eigin getu og eigin verkefni. Markmiðið er jú að virkja fólkið, íbúana og þetta verkefni gerir það. Það er líka mikilvægt að með þessu verkefni kom mjög hæfur verkefnastjóri; Sigurður Líndal Þórisson og með honum þekking á kerfinu, þekking á umsóknarferlinu þegar sótt er um margvíslega styrki o.s.frv. Ég held að ef við lítum til baka á þetta verkefni eftir 5-10 ár, þá munum við sjá að margir íbúar mótuðu viðskiptahugmynd, sóttu um styrk, lærðu að sækja um styrk, leituðu að fjármagni, stofnuðu fyrirtæki og hófu rekstur.  Það er mikilvægt hverju samfélagi að hafa þannig þekkingu og reynslu meðal íbúa og þurfa ekki alltaf að kaupa hana.

Heldur þú að verkefnið skili sér til framtíðar og með hvaða hætti þá helst?

Já, með þeim hætti sem ég lýsti hér framar og við getum kallað; þekkingaruppbyggingu. En ég held líka að til lengdar þurfi að tengja þetta verkefni markvissar við byggðaáætlun stjórnvalda og gefa því miklu meira fjármagn, meira ákvörðunartökuvald og sterkari stöðu í stjórnkerfinu.  Brothættar byggðir gætu þannig verið leið stjórnvalda til að ná fram eða undirstrika sérstöðu vissra landsvæða. Brothættar byggðir gætu verið leið stjórnvalda til að styrkja innviði, laða að fjárfesta, jafna kostnað milli landsvæða, auka þekkingarstig á landsbyggðinni og svo margt annað, sem skapaði landshlutunum sérstöðu. En til þess þarf pólitíska framtíðarsýn og þor.

Eitthvað að lokum?

Já, ég óska ykkur til hamingju með strandir.is og vænti mikils af þessu starfi. Við þurfum á allri góðri og faglegri kynningu að halda.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið

Nýjast

„Norðvesturkjördæmið hefur verið að eflast mikið síðustu ár og tækifærin þar til áframhaldandi uppbyggingar eru óþrjótandi.“
„Norðvesturkjördæmi á sér aðeins framtíð ef fólk sér fyrir sér framtíð sína þar. Til að fólk vilji búa á stöðunum þarf að huga að fjölbreytni.“
Strandabyggð hlaut veglegan styrk úr húsafriðunarsjóði Minjastofnunar Íslands.
Á síðustu árum hefur færst í vöxt að bændur nýti sér fósturtalningar í ám til hagræðingar í sauðburði. Hér er rætt við fósturteljara.
Á sveitarstjórnarfundi í Strandabyggð þann 13. apríl sl. voru samþykktar nýjar reglur um meðferð og birtingu skjala og fundargagna.
Í síðustu viku varð sú nýbreytni í skólastarfi í Grunnskóla Drangsness að boðið er upp á hádegismat fyrir bæði nemendur og starfsfólk í fyrsta sinn.

Aðrar fréttir

Strandir.is er fyrst og fremst vefur alls Strandafólks en einnig fyrir ferðafólk og aðra velunnara sem upplýsinga- og fréttamiðill.
Jón Geir Ásgeirsson, skipstjóri Strandferða segir að sumarið líti vel út og að nú þegar sé talsvert búið að bóka ferðir hjá þeim.
Kyrrðarkraftur er nýtt endurhleðslusetur á Hólmavík fyrir fólk sem vill byggja sig upp og temja sér jákvætt hegðunarmunstur.
Nú um páskana hefjast framkvæmdir að nýju við Krossneslaug í Árneshreppi en verið er að stórbæta aðstöðu við laugina.
Scroll Up