Sjávarréttasúpa að hætti Drífu

Skrifað af:

Ritstjórn

Drífa Hrólfsdóttir bóndi á Ósi í fjárhúsunum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Drífa Hrólfsdóttir bóndi býr á Ytri Ósi Strandabyggð. Hún á þrjú uppkomin börn, eina dóttur og tvö stjúpbörn og eitt af þeim býr á Hólmavík, hann Gunnar Bragi Magnússon sem fékk að njóta sjávarréttasúpunnar með Drífu á aðfangadagskvöld þar sem hún var í aðalrétt.

Sjávarréttasúpan hennar Drífu er búin að vera í þróun í yfir 20 ár og hún man ekki lengur hvaðan upphaflega uppskriftin kom. Hún notar alltaf sama grunn en svo fer það eftir því hvaða fiskmeti er til hvað endar í súpunni. „Hún er svo góð og matarmikil og þess vegna hentar hún vel sem aðalréttur, en auðvitað má nota hana sem forrétt ef maður vill. Mér finnst gott að hafa með henni brauðbollur, en veit ekki alveg hvort ég á almennilega uppskrift af þeim, ég kalla þetta svona tilfinningabollur, maður bara setur volgt vatn í skál og hnoðar svo hveiti upp í eftir tilfinningunni og svo er ómissandi að hafa hvítvín með“ segir Drífa.

Gaman að elda úr eigin hráefni en langar að prófa sushigerð

Drífu finnst gaman að elda og baka, en skemmtilegra að elda. „Mér finnst gaman að elda og gaman að borða.“ segir Drífa. En hvað finnst henni skemmtilegast að elda? „Það er gaman að elda eigin hráefni og mér finnst skemmtilegt að elda kindafile sem ég læt marinerast aðeins í pipar og snöggsteiki upp úr smjöri. Ég nota bara pipar en ekki salt, en ef mér finnst vanta salt í lokin nota ég frekar sojasósu. Þetta brúna ég bara á pönnu og set svo í ofninn á meðan ég geri sósu sem er aðallega bara rjómi, sveppir og piparostur, jú og smávegis af rifsberjasultu“ segir Drífa og bætir við að með hafi hún kartöflur og grænt salat. Það eru hæg heimatökin hjá Drífu því hún er sauðfjárbóndi og er með 430 kindur á húsi, en í haust missti hún 69 kindur í hreti, 33 ær og 36 lömb. „Það var alveg hrikalegt, en í gær heimti ég samt eina gimbur af fjalli.“ segir Drífa.

En er eitthvað sem Drífu langar að læra að elda? „Jú, mig langar til að læra að búa til sushi, það finnst mér gott.“ segir Drífa.

Lagkakan klikkaði illilega og lítur hræðilega út

Fréttakonu langar að vita hvort hún hafi lent í einhverjum hremmingum í eldhúsinu. 

„Já alveg örugglega en ég man ekkert eftir neinu sérstöku nema það sem gerðist í gær. Ég hef aldrei klikkað í lagkökunni minni. Ég var að gera fínu hvítu jólalagkökuna mína en ein platan bara klikkaði og ég náði ekki kökunni af og allt molnaði og hún lítur hræðilega út. Þetta hefur aldrei klikkað fyrr“ segir Drífa, en hún bakar alltaf lagkökur fyrir jólin, bæði hvíta og brúna og sörur og mömmukökur en áður bakaði hún meira. „Nú eru barnabörnin komin í að baka sörurnar og mömmukökurnar“ segir Drífa en hún á sjö barnabörn og voru tvö þeirra einmitt í heimsókn þegar fréttaritara bar að garði. 

Drífa sem er þriðji matkrókurinn sem er í Kvennakór Hólmavíkur ætlar að skora á Óskar Halldórsson, „af því að hann er til í áskorun, hann er kokkur, er ekki í Kvennakórnum og ég treysti honum til að koma með góða uppskrift“ segir Drífa að lokum.

Sjávarréttasúpa að hætti Drífu
Sjávarréttasúpan hennar Drífu. Mynd: Drífa Hrólfsdóttir

Sjávarréttasúpa að hætti Drífu

Hráefni:

1 laukur, smátt skorinn 
2 góðar tsk karrý  
Olía til að steikja upp úr
2 – 3 dl hvítvín 
6-8 stk gulrætur, smátt skornar
500 ml. vatn, betrumbætt með fiski- eða humarkrafti
Salt og pipar eftir smekk og smá af hvítlaukssalti 
500 – 700 ml. rjómi 
800g fiskur. Hægt að nota nokkrar tegundir saman ef vill. Nota það sem ég næ í; þorsk, skötusel, humar, rækjur, krækling og krabbakjöt

Aðferð: 

Olía sett í pott og hituð. Í hana fer laukur og karrý er látið krauma í smá tíma eða þangð til laukurinn er orðinn mjúkur. Þá er hvítvíni hellt út í, magn fer mjög mikið eftir smekk hvers og eins. Ég er yfirleitt með heila flösku, helli ca. 1/3  eða rúmlega út í pottinn og drekk rest. Hvítvínið látið sjóða niður, þá er vatni og krafti bætt út í, fer alveg eftir því hvað á að gera mikið, hve mikið af vatni fer í pottinn. Gulrótum bætt út í og þetta er látið sjóða í svolítinn tíma eða þangað til gulrætur eru soðnar að mestu. Rjómanum hellt út í og þá er nú komið að því að athuga með krydd, salta  og pipra og bæta ca. 1 tsk hvítlaukssalti út í. Þetta svo látið malla og smakkað til.

Súpan þarf að vera svolítið bragðmikil á þessu stigi því þegar fiskurinn fer út í tekur hann mikið af salti í sig. Það er hægt að gera þennan grunn með góðum fyrirvara  en setja ekki fiskinn út í fyrr en rétt áður en á að bera þetta fram. Þegar fiskurinn er settur út í þarf að láta suðuna koma upp og leyfa að sjóða í 1-2 mín, fiskur er fljótur að sjóða í gegn. Gott að bera fram með hvítlauksbrauði eða heimabökuðum smábrauðum sem við á mínu heimili köllum tilfinningarbollur.  

Hráefnið í súpuna. Mynd: Drífa Hrólfsdóttir

Tilfinningabollur

2 bollar volgt vatn sett í hrærivélaskál. 1 tsk. salt sett út í vatnið  ásamt 1 msk. sykur og 2 msk. olía. Þá er 1 bréf þurrger sett út í vatnið og gerið látið lifna við.  

Í þetta er sett mjöl eftir þörfum, hveiti eða það sem fólk vill og vélin látin hnoða þetta í svolítinn tíma. Eins hægt að nota handafl en ég læt nú bara hrærivélina sjá um þetta. Deigið látið hefast í ca. 20 – 30 mín. og þá slegið niður og  mótaðar bollur og settar á bökunarpappír, látið hefast aftur í smátíma. Gott að pensla bollurnar með vatni áður en þær eru settar í ofninn. Ofninn stilltur á 180-200 gráður, fer eftir því hvort notaður er blástur eða ekki, minni hiti með blæstrinum og baka í ca.10-15 mín. Til að hafa nægan raka í ofninum læt ég vatn í skál og hef í botninum á ofninum.  

    

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.