Sjávarréttasinfónía Sunnu

Skrifað af:

Ritstjórn

Sunna Einarsdóttir með uppskriftarbæklinginn. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Matkrókurinn er nýr flokkur á strandir.is þar sem matgæðingar á Ströndum og Reykhólum deila uppáhalds uppskriftum sínum, matarsögum og smávegis frá sjálfum sér. Matkrókur vikunnar skorar síðan á einhvern annan að deila sinni uppáhalds uppskrift með lesendum. Sunna Einarsdóttir á Drangsnesi kynnir fyrir okkur partýuppskrift fjölskyldunnar.

Sunna Einarsdóttir býr á Drangsnesi ásamt Halldóri Höskuldssyni sjómanni. Þau eiga 2 uppkomin börn og þrjú barnabörn sem öll búa í Reykjavík. Sunna er alin upp á Hólmavík og rétturinn sem hún ætlar að deila með okkur á sögu aftur í uppvaxtarárin á Hólmavík.

Fastur liður í Þorláksmessupartýi Kaupfélagsins

Stjúpfaðir Sunnu, Jón E. Alfreðsson, var kaupfélagsstjóri á Hólmavík í tæp 40 ár og Svanhildur Vilhjálmsdóttir móðir hennar var vön að halda partý heima hjá þeim á Þorláksmessu fyrir starfsfólk Kaupfélagsins. Þessi réttur var fastur liður í Þorláksmessupartýinu en Sunna segir að rétturinn hafi verið algjört spari og man ekki eftir að hann hafi verið í boði heima hjá sér á öðrum tímum en uppskriftin kemur úr gömlum uppskriftarbæklingi frá Mjólkurdagsnefnd.  

„Þetta er forréttur og bara öllum finnst hann góður ef fólk á annað borð borðar fisk. Það er gott að hafa millisætt hvítvín með og gott brauð segir Sunna. Ég breyti stundum til og skipti út humri fyrir rækjur eða skelfisk. Hérna áður fyrr var kræklingurinn úr dós en nú fáum við hann ferskan af svæðinu“ segir Sunna en Dóri maður hennar vinnur hjá útgerðinni sem ræktar krækling í Steingrímsfirði undir nafninu Strandaskel.

Þetta er vinsæll réttur á hlaðborð líka og ef það er einhver afgangur sem gerist nú ekki oft þá er gott að setja þetta í tartalettur og ost yfir og inn í ofn segir Sunna.

Mynd úr uppskriftabæklingi Mjólkurdagsnefndar

Steinbítur í brúnni lauksósu bestur

Sunnu finnst ekkert sérstaklega gaman að elda og finnst leiðinlegt að ákveða hvað eigi að vera í matinn. En ef hún veit hvað þau ætli að hafa í matinn þá sé það svo sem allt í lagi. Sunna segir að þau eldi mikinn fisk, enda hæg heimatökin þar sem Dóri er sjómaður. „Við gerum alls konar fiskrétti, steikjum og ofnbökum og gerum bara ýmislegt og það fer líka eftir hráefninu sem býðst. En Dóri hann er miklu duglegri að elda og er áhugamaður um mat og matseld.“ Á hún uppáhalds fiskrétt? „Ætli það sé þá ekki helst steiktur steinbítur í brúnni lauksósu með kartöflum“ segir Sunna, en steinbítur veiðist stundum á línu eða í troll hjá þeim á Grímsey ST 2 þar sem Dóri vinnur.

Þrjár tertur flugu á gólfið á jóladagsmorgun

Aðspurð hvort Sunna eigi einhverja hrakfarasögu úr eldhúsinu segir hún að undirbúningur kaffiboðs á jóladag fyrir nokkrum árum sé ógleymanlegur.

„Það eru svona tvö eða þrjú ár síðan. Það var jóladagsmorgun og ég að undirbúa kaffiboð sem átti að vera seinna um daginn. Dóri var sendur niður í bílskúr að sækja tertur í ísskápinn, hann raðaði þeim listilega upp á arminn en ekki tókst betur til en að hann missti þrjár tertur samtímis í gólfið. Þarna fór ostakakan og tvær rjómatertur. Þarna var ég klukkan tíu á jóladagsmorgun að henda í tertu til að bjarga málum. Við þurftum að fara í næsta hús að fá lánað eitthvað hráefni og það var nú frekar vandræðalegt svona á jóladagsmorgun og mikið stress því í millitíðinni þurfti líka að mæta á söngæfingu niður í kapellu því það var messa klukkan eitt. Þetta slapp nú fyrir horn og allir fengu jóladagskaffið, en Dóri hefur ekkert verið beðinn um að bera tertur síðan.“

Langar að læra að steikja kleinur og parta

En langar hana að læra eitthvað í eldamennsku og bakstri? „Já, mig langar svoldið að læra að steikja kleinur og parta“ segir Sunna og bætir við að kannski fái hún bara Helgu sem var síðasti Matkrókur, til að kenna sér, en þær syngja saman í Kvennakór Hólmavíkur og Sunna ætlar að skora á annan kórfélaga líka sem er Drífa Hrólfsdóttir, „af því að hún er svo góður kokkur“ segir Sunna að lokum.

Sjávarréttasinfónía

30 gr smjör
1 lítill saxaður laukur
1/2 dós sveppir eða 200 gr ferskir
1 msk hveiti
1/4 l rjómi

1-2 rif marinn hvítlaukur
1/2 teningur fiskkraftur
1/4 tsk mulinn pipar
500 gr hörpudiskur
300 gr rækjur
150 gr kræklingur
1-2 msk sítrónusafi


Látið laukinn og sveppina krauma í smjörinu. Stráið hveitinu út á og hellið rjómanum saman við. Sjóðið við vægan hita 13-5 mín. Blandið hvítlauknum, kryddinu og fisktegundunum saman við og látið hitna í gegn.
Borið fram með grófu brauði eða laufabrauði.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.