2. júlí 2022 opnar fjölmennasta og víðfeðmasta úti -og inni myndlistarsýning sem haldin hefur verið hér á landi. Sýningin ber heitið Nr 4 Umhverfing og er fjórða sýning í sýningarröð sem Akademía skynjunarinnar stendur fyrir. Nú eru svæðin sem sýnt verður á Dalabyggð, Vestfirðir og Strandir.
Um er að ræða sýningar sem settar eru upp í sérstökum landshluta og auglýst er eftir myndlistarmönnum sem eiga ættir að rekja, búa eða hafa búið í þeim landshluta sem sýnt er í hverju sinni.
Þátttakendur eru 125 myndlistarmenn og sýningarstaðir verða mest í þéttbýliskjörnunum en einnig víðsvegar úti í náttúrunni. Verða verkin ákvörðuð með GPS punktum svo og með merkingum við sýningarstaðina þar sem því verður viðkomið. Leiðarkort og bók verða gefin út og mun hvort tveggja verða aðgengilegt, og bókin til sölu, á allra helstu viðkomustöðum ferðalanga á hinum svokallaða Vestfjarðarhring.
Undirbúningur hefur verið að þessari sýningu á öllu síðasta ári, en fyrri sýningar Umhverfingar voru haldnar árlega frá 2017 þar til kóvid setti strik í reikningin árið 2020.
Fyrri sýningar hafa verið haldnar á Sauðárkróki 2017, á Fljótsdalshéraði 2018 og á Snæfellsnesi 2019.
Margir af okkar þekktustu myndlistarmönnum munu taka þátt í sýningunni 2022 og búast má við mikilli aukningu ferðamanna á þessum slóðum því fordæmið höfum við frá síðustu sýningu Nr 3 Umhverfing sem var á Snæfellsnesi en þar voru 72 þátttakendur og talið er að 3-4 einkabílar hafi fylgt hverjum þátttakanda.
Við sem störfum undir nafni Akademíu skynjunarinnar erum:
Anna Eyjólfs, myndlistarmaður, s. 891-7148
Ragnhildur Stefánsdóttir, myndhöggvari, s. 897-8246
Þórdís Alda Sigurðardóttir, myndlistarmaður, s. 820-2688