Lausnin er úti á landi

Skrifað af:

Guðmundur Gunnarsson

Guðmundur Gunnarsson Viðreisn
Guðmundur Gunnarsson. Mynd: Aðsend

Þetta er grein um það hvernig við ætlum að vaxa út úr kreppunni. Spyrna okkur aftur upp. Sigla út úr öldudalnum. Ég gæti notað allar klisjurnar. Þetta er svoleiðis grein. 

Nema, hún er ekki um það hvernig við ætlum að endurvekja fortíðina. Hún er ekki rómantískt afturhvarf til áranna fyrir grímuskyldu. Þetta er ekki svoleiðis grein. 

Þessi grein er skrifuð út frá öðru sjónarhorni. Með augum landsbyggðatúttu sem hefur takmarkaðan áhuga á að færa allt í fyrra horf.

Þessi grein fjallar um vannýttu tækifærin úti á landi. Þið vitið, svæðið sem nær yfir bróðurpart landsins og hýsir okkar fámennustu, en jafnframt öflugustu, samfélög. Svæðið sem við ranglega tölum um í eintölu en ættum auðvitað alltaf að vísa til í fleirtölu. Vegna stærðar og mikilvægis.

Mitt innlegg er að við breytum viðhorfi okkar til landsbyggðanna. Þá aðallega, viðhorfi okkar til opinberra framkvæmda á landsbyggðunum. Hefjum okkur upp úr því afdankaða viðhorfi að fjárfestingar hins opinbera úti á landi séu einhver ölmusa. Eins og þeirra eini tilgangur sé að seinka hinu óumflýjanlega og gera nógu lítið til að halda í horfinu. 

Hið rétta er að það er einmitt á þessum svæðum sem okkar stærstu ónýttu tækifæri lúra. Okkar allra mestu verðmæti. Í fólkinu, fyrirtækjunum og umhverfinu. Ég er að tala um fjárfestingu sem endurspeglar raunverulega trú á samfélögin. Áætlun sem nærir æðakerfið í dreifbýlinu. Í þorpunum. Þar sem viðspyrnan býr.

Tökum Árneshrepp sem dæmi. Algjört jaðardæmi. Svæði sem hefur verið haldið í einangrun frá grunnkerfum samfélagsins frá upphafi. Þar býr enn fólk sem berst á hæl og hnakka við að halda hreppnum í byggð. Skapar sín eigin tækifæri þrátt fyrir endalaust andstreymi. Skýrt dæmi um kraftinn sem kraumar í þeim samfélögum þar sem sjálf lífsbaráttan er barningur. Og við erum bara að tala um að veita þeim sambærileg tækifæri og við hin njótum. Þjónustu sem þau eiga rétt á. Án tillits til búsetu. 

Ég vil að við nálgumst uppbyggingu í dreifbýlinu eins og hverja aðra metnaðarfulla opinbera fjárfestingu. Eins og að byggja spítala, flugvöll eða þjóðarleikvang. Og nei, ég er ekki að tala um að eitt útiloki annað eða stilla dreifbýlinu upp andspænis borginni. Ég er að tala um að koma þessum löngu tímabæru áformum á kortið, stilla upp heildstæðu plani sem tekur til uppbyggingar allra grunnkerfa. Veita landsbyggðunum sömu tækifæri, sömu þjónustu, sambærilegt öryggi. Það er lang arðbærasta fjárfestingin sem þjóð, umvafin auðlindum, getur ráðist í.   

Gott dæmi um slíka nálgun er til dæmis að finna í boðuðum breytingum á þjónustu í þágu farsældar barna. Það er framtíðarsýnin og metnaðurinn sem ég vil sjá fyrir landsbyggðirnar. Allar okkar fyrri áætlanir fyrir landsbyggðirnar eiga það sameiginlegt að skorta þrótt og hugrekki. Þær skortir nægilegt eldsneyti til að leysa kraftinn úti á landi úr læðingi. Ég er að kalla eftir áformum sem endurspegla framtíðarsýnina sem landsbyggðirnar verðskulda. Við munum öll hagnast á því.

Svo snýst þetta líka á endanum um réttlæti. Að við einsetjum okku að jafna aðgengi að opinberri þjónustu og grunnkerfum um allt land. Eins og okkur ber að gera.

Getan til að skjóta efnahag landsins aftur upp eins og korktappa býr nefnilega í þorpunum. Við eigum að hafa kjarkinn til að veðja á þau. Þótt fyrr hefði verið.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.  

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið

Nýjast

Útsýnið frá Malarhorni er einstakt: þar sést perla fjarðarins, Grímsey. Þaðan er hægt að fara í eyjuna, skoða lunda og fara á sjóstöng.
Nábrókin er smáhátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina í Trékyllisvík í Árneshreppi. Mýrarbolti og fjárhústónleikar.
Kaldalónstónleikar og útgáfuhóf bókarinnar Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson verður í Dalbæ á Snæfjallaströnd um verslunarmannahelgina.
Starfsfólk Strandabyggðar er nú margt komið í sumarfrí eins og margur landinn. Hér er hægt að sjá sumarlokanir stofnana sveitarfélagsins.
Í gær voru veittar auknar strandveiðiheimildir sem þýðir að tryggt er að kvótinn klárist ekki á tímabilinu en sumarið hefur verið ótíðasamt.
Sögurölt safnanna í Dölum og á Ströndum halda áfram. Á fimmtudag kl. 20, verður rölt um Tungugröf á Ströndum. Öll eru hjartanlega velkomin.

Aðrar fréttir

Strandir.is er fyrst og fremst vefur alls Strandafólks en einnig fyrir ferðafólk og aðra velunnara sem upplýsinga- og fréttamiðill.
Jón Geir Ásgeirsson, skipstjóri Strandferða segir að sumarið líti vel út og að nú þegar sé talsvert búið að bóka ferðir hjá þeim.
Kyrrðarkraftur er nýtt endurhleðslusetur á Hólmavík fyrir fólk sem vill byggja sig upp og temja sér jákvætt hegðunarmunstur.
Nú um páskana hefjast framkvæmdir að nýju við Krossneslaug í Árneshreppi en verið er að stórbæta aðstöðu við laugina.
Scroll Up