Okkar kona á Ströndum

Skrifað af:

Ritstjórn

Kristín Einarsdóttir Hveravík
Kristín og hundurinn Hansi í nýja gróðurhúsinu. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur er umhverfisbóndi í Hveravík í Steingrímsfirði eða bara „okkar kona á Ströndum“ eins og margir þekkja hana. Strandir.is langaði að heyra hvað fái þjóðfræðing að sunnan til að flytja í fámennið á Ströndum.

Ekki aftur snúið eftir fyrstu nóttina

Kristín og maður hennar Gunnar Jóhannsson eiga jörðina Hveravík í Steingrímsfirði og ná að sinna flestum sínum áhugamálum tengt jörðinni. Hveravík er þrjú hundruð hektarar og þar er mikill jarðhiti. Kristín kom fyrst norður með Gunnari árið 2014 seint um haust. Þá var íbúðarhúsið gamalt og illa farið en hlýtt og gott og eftir þessa fyrstu heimsókn varð ekki aftur snúið, hér vildi hún vera.

Kynnist Strandafólki í gegnum viðtölin

Þegar Kristín og Gunnar fluttu í Hveravíkina var hún að kenna þjóðfræði við Háskóla Íslands, hún hætti því árið 2016 en byrjaði sama ár að vera með vikulega pistla af svæðinu í Mannlega þættinum á Rás 1 hjá RÚV. Kristín er búin að gera um 220 innslög og hefur kynnst mörgum heimamanninum vel í gegnum það og hún er enn að. Það kom henni verulega á óvart hvað afskekkta lífið í Hveravík heillaði en hún er alin upp í sveit en kunni miklu betur við sig í Reykjavík.

Gunnar fer á strandveiðar á gömlum eikarbát sem nefndur er Frídel eftir síðasta kvenábúandanum í Hveravík áður en þau keyptu jörðina. Hann er frá Hólmavík og hefur mikil tengsl við svæðið en núna má ekki á milli sjá hvort þeirra hefur sterkari rætur í umhverfið.

Söngsteinn í Hveravík
Skemman er bæði geymsla og fjölnotasalur. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Mikilvægasta málið í heiminum

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á umhverfismálum og verið mjög tengd náttúrunni og hef verið mikið á fjöllum. Þetta er bara mikilvægasta málið í heiminium í dag og ef manni þykir vænt um börnin sín og afkomendur þá er þetta ekki spurning.“ segir Kristín. Hún er í stjórn Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og er meðlimur í óformlegum umhverfishópi Kaldrananeshrepps. Umhverfishópurinn hefur meðal annars  staðið fyrir fjöruhreinsunum í hreppnum og hafa þau nú náð að hreinsa strandlengjuna frá Nesströnd að Selá sem er um 25 km að lengd.

Uppgræðsla á moldarflögum upp um holt og hæðir

Kristínu finnst mikilsvert að geta gert hluti sem raunverulega skipta máli. Hún hefur verið að vinna að uppgræðslu á melum og moldarflögum sem eru víða í landi Hveravíkur. Í upphafi var allt gert í höndum: „Fyrsta vorið bar ég á 600 kg af áburði og grasfræi þar sem gróður hafði hopað vegna uppblásturs og mögulega ofbeitar. Ég stráði eins og sáðmaðurinn sjálfur“ segir Kristín og rifjar upp fyrsta vorið í uppgræðslunni. „En nú er ég komin með áburðardreifara á böggýbílinn og það er mikil framför, en það var samt dásamlegt að vinna þetta með höndunum og skúringarfötuna eina að vopni“. Þau hjónin hafa velt fyrir sér ýmsum leiðum til að endurheimta gróður á jörðinni og nú eru þau í skógræktarverkefni Vesturlandsskóga.

Söngsteinn í Hveravík
Samkomusalurinn Söngsteinn í Hveravík. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Fjölnotarýmið í Söngsteini

Árið 2016 byrjuðu þau að byggja 240 m² hús sem gegnir ýmsum hlutverkum, þar er skemma, geymsla, vélageymsla og 60 m² fjölnotasalur sem þau kalla Söngstein. „Söngsteinn er örnefni úr sveitinni þar sem ég er alin upp og vísar líka til þess að Gunnar hefur sungið mest allt lífið.“ Segir Kristín. Íbúðarhúsið var einnig lagað og stækkað á sama tíma. Í Söngsteini eru haldnir allskonar viðburðir og samkomur. Þar hafa verið ættarmót þar sem fólk hefur getað verið í hjólhýsum og tjöldum á heimatúninu með aðstöðu í salnum og með aðgang að rafmagni, heitum potti og útisturtu. Þá hafa þau leigt húsið fyrir t.d. skírnarveislur og aðra einkaviðburði.

Skemmtilegast að bjóða fólki til sín

Skemmtilegast finnst þeim hjónum þó að standa fyrir einhverjum samfélagsverkefnum og hafa t.d. verið með jólamarkað í vélageymslunni þar sem fólk af svæðinu hefur selt handverk og matvörur. Þá skella þau í vöfflur og kakó og halda úti lifandi tónlist allan tímann þar sem fram koma listamenn úr nágrenninu auk þess sem Gunnar er liðtækur á gítarinn og var meðlimur í Strandabandinu Þyrlaflokknum sem hélt uppi stuðinu á sveitaböllunum á níunda áratugnum. Gunnar er ástríðukokkur og hefur haldið fiskiveislur á gamlársdag í nokkur ár. Þar býður hann hverjum sem vill koma upp á sjávarfang af ýmsum toga sem bæði er eldað eftir gömlum hefðum en einnig með nútíma gourmet-tvisti. Þau hjónin hafa gaman af að bjóða fólki til sín og njóta sveitungar í nærliggjandi sveitum góðs af.

Gróðurhús í Hveravík
Kristín fyrir utan nýja gróðurhúsið í Hveravík. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Heillaðist af árangrinum og byggði gróðurhús

Kristín segir að lífið færi henni allskonar hugmyndir og sumt er ekki fyrirséð. Fyrir tveimur árum kom góð vinkona hennar, Marta á Drangsnesi, í heimsókn með allskonar fræ til hennar en Kristín hafði aldrei ræktað neitt fyrr. „Þetta gekk svo vel og að sjá árangur var svo heillandi“ segir Kristín með blik í auga. Þetta leiddi til þess að næsta vor ræktaði hún tómata og gúrkur, kál og sumarblóm. Þetta vatt svo upp á sig og hjónin fóru fljótlega að skoða möguleika á að koma sér upp heitu gróðurhúsi enda nóg af heita vatninu í Hveravík. Þau enduðu á því að kaupa 160 m² gróðurhús frá Bretlandi og settu það upp sl. sumar. Og hvað á nú að rækta þar? Kristín segist bara spila þetta af fingrum fram og prófar hvaðeina sem henni dettur í hug. Fyrsta sumarið ræktaði hún papriku, chilipipar, jarðaber, villiber og vínvið. Svo datt henni í hug að prófa að rækta blæjuber þar sem hún borðar þau reglulega út á hafragrautinn sinn og það hefur gengið ljómandi vel og ágætis uppskera. Næsta sumar langar hana að gera fleiri tilraunir með allskonar matjurtir og blómplöntur.

Gróðurhús í Hveravík
Gott pláss til að rækta í gróðurhúsinu. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Blæjuberin spruttu vel í gróðurhúsinu. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Hestamennska og sjósport með afkomendunum

En það er fleira sem þau hjónin sýsla í Hveravík. Þau eru með átta hesta og hafa yndi af stússinu í kringum þá. Þau eru líka með kajaka og slöngubáta sem þau nýta helst til að fara út á sjó með börnunum sínum og barnabörnum sem koma í heimsókn í Hveravíkina.

Langar að skipuleggja hjóla- og gönguferðir á Ströndum

Kristín og Gunnar fara líka í hjólaferðir um nágrennið en Kristín er reyndur fararstjóri í hjóla- og gönguferðum hérlendis og erlendis s.s. á Ítalíu, Skotlandi og víðar. Hún hefur m.a. skipulagt langa hjólaferð á Ströndum þar sem hún var fararstjóri í 3ja daga hjólaferð frá Gilsfirði til Kaldbaksvíkur. Hún sér fyrir sér að það væri gaman að nýta þessa reynslu sína sem leiðsögumaður og byggja upp skipulegar hjólaferðir á Ströndum jafnvel alla leið í Ófeigsfjörð. Gunnar og Kristín eru líka að undirbúa þriggja daga gönguferðir á Ströndum þar sem hægt væri að bjóða upp á mat og svefnpokagistingu í Hveravík. Allavega er nóg af hugmyndum í paradísinni í Hveravík og verður gaman að sjá hverju Kristín tekur upp á næst. Strandirnar fara svo sannarlega vel með okkar konu á Ströndum.

Hveravík
Í skemmunni er geymsla og rými fyrir allskonar. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.