Siglingar út í Grímsey og margrómaðir sjávarréttir

Skrifað af:

Ritstjórn

Auðvelt er að njóta friðsældarinnar á Malarhorni. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Útsýnið frá veitingastaðnum Malarkaffi á Drangsnesi er einstakt: þar sést perla Steingrímsfjarðar, Grímsey, í öllu sínu veldi enda ekki löng sjóleiðin frá ströndinni á Malarhorni út í eyjuna.

Staðarhaldarar á Malarhorni hafa boðið upp á vinsælar siglingar út í eyjuna undanfarin ár. Eva Katrín Reynisdóttir, hótelstýra á Malarhorni, segir það alltaf koma gestum jafn mikið á óvart hversu gríðarlega mikið fuglalífið er í Grímsey enda sjáist það ekki frá ströndinni.

Gestir Malarkaffis að njóta útsýnisins, þaðan sést t.d. Grímsey. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Ótrúlegar vinsældir lundans

Lundi í Grímsey. Mynd: Silja Ástudóttir

Bátur með leiðsögumanni og skipstjóra fer frá Malarhorni tvisvar á dag. Um leiðsögnina í ár sér Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona með meiru, sem flest þekkja sem Möggu Stínu. Einnig er boðið upp á að fara á sjóstöng í staðinn fyrir að fara í eyjuna. „Þetta er náttúrulega paradís og mjög mikið af lunda þarna. Þarna komast gestir líka í návígi við hann. Ég er eiginlega alltaf jafn hissa á hversu mikið erlendum ferðamönnum þykir lundinn sérstakur þegar jú, okkur þykir vænt um hann en þessi viðbrögð sem margir sýna eru eins og þeirra sem hafa ekki séð ástvin í lengri tíma! Það er gaman að geta uppfyllt drauma fólks.“

Meirihlutinn erlendis frá

Alls er gisting fyrir 52 gesti á Malarhorni. „Tengdaforeldrar mínir byggðu þetta upp og uppbyggingin er enn í gangi, til dæmis er þessi litli salur sem við sitjum í núna nýjasta viðbótin, bar þar sem hægt er að koma saman og horfa á leiki í beinni útsendingu til dæmis,“ segir Eva. Tengdaforeldrar Evu, hjónin Valgerður Magnúsdóttir og Ásbjörn Magnússon stofnuðu Malarhorn veturinn 2007 og opnuðu þar gistiheimili vorið eftir og veitingastaðinn í júlí það ár. Ári síðar bættu þau við húsi með tíu svefnherbergjum og árið 2013 var enn öðru húsi bætt við með íbúðum og fleiri herbergjum. Í dag sjá afkomendur þeirra um reksturinn.

Hin fallega Grímsey í Steingrímsfirði er rétt utan við Drangsnes. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Þegar litið er yfir upplýsingar um Malarhorn á vefnum sést hversu vinsæll staðurinn er meðal erlendra gesta. Hafa þeir skilað sér í sumar? „Sumarið hefur verið gott og það hefur verið mikil umferð um svæðið og það sem meira er, bókanir líta vel út fram í tímann.“ Hún segir meirihluta gesta vera erlent ferðafólk en Íslendingar séu líka duglegir að ferðast til Drangsness og heimsækja veitingastaðinn Malarkaffi.

Margrómaðir sjávarréttir

Veitingastaðurinn er opinn alla daga á sumrin. „Við höfum öðlast gott orðspor fyrir sjávarréttina en við notum hráefni héðan,“ segir Eva. „Sérstaklega er fiskisúpan og lúðan margrómuð. Það eru gestir sem koma hingað að sunnan á hverju ári til að komast í súpuna! Það er mikil traffík á veitingastaðinn og við mælum með því að panta borð á háannatíma.“ Veitingastaðurinn er opinn út september en hægt er að fá gistingu allan ársins hring. 15. maí hvert ár hefst sumarvertíðin með því að bjóða upp á morgunverð fyrir gesti, bæði þá sem gista á Malarhorni og aðra sem eiga leið hjá.

Það er dóttir Ásbjarnar og Valgerðar, Þurý Ásbjarnardóttir, sem er kokkurinn á Malarkaffi. Hún hefur heldur betur heillað fólk með réttunum sínum, þar sem hráefni af svæðinu er í aðalhlutverki.

Hin margrómaða fiskisúpa á Malarkaffi sem fólk ferðast á milli landshluta fyrir. Mynd: Valgerður Matthíasdóttir

Fjörupottarnir frægu og fallegar gönguleiðir

Sundlaug Drangsness er við hliðina á hótelinu og ekki er langt frá Malarhorni í hina frægu heitu potta í fjörunni. Gönguleiðir eru margar, stikuð leið er upp á Bæjarfell sem stendur fyrir ofan bæinn. Eva lumar svo á góðri ábendingu fyrir gönguþyrsta: „Ein uppáhalds leiðin mín er að ganga gömlu póstleiðina. Þá leggur maður af stað frá Bæ, hér rétt norðan við Drangsnes, og kemur niður í Bjarnarfjörð. Það er skilti við veginn sem markar upphaf leiðarinnar.“

Fjörupottarnir á Drangsnesi eru fullkomnir til að slappa af í eftir ferðadaginn. Mynd: Haukur Sig.

Grímsey verk nátttrölls

Við Malarhorn stendur klettur sem heitir Kerling. Eva segir gestum sínum þjóðsöguna á bak við Kerlinguna og hin nátttröllin sem ætluðu að grafa Vestfirðina frá meginlandinu, samkvæmt sögunni varð Grímsey þannig til. Söguna er hægt að lesa hér á strandir.is Þjóðfræði: „Karl og kerling í Drangavík“.

Kerlingin á Malarhorni sést hér vinstra megin. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Viðtalið við Evu Katrínu tók Guðbjörg Guðmundsdóttir.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.