Öflugt frístundastarf í Strandabyggð síðastliðið sumar

Skrifað af:

Esther Ösp Valdimarsdóttir

Vinnuskólinn Strandabyggð
Vinnuskólinn vekur athygli ferðafólks á hreinu kranavatni. Mynd: Aðsend

Nú eru fjöllin farin að hvítna og úti er farið að snjóa, þá er gott að rifja upp nýliðið sumar en mikið var um að vera í frístundastarfi barna og ungmenna í Strandabyggð í sumar. 

Vinnuskólinn hélt úti metnaðarfullu starfi. Við vorum svo heppin að fá listamanninn José Minguez til starfa og því skapaðist rými til að sinna fjölbreyttum skapandi verkefnum sem lífguðu upp á samfélagið samhliða því að ungmennin sinntu fegrun umhverfisins. Vinnuskólinn ákvað jafnframt að vinna að því að gerast Grænfánaskóli og vann með þemað vatn, til dæmis með því að koma upp vatnsleikjavöll og bjóða leikskólabörnum í leik og að gera skilti sem hvetja ferðamenn til að drekka kranavatn í stað þess að kaupa vatnsflöskur.

Vinnuskólinn Strandabyggð
Vinnuskólinn setti upp vatnsleikjavöll. Mynd: Aðsend

Reiðhjólaverkstæði og regnbogatröppur

Jafnframt hélt skólinn úti Instagram reikningi Strandabyggðar, opnaði reiðhjólaverkstæði og endurmálaði regnbogatröppurnar svo fátt eitt sé nefnt. Fulltrúar Landvernar komu svo nú í byrjun október til að meta störf skólans og vonir standa til að okkur takist að flagga Grænfána við upphaf vinnuskólans sumarið 2022.

Vinnuskóli Strandabyggðar
Vinnuskólinn bauð íbúum upp á reiðhjólaviðgerðir. Mynd: Aðsend

Íþróttir og leikir

Fjölmörg námskeið voru í boði. Geislinn bauð upp á geisivinsælt íþrótta- og leikjanámskeið og Skíðafélag Strandamanna sömuleiðis en þessi námskeið fóru fram fyrir hádegi í júní, frá skólalokum og fram að Hamingjudögum. Í tvær vikur bauð Náttúrubarnaskólinn upp á Náttúrubarnanámskeið eftir hádegi og var börnum ekið í Sævang og aftur inn á Hólmavík í skólabíl.

Vinnuskóli Strandabyggðar
Leiktæki gerð fyrir Hamingjudaga á Hólmavík. Mynd: Aðsend

Stuttmyndagerð

Þriðju vikuna buðu Ozon og Leikfélag Hólmavíkur, með stuðningi Orkubús Vestfjarða, upp á stuttmyndanámskeið með þaulreyndum aðkomukennurum fyrir eldri börn þar sem framleitt var gríðarlegt magn skemmtilegra stuttmynda sem frumsýndar voru fyrir fullu húsi á Hamingjudögum.

Leiðtoganámskeið

Félagsmiðstöðin Ozon og Leikskólinn Lækjarbrekka héldu á sama tíma utan um vel heppnað leiðtoganámskeið fyrir yngri grunnskólabörn. Sú nýbreytni var í sumar börn sem skráð voru í frístundastarf á vegum Strandabyggðar gátu jafnframt skráð sig í hádegismat á Café Riis og þannig varið öllum deginum í félagsskap jafningja og nært líkama og áhugahvöt.

Ævintýraferðir

Félgsmiðstöðin Ozon var áfram með vikulegar opnanir í júní en fór þá með 10-16 ára börnum á svæðinu í stuttar ævintýraferðir um svæðið, til dæmis var hjólað á Sævang og Drangsnes heimsótt þar sem tekið var höfðinglega á móti okkur og slegið var upp dýrindis veislu. Jafnframt spilaði Dungeons & Dragons hópur félagsmiðstöðvarinnar reglulega í sumar en í kring um spilið hefur skapast einstakt samfélag. 

Vinnuskóli Strandabyggðar
Skiltagerð vinnuskólans var fjölbreytt. Mynd: Aðsend

Sirkuslistir

Síðast en ekki síst stóð Arnkatla lista- og menningarfélag, með stuðningi Sterkra stranda, fyrir gjaldfrjálsu sirkuslistanámskeiði fyrir börn í júlí og þar var troðfullt. Listafólk úr Hringleik kenndi á námskeiðinu auk þess sem þau sýndu sirkussýninguna Allra veðra von í blíðskaparveðri á Sævangi.

Því verður seint haldið fram að ekkert hafi verið um að vera fyrir unga fólkið í Strandabyggð í sumar. Haustið fer jafnframt af stað með miklum krafti, nánar um það síðar.

Nokkrar myndir frá starfinu:

Vinnuskóli Strandabyggðar
Leikskólabörnum var boðið að koma og leika sér á vatnsleikjavellinum. Mynd: Aðsend
Hljómsveitaræfing í Ozon. Mynd: Aðsend
Vinnuskóli Strandabyggðar
Upplýsingaskilti máluð. Mynd: Aðsend
Vinnuskóli Strandabyggðar
Hönnun og smíði á vatnsleiktækjum úr endurunnu efni. Mynd: Aðsend
Vinnuskóli Strandabyggðar
Gróðursetning sumarblóma undirbúin með moldarblöndun. Mynd: Aðsend
Vinnuskóli Strandabyggðar
Gróðurkassar smíðaðir fyrir sumarblóm. Mynd: Aðsend

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.