Réðu falsfréttir niðurstöðu kosninga í Strandabyggð?

Skrifað af:

Andrea K. Jónsdóttir

Hólmavík. Mynd: Andrea K. Jónsdóttir

Í dag er fyrsti fundur nýrrar sveitarstjórnar.

Ég er svolítið hugsi þessa dagana. Ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því að fólk er tilbúið að líta framhjá lygi og hagræðingu á sannleikanum, að gagnrýna ekki órökstuddar eða upplognar ásakanir eins manns gegn sveitungum, nágrönnum og vinum og láta eins og ekkert sé. Fólk fagnar niðurstöðu kosninga og bendir á að lýðræðið hafi sigrað. Því er fleygt að nú verði að láta ágreininginn aftur fyrir og horfa til framtíðar – vinna saman. Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort falsfréttir hafi ráðið lýðræðinu í þetta sinn.

Þorgeir Pálsson tjáði sig víða um að það þyrfti að koma ákveðnum öflum frá í Strandabyggð. Aðeins einn aðili af framboðslistunum tveimur sem buðu fram fyrir nýliðnar kosningar sat í sveitarstjórn á síðasta kjörtímabili. Annars voru listarnir skipaðir nýjum einstaklingum, ýmist með reynslu eða minni reynslu. Allar yfirlýsingar T-lista Strandabandalagsins um að koma einhverjum „öflum“ frá völdum voru því bara slagorð en höfðu ekki neina aðra merkingu. Falsfrétt?

Mig langar að rifja upp atvik eða uppákomu fyrir ca. þremur árum síðan, þegar Þorgeir Pálsson og sambýliskona hans þustu fram á ritvöll Facebook og ásökuðu mig um lygar og hótuðu mér málssókn. Ég var ekki alveg viss í fyrstu hvort hér væri átt við mig svo ég sendi póst á Þorgeir sem staðfesti að svo væri, hann væri búinn að koma gögnum á lögmenn sína og til stæði að stefna mér fyrir rétt. Síðan hefur ekkert gerst, en ég bíð enn eftir því að fá tækifæri til að verjast, enda hef ég aldrei logið einu orði upp á Þorgeir. Allt sem ég hef um hann sagt er sannleikanum samkvæmt. Ég get alveg sagt ykkur það að það er mjög vont að sitja undir órökstuddum ásökunum án þess að fá tækifæri til að hreinsa mannorð sitt. Þessi árás Þorgeirs á mig hafði nú kannski ekki áhrif á niðurstöður kosninga núna en sýnir framá tilburði Þorgeirs um að dreifa ósannindum um annað fólk. Falsrétt?

Nú situr síðasta sveitarstjórn undir órökstuddum ásökunum um spillingu af hálfu Þorgeirs. Þessar ásakanir koma í kjölfar þess að honum var sagt upp störfum. Ég held að allir geti skilið það að það er sárt að missa vinnu í kjölfar uppsagnar en það réttlætir ekki þá hegðun að ljúga upp sökum á annað fólk. Það sem gerir málið enn súrara er að samflokksfólk Þorgeirs á T-listanum hefur hvergi hafnað þessum málflutningi Þorgeirs, þrátt fyrir áskoranir þar um. Þau virðast því taka undir þessar ásakanir á hendur fyrrum sveitarstjórnar um spillingu. Það gæti þó verið að þau þori ekki að tjá afstöðu sína ef hún er önnur en afstaða Þorgeirs – en þá veltir maður líka fyrir sér stjórnarháttum í nýrri sveitarstjórn. Mun Þorgeir verða einráður? Þögn og afstöðuleysi er fínasta gróðrarstía fyrir einræðistilburði – líkt og gerandinn í einelti fær kraft og völd frá öllum hinum sem líta undan og segja ekkert. Órökstuddar ásakanir = falsfrétt?

Þorgeir stefndi sveitarfélaginu í kjölfar uppsagnarinnar og krafði sveitarfélagið um rétt tæpar 6 milljónir króna auk vaxta. Hann tapaði málssókninni í öllum megin atriðum utan þess að Héraðsdómur Vestfjarða komst að þeirri niðurstöðu að honum bæri að fá miskabætur að fjárhæð 500 þúsund vegna þess hvernig uppsögnin var framkvæmd. Það er aðeins u.þ.b. 1/12 af þeirri fjárkröfu sem Þorgeir gerði á sveitarfélagið. Sveitarstjórn hefur sótt um leyfi til að áfrýja dómi Héraðsdóms Vestfjarða til Landsréttar.

Ég hef ekki séð neinar upplýsingar þess efnis að Þorgeir hafi áfrýjað dómsniðurstöðu héraðsdóms og því sýnist mér hann una þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi verið lögmæt og sveitarstjórn bær til að segja honum upp störfum. Einnig þeim hluta þar sem kröfu hans um þriggja mánaða biðlaun til viðbótar við þriggja mánaða uppsagnarfrest var hafnað. Kröfu hans um að sveitarfélagið greiddi málskosnað Þorgeirs var líka hafnað. Þrátt fyrir þetta þá fullyrðir hann að hann hafi unnið dómsmálið, að hann hafi lagt sveitarfélagið í dómsmáli. Þetta er í besta falli „sérstök“ túlkun. Falsfrétt?

Mér finnst áberandi hvað íbúar í Strandabyggð tjá sig lítið um jafn alvarlegar ásakanir og fram hafa komið í málflutningi Þorgeirs með stuðningi T-listans. Ég skil það á margan hátt þar sem samfélagið er lítið og íbúar tengjast hver öðrum á svo margan hátt. Ég spyr samt: Eru íbúar tilbúnir að gefa þeim sem ljúga og fara með órökstuddar ásakanir völd með því að þegja og líta undan? Er fólk tilbúið til að láta falsfréttir stjórna lýðræðinu?

auglýsingar

Nýjustu fréttir og greinar

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Strandabyggð auglýsir þrjár lausar stöður í Grunnskólanum á Hólmavík og í Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Opinn kynningarfundur um verkefnið Verndarsvæði í byggð á Hólmavík verður haldinn á Kaffi Galdri nk. fimmtudag, 30. júní og hefst kl. 20:00.