Um illu öflin í samfélaginu, brúðustjórnendur og leikbrúður þeirra

Skrifað af:

Jón Jónsson

Tungugrafarvogar í kvöldsólinni. Mynd: Jón Jónsson

„Hvað er eiginlega í gangi í þínu sveitarfélagi? Ert það þú sem ert þessi illu öfl sem samfélagið þarf að losna við?“ Þessar spurningar fékk ég í fjörugu spjalli um kosningarnar í nokkuð stórum og glaðværum hópi syðra, stuttu eftir að kosið var til sveitarstjórna fyrir rúmri viku. Þær komu frá einstakling sem tengist Strandabyggð ekki neitt, en fylgist vel með fréttum. Spurningarnar voru settar fram vegna frétta sem birtust í nokkrum helstu fjölmiðlum á landsvísu um tvöfaldan sigur Þorgeirs Pálssonar eftir kosningarnar. Þeir birtu nefnilega gagnrýnislaust einhliða frásögn, sem þeim hefur líklega verið send, um að hann hefði unnið tvöfaldan sigur. Fyrst dómsmál gegn sveitarfélaginu og síðan kosningarnar sjálfar. Annað af þessu er rétt, T-listinn sem Þorgeir leiðir hafði betur gegn hinu nýja framboðinu, A-listanum, í kosningunum. Hitt er rangt eins og komið hefur fram, m.a. í grein Andreu Kristínar Jónsdóttir sem birtist hér á strandir.is: Hvenær verður sagan sönn? 

Mér vafðist tunga um tönn og var seinn til svars, enda veit ég ekki svarið. Vildi frekar eyða þessu tali, finnst miklu meira en nóg um hversu mjög fólk vill tala um Þorgeir Pálsson við mig upp á síðkastið. Finnst mörg önnur umræðuefni skemmtilegri, þótt vissulega sé stundum mikilvægt að tala um hlutina. Umræðurnar héldu þó áfram, fleiri tóku þátt og ræddu nú almennt um viðbrögð við kosningum. Þegar fólk vinni kosningar þar sem erjur hafa verið í samfélögum, sé venja að þakka andstæðingum fyrir og sigurvegarar stilla sér upp sem talsmenn friðar og sátta. Tala dálítið fallega um mótframbjóðendur og líka þá sem sinntu þessum málum áður, þakka fyrir vel unnin störf. Í viðtali í Fréttablaðinu var hins vegar eitthvað allt annað uppi á teningnum. Þorgeir notaði þar tækifærið, á þessum tímapunkti, til að halda áfram að hnýta í fólkið í fráfarandi sveitarstjórn, talaði um uppsafnaða þörf á nýjum vinnubrögðum og að losna þyrfti við þau öfl sem stjórnað hafa samfélaginu á Ströndum um langa hríð.

Við tók fjörug umræða um „hin illu öfl“ sem stundum eru sögð stjórna heilu samfélögunum, stórum og smáum, eða öðrum einstaklingum á bak við tjöldin. Slíkar ásakanir koma reglulega fram í íslensku samfélagi og vissulega er bæði satt og rétt að stundum fá auðmenn að ráða of miklu í krafti fjármagnsins. Hugmyndin um brúðustjórnendur sem hafi stjórn á og fjarstýri öðrum einstaklingum eins og viljalausum leikbrúðum, sem eiga þá eiginlega ekki að hafa neinar sjálfstæðar skoðanir eða gagnrýna hugsun, átti hins vegar ekki jafn mikið upp á pallborðið hjá þessum hópi sem var að ræða málin.

Fljótlega var bent á að slíkar ásakanir væru oftast „eldrikarlaskoðanir“, það séu eldri karlar sem setja svona hugmyndir fram eða halda þeim á lofti og langoftast snúist þær um að yngri konum sé stjórnað af körlum. Þetta sé arfur frá feðraveldinu sem vilji viðhalda þeirri ranghugmynd að konur hafi lítið til málanna að leggja, en geti í besta falli verið málpípur einhverra karla í þeirra nærumhverfi.

Ég reyndi að leggja eitthvað inn í umræðuna og stakk upp á að kannski hafi þeir sem sjá brúðustjórnanda í hverju horni, sjálfir alist upp við slíkar aðstæður, þar sem fjölskyldufaðir eða ættarhöfðingi hafi stjórnað skoðun ættarinnar eða fjölskyldunnar á einstökum málum með harðri hendi. Hélt því fram að það væri stutt síðan slíkar aðstæður hafi víða verið fyrir hendi hér á landi, þótt þær séu alls ekki í takt við nútímann og ekki viðurkenndar nú.

Annar sem tók til máls vildi frekar meina að fólk sem héldi svona hugmyndum á lofti væri yfirleitt fólk sem væri óánægt með stöðu sína eða hlutskipti í lífinu, en ætti erfitt með að líta í eigin barm og taka ábyrgðina á eigin lífi og óánægju. Það leitaði sífellt eftir einhverjum öðrum til að kenna um það sem aflaga fer og þá sé ein leiðin að skella skuldinni á einhverja sem eiga að stjórna á bak við tjöldin. Allt er öðrum að kenna.

Fyrirspyrjandinn náði þá orðinu aftur og vildi ræða betur þessi ákveðnu öfl í Strandabyggð sem hefðu stjórnað samfélaginu árum saman. Fljótlega kom í ljós að hún hafði enn aðra kenningu í huga: „Það er bara ein ástæða til að tala svona, eftir að sigur er unninn.“ Hún hélt því svo blákalt fram að verið væri að senda skilaboð inn í framtíðina. Láta fólk vita að ef það verði ekki viljugt til samstarfs geti það fengið að kenna á því. „Ef sveitungar þínir mæta með heykvíslarnar til að reka þig í burtu, getur þú fengið fína vinnu hjá mér,“ sagði hún svo í gríni við mig.

Umræðan snerist síðan á einu augabragði yfir í allt annað og umtalsvert fjölmennara sveitarfélag. Ég tók lítinn þátt, en sat hljóður og hugsi yfir upphaflegu spurningunni: Er það ég sem er þessi illu öfl sem samfélagið í Strandabyggð þarf að nauðsynlega að losna við? Þó ég hafi kynnst Þorgeiri miklu betur en ég kæri mig um síðustu misserin, skil ég alls ekki alltaf hvað hann er að meina. Maður hlýtur samt að túlka þessi ummæli þannig. Ég hlýt allavega að vera partur af þessum öflum.

Ég mátaði í huganum hugmyndina um brúðustjórnendur og leikbrúður við fólkið í fráfarandi sveitarstjórn, sjálfan mig, Ástu Þóris, Guðfinnu, Pétur Matthíasson og Jón Gísla, en hló þá upphátt með sjálfum mér. Gaman væri að sjá einhvern reyna að stjórna eða fjarstýra þessum fimm sérstaklega sjálfstæðu einstaklingum sem sátu í sveitarstjórninni undir það síðasta, hvert með sína skoðun, sérþekkingu og sérvisku. Öll tilbúin í rökræður og að hlusta á ný sjónarhorn, en algjörlega fráleitt að þau láti einhverja aðra stjórna skoðunum sínum.

Niðurstaðan hlýtur beinlínis að vera sú að þegar rætt er um hin illu öfl sem hafa allt of lengi verið við stjórnvölinn í Strandabyggð, sé einmitt verið að tala um mig og líklega allt fólkið í  sveitarstjórninni fráfarandi og sjálfsagt líka allt fólkið sem sat í sveitarstjórnum kjörtímabilin á undan. Eða hvað? Ég er þess vegna dálítið forvitinn að sjá svörin frá samflokksfólki Þorgeirs á T-listanum við spurningum Andreu Kristínu Jónsdóttur sem hún setur fram í grein sinni á Strandir.is. Þar biður hún þau, og sérstaklega þau tvö sem setjast í sveitarstjórnina sjálfa með Þorgeiri, að svara hvort þau séu sammála þessum málflutningi og skilgreina þessi öfl sem talað sé um.

Ef í ljós kemur að ég sjálfur er lykilaðili í skilgreiningunni á þeim öflum sem eiga að hafa stjórnað samfélaginu í Strandabyggð um langa hríð og þarf að losna við, ekki bara í huga Þorgeirs, heldur líka samflokksfólks hans og jafnvel líka þeirra kjósenda sem studdu hann í kosningunum, þarf maður augljóslega að skoða stöðu sína og þátttöku í samfélaginu alvarlega. Verð samt að játa að það kæmi mér á óvart ef kjósendur hafa hugsað þetta svona djúpt. Eða hvað?

Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli og fráfarandi sveitarstjórnarmaður

auglýsingar

Nýjustu fréttir og greinar

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Strandabyggð auglýsir þrjár lausar stöður í Grunnskólanum á Hólmavík og í Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Opinn kynningarfundur um verkefnið Verndarsvæði í byggð á Hólmavík verður haldinn á Kaffi Galdri nk. fimmtudag, 30. júní og hefst kl. 20:00.