Jólahugleiðingar Ásdísar: „Læsti hann inni í fjósinu“

Skrifað af:

Ásdís Jónsdóttir

Ásdís Jónsdóttir og Skúli Gautason. Mynd: Aðsend

Ásdís Jónsdóttir lífskúnstner, fjöllista- og handverkskona býr á Hólmavík en bjó lengst af í Steinadal í Kollafirði þar sem hún var bóndi og ól upp sjö börn. Hér deilir hún með okkur jólahugleiðingum og endurminningum fyrr og nú.

Já, það er margt sem þýtur gegnum hugann þegar hugsað er um jólin.

Ég man nú ekki eftir mínum fyrstu jólum á Akureyri, en svona þriggja ára fór ég með mömmu á jólatrés­skemmtun. Það var nú spennandi. Þar var maður sem ég þekkti úr leikfélaginu, hann var í jólasveinabúningi og talaði með jólasveinarödd: „Jæja, börnin góð, vitið þið hvað ég heiti?“ Ég stökk upp og kallaði: „Já, já, ég veit það … þú heitir Jón Ingimarsson.“ Mamma var greini­lega ekki hrifin og karlinn sagðist heita Stekkjarstaur … það sem þetta fullorðna fólk getur skrökvað.

Ásdís með köttinn sinn Lúsifer. Mynd: Aðsend

Næsta endurminning af jólum var frá Strandgötu 39 á Akureyri. Þá var fólk í heimsókn og labbaði kringum jólatré og hélst í hendur og söng. Ó hve dýrðlegt er að sjá o.s.frv. og Heims um ból og fleiri jólasálma. Ég kunni þá alla og lögin líka, því mamma hafði kennt mér þá og sungið með mér. Pabbi sagði að hann væri með eitthvað sem væri að vera laglaus … furðulegt nokk … ég var viss um að hann væri að skrökva. Mamma bjó til dúkku sem hún gaf mér í jólagjöf, hún var lagleg og ég kallaði hana Lillý.

Seinna þegar ég var orðin sjö ára var mamma flutt frá Akureyri með Sigga Franklíns og mér og Simma bróðir innanborðs að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði. Jahá … og enn komu jól. Ég eignaðist bestu vinkonu Láru. Pabbi varð eftir á Akureyri. Það var leiðinlegt, en það gaf auga leið að ekki þýddi hjá mömmu að vera að dandalast með tvo menn … svolítið snúið. Siggi var að pukrast við að smíða eitthvað sem við máttum ekki sjá. Mamma hafði eignast Simma 9. september þetta haust og það var gaman að klæða hann í fín jólaföt, lítill jólastrákur.

Sigurður Franklínsson og móðir Ásdísar, Signý Sigmundsdóttir. Mynd: Aðsend

Við Lára fengum sinn hvorn sleðann sem Siggi hafði smíðað handa okkur og svo voru kertaljós og hangikjöt og sveskjugrautur með rjóma hjá mömmu og kótelettur í raspi á jóladag og appelsínudesert á eftir. Við Lára lékum okkur með dúkkurnar okkar og Lára saumaði lítinn tuskukall sem hún skírði Rúnar. Ég fékk pakka frá pabba með spennandi bók og nammi sem við úðuðum í okkur. Við renndum okkur tímunum saman á sleðunum okkar og ennþá var lífið skemmtilegt. Það var spilað á spil og við lærðum að spila Vist, Rauða-Hannes, Marías, Gosa og Rommí, og svo tefldum við skák. Gugga í Hlíð kom á annan í jólum og spilaði Rauða-Hannes við okkur Láru og Imbu.

Svona voru jólin þá, en færum okkur fram í tímann. Núna hef ég minnkað mikið að gefa jólagjafir. Bara svona smádót og nasl í körfu til fjölskyldna minna … þetta er búið að valda mér ómældum áhyggjum mörg jól. Stress og áhyggjur, alltaf of sein með þetta. Núna hefur létt af mér fargi, samt skammast ég mín pínkulítið. Áður pakkaði ég inn 30 og eitthvað smágjöfum. Ég er ekkert lagin við að búa til fallega pakka … og svo rugla ég þeim saman og verð að opna þá aftur til að gá hver átti að fá þá. Rugluhaus.

Jólasveinn í búningi frá Signýju, móður Ásdísar. Mynd: Aðsend

Mér þykir samt ofboðslega gaman að gefa jólagjafir … en ég verð nú að harka það af mér ef ég á að standa við þetta. Ég labba glottandi framhjá jólapappírsrúllum í Kaupfélaginu … ég þarf þær ekki … hoho. Einu sinni ætlaði ég að pakka inn í dagblöð. Fólk rífur bara bréfin og hendir þeim. Það þýddi ekkert að skamma fólkið mitt fyrir að kuðla pappírnum saman … ég ætlaði að slétta bréfin og nota þau aftur til að spara. Jólapappír er líka oft svo fallegur … það er hægt að klippa út úr honum myndir og búa til jólakort.

Það er nú líka hægt að gefa smá gjafir (ekki jólagjafir) þó ekki séu jól og þá bara í fallegum poka. Ef maður finnur eitthvað sem mann langar að gefa viðkomandi. Svo er annað, mig hefur lengi langað til að breyta þessu jólaáti. Að sjálfsögðu er erfitt að breyta hefðunum.

Nú fer ég aftur í tímann. Það er tólfti desember og ég er heima í Steinadal með börnin. Gústi farinn á fjöll að leita að kindum. Mamma bakaði alltaf smákökur tólfta desember og ég fékk alltaf að taka þátt í því. Nú skyldi ég gera slíkt hið sama … eftir að hafa hnoðað nokkur deig kvöldið áður … nú skyldi bakað – gyðingakökur, vanilluhringi, spesíur, bóndakökur, hálfmána og mömmukökur með kremi.

Hrafnhildur og Svanhildur áttu svuntur og Jón Gísli og Jón fengu viskustykki um sig miðja. Síðan fengu allir vænan slatta af deigi til að vinna úr. Og það var unnið af kappi og plöturnar fylltust af litlum skrítnum allavega kökum, kallar og kellíngar, kaka sem pabbi átti að fá þegar hann kæmi og svo kökurnar mínar. Svo fann ég til fallegar dósir sem þau létu sínar kökur í hvert fyrir sig. Að þessu loknu, þegar fór að líða á daginn, fór ungviðið mitt að hvíla sig og þau hurfu úr eldhúsinu með kökudósirnar sínar.

Eftir kaffi sást til mannaferða á leiðinni að ánni. Það voru Sverrir Guðbrandsson á Klúku og Ninni (Þórður sonur hans), þeir voru að sækja kindur sem voru í fjárhúsunum. Ninni gerði tilhlaup að ánni og ætlaði að stökkva milli skara að hætti fornmanna, en lenti ofan í og varð hundblautur. Ég lánaði honum föt af Gústa sem stóðu honum á beini. Þetta var allt mjög fyndið. Svo fóru þeir með kindurnar.

Svo kom myrkur, eins og gerist á þessum árstíma, og ekki kom Gústi. Ég varð verulega áhyggjufull. Þá hringdi sveitasíminn og einhver kall sagði: „Halló.“ Ég spurði hver þetta væri og hann sagði: „Gústi.“ „Hvaða Gústi?“ spurði ég. Jú, þetta var húsbóndinn og hringdi frá Tind, hafði fundið kindur og rekið þær þangað. Ætlaði að láta Guja póst á Gestsstöðum keyra sig og rollurnar heim á póstbílnum. Þórður á Undralandi hló að þessu í mörg ár á eftir: „Hvaða Gústi?“ Hahaha, hann var að hlusta í símanum. Aaarrrrgh … ég hafði nú ekki vanist því að menn hringdu ofan af fjöllum. Og var hin fúlasta.

Mér finnst ágætt að vera ein hérna á Höfðagötunni á jólunum. Hef verið það áður og finnst það alveg indælt … þarf ekki að borða neitt bara af skyldurækni, til að borða eitthvað hefðbundið. Auðvitað borða ég samt eitthvað. Kannske bý ég til desert eins og mamma gerði.

Jól í Steinadal. Hrafnhildur, Jón Gísli og Svanhildur, Ásdísar- og Jónsbörn. Mynd: Aðsend

Svo sit ég og horfi á sjónvarpið, fer í aftansöng upp í kirkju þegar það er í boði eða horfi á hann í sjónvarpinu. Skoða kortin mín og dótið mitt, sofna út frá jólaglæpasögu. Á jóladag fer ég kannske í morgunkaffi hjá Hrafnhildi ef hún er ekki komin inn í fjárhús til að gefa kindunum jólaheyið, meðan Haddi hleypir til. Áður fórum við alltaf í Steinó á jóladag og spiluðum á spil og svoleiðis. Heyri í fólkinu mínu í Hafnarfirði og Reykjavík.

Og enn aftur í tímann. Fyrstu jólin mín í eigin búskap. Á Óspakseyri 1961 með Gústa, Hrafnhildi og Páli vinnumanni sem við erfðum frá Þorkeli og Ástu sem bjuggu þar áður. Það þurfti alltaf að bæta vatni á miðstöðina gegnum slöngu neðan úr þvotta­húsi og í fötu uppi á háalofti, en þarna hafði nú gleymst að skrúfa fyrir. Þegar leið að því að fara að skella sér í jólafötin kom í ljós að það var farið að rigna hér og þar á miðhæðinni. Drippaði niður úr loftinu. Gústi skrúfaði fyrir og klifraði upp á háaloft og var þar langt fram á kvöld að ausa vatni út um þakglugga. Ég og Palli stóðum fyrir neðan loftsgatið svo hann væri ekki einmana þarna uppi. Og Páll var hálf klökkur yfir þessu og hátíðinni, búinn að fá sér í tána.

Ekki átti af okkur að ganga með jólavesenið fyrstu jólin okkar í Steinadal ári seinna. Á Þorláksmessu fyrir hádegi var hvasst (og ég var búin að skúra allt og gera fínt). Smá­kökurnar biðu í sínum fallegu boxum. Þá sló niður í eldavélina, takk fyrir, sólóvélina og ekki einu sinni, heldur oft. Má ég kynna fyrir ykkur olíusót, það klínist og sviðrar út um allt undan tuskunum sem maður notar til að þrífa með. Maður þarf að læðast að því og bera tuskurnar ofur hægt að sótinu … samt sleppur alltaf eitthvað.

Þegar Gústi kom úr fjárhúsunum rétt fyrir hádegið mættu honum þrjár útataðar kolsvartar verur, tvær litlar og ein stór, litlu táturnar að hjálpa mömmsunni sinni að þrífa. Svo var bankað og familían arkaði til dyra, þar var Bubbi að koma með hangikjöt og jólagjafir frá ömmu og afa á Broddanesi. Hann stóð þarna orðlaus til að byrja með og starði á kvenfólkið svona skítugt og sama gilti um gólf og veggi, en húsbóndann tiltölulega hreinan, enda var hann nýkominn frá kindunum … og rétt að koma jól. Málið var útskýrt og ég dreif í hann sótiblandað kaffi og sótugar smákökur á diski. Klukkan sex á aðfangadag var þrifum að mestu lokið, nema ég átti eftir að þvo mér um hárið úr sirka 4 vötnum … svo gátu jólin komið fyrir mér.

Jólamynd úr Steinadal: Systkinin Jón, Hrafnhildur, Svanhildur og Jón Gísli. Mynd: Aðsend

Annað árið í Steinó komu enn ein jól og eitthvað lá í loftinu samkvæmt málshættinum: Allt er þá þrennt er. En það var allt rólegt og eðlilegt. Við fórum í fjósið á aðfangadagskvöld að mjólka kýrnar og svo fór ég inn að hafa til matinn. Gústi gaf kúnum hey og mjöl en maturinn beið og ekki kom hann inn. Hvað var maðurinn að drolla úti í fjósi? Allt í einu kom hann svo, allur í heyi, búinn að grafa sig gegnum fjóshlöðuna og inn í skúr. Var nú ekkert svakalega kátur á svipinn og spurði af hverju ég hefði lokað hann inni í fjósinu. Þá hafði ég sett lokuna á alveg hugsunarlaust um leið og ég fór inn … læst hann inni í fjósinu.

Síðan hefur nú verið stórtíðindalítið um jól hjá Steinadalsfjölskyldunni og allt farið hefðbundið og þokkalega fram.

Það er nú svo langt frá því við vorum krakkar og horfðum út um glugga að sjá jólin koma. Þó grípur mann ennþá einhver hátíðleiki á aðfangadagskvöld, ef annað er í lagi. Eitthvað vekur þá tilfinningu, t.d. gömlu jólasálmarnir og messan klukkan sex í útvarpinu. Það gekk reyndar alltaf frekar illa að fá syni mína til að þegja meðan ég hlustaði á þennan aftansöng í útvarpinu. Það er samt skemmtilegt að minnast þess.

Svo er fólkið búið að setja ljós innan í og utan á húsin sín og gamla sagan um hátíðina í Betlehem og Jesús litla sem fæddist í fjárhúsinu og jólastjörnuna er heillandi og nauðsynleg. Maður sendir veikburða ósk um frið á jörð út í heim … kannske virkar það ef nógu margir óska þess, maður veit aldrei.

Gleðileg jól, elskulegu vinir og ættingjar!

Ásdís Jónsdóttir

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.