Hótel Djúpavík: „Nýtum okkur einangrunina“

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Magnús Karl Pétursson í rýminu sem mun verða jógastúdíó. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Það er mikil gróska í starfseminni á Hótel Djúpavík en auk gistingar er boðið upp á leigu á fjallahjólum, leiðsögn um gömlu síldarverksmiðjuna, metnaðarfullar myndlistarsýningar, ljósmyndaferðir og vélsleðaferðir auk þess sem margt spennandi er í farvatninu.

Hótel Djúpavík býður upp á gistingu fyrir alls 27 manns: á hótelinu og í húsunum Lækjarkoti og Álfasteini. Magnús Karl Pétursson er einn þeirra sem reka hótelið og ferðaþjónustuna á staðnum. Sjálfur er hann fæddur og uppalinn Garðbæingur en kona hans, Kristjana María Svarfdal, eða Kidda, er dóttir hjónanna sem byggðu upp hótelið.

Það er notalegt á veitingstaðnum á Hótel Djúpavík. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

„Það er búið að vera annasamt hjá okkur í sumar, en það er fínt, það er gott að hafa nóg að gera,“ segir Magnús þegar hann er spurður út í traffíkina í sumar. Magnús kom til Djúpavíkur árið 2014 með Kiddu og segist eiginlega ekkert hafa farið síðan. „Þetta er það langskemmtilegasta sem ég hef gert en líka það erfiðasta. Rekstrarumhverfið getur verið erfitt sérstaklega þegar gestir komast ekki hluta ársins vegna slæmra samgangna. Við verðum bara að nýta okkur einangrunina. Vel efnaðir einstaklingar eru einmitt mjög hrifnir af því að geta verið út af fyrir sig en samt með góða þjónustu og afþreyingu. Ferðaskrifstofur sem sjá um þennan kúnnahóp eru einmitt að leita að þessu.“

Það er opið allt árið að sögn Magnúsar, ef fólk kemst á staðinn. „Við hvetjum fólk ekki til að reyna að komast hingað öryggis þeirra vegna og ég er ekki með hótelið á booking.com fyrstu mánuði ársins.“ Hann segir drauminn vera að lengja tímabilið og vera með heilsárs starfsfólk. Hótelið er í húsi sem var reist sem svefnaðstaða fyrir konur sem unnu í og við síldarútgerðina á staðnum. „Þegar mest lét voru átta stúlkur sem gistu hér. Herbergin eru ekki stór og það er sameiginleg snyrting. Það hefur frá upphafi verið borin virðing fyrir sögu hússins og það er eins og gestir finni það líka, það eru margir sem tengjast þessu húsi um leið.“

Hótel Djúpavík var byggt á 3ja áratug síðustu aldar fyrir konur sem unnu á söltunarplaninu við söltun síldar. Þá kallaðist það Kvennabragginn. Húsið var gert upp sem hótel árið 1985. Mynd: Guðbjörg Guðmunsdóttir

Afþreyingin skiptir öllu máli

Yfir sumarið er hótelið vinsælt og því liggur metnaðurinn í að lengja tímabilið og fá gesti til að staldra við lengur. „Þá kemur afþreyingin inn, því meiri afþreying, því meiri ávinningur fyrir alla í sveitinni sem eru í rekstri. Þess vegna er líka mikilvægt að vinna saman í þessu og kynna hvað annað er í boði í Árneshreppi og á Ströndum öllum.“

Sögusýning

Gamla síldarverksmiðjan er að sjálfsögðu stór hluti af starfsemi hótelsins. Verksmiðjan var reist um miðjan fjórða áratug 20. aldar, þá lang stærsta steypta hús á Íslandi og fullkomnasta síldarverksmiðja Evrópu. Það voru Alliance hf., útgerðarfélag í Reykjavík, og Einar Þorgilsson og co. í Hafnarfirði sem létu reisa verksmiðjuna. Þeir greiddu upp allan kostnað við byggingu hennar á tveimur árum. „Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikil veiði var hérna,“ segir Magnús.

Hægt er að fara á sögusýningu með leiðsögn um verksmiðjuna. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Þegar mest veiddist voru um 300 manns að vinna í síld á Djúpavík og fengu allir vinnu sem vildu í sveitinni. Veiðin fór minnkandi upp úr 1950 og síldin færði sig lengra og lengra í austur. Verksmiðjan var svo seld árið 1971. Hægt er að fara á sögusýningu með leiðsögn um verksmiðjuna. Aðgangur kostar 2000 kr. og er sýningin um 1,5 klukkustund. Jafnframt er hægt að fara í einnar klukkustundar ljósmyndaferð gegn greiðslu.

Sleðaferðir á veturna

Til að bjóða upp á afþreyingu utan hins venjulega háannatíma fjárfesti hótelið í öryggisbúnaði og þjónustu leiðsögumanns fyrir vélsleðafólk. Gestir kaupa gistingu með uppábúnum rúmum og mat og fara í dagsferðir á sínum sleðum en með tryggri leiðsögn. „Það er mun meiri eftirspurn eftir þessu en við getum annað og hefur heppnast gríðarlega vel. Síðast seldist upp í þetta á 5 tímum.“ Hann segir snjóalög að sjálfsögðu ráða mestu um ferðirnar en þau hafi ekki lent í teljandi vandræðum hingað til.

Sleðaferðirnar eru mjög vinsælar. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Vinnustofa fyrir áhugaljósmyndara

„Annað sem mér datt í hug var að leigja hótelið út fyrir námskeið fyrir ljósmyndara. Þetta er gert í samstarfi við ákveðinn ljósmyndara sem kemur hingað með hóp af fólki og sendir þau út af örkinni á daginn til að æfa sig og svo er matur á kvöldin og í hádeginu ásamt umræðum og kennslu. Þessi hópur er spenntur í að vera hér í nokkra daga og yfirleitt ná þau mjög flottum myndum af norðurljósunum – það slær að sjálfsögðu alltaf í gegn.“ Hann segir að svo sé alltaf plan B á námskeiðunum ef veðrið sé of slæmt, þá sé alltaf hægt að ljósmynda verksmiðjuna. „Þessi kennari var mjög ánægður þegar þetta samstarf komst á við okkur. Hann er búinn að koma til Íslands með svona hópa í mörg ár en fannst of mikið af útivistarúlpum núna á öllum myndum, því vinsældir Íslands hafa jú stóraukist! Hérna nýtum við nálægðina við náttúruna og fámennið og það hentar svona hópum gríðarlega vel.“

The Factory

Í lokuðum hluta í gamla mjölsal verksmiðjunnar er listrýmið The Factory. Þar eru nýjar sýningar á hverju ári. „Við höfum gert þetta í mörg ár og verið með alls kyns verk. Í gegnum tíðina hafa alltaf borist margar umsóknir um að sýna í Factory. Það er sýningarstjóri sem býr í Reykjavík sem sér um allt varðandi sýningarnar.“ Hann segir gesti, og þá sérstaklega þá erlendu, yfirleitt vera agndofa yfir því að opna dyrnar á verksmiðjunni og sjá nútímalist í þessu umhverfi, og það alveg ókeypis. „Það er enginn fjárhagslegur ávinningur af þessu, við viljum bara halda þessu áfram til að auka menningarflóruna í hreppnum.“

Factory-salurinn er tilkomumikill og hentar vel til allskonar sýninga og sköpunar. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir
Verksmiðjan er hrátt og skemmtilegt rými sem nýtist fyrir margt. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Nýtt jógastúdíó

Eitt fallegasta herbergið í gömlu verksmiðjunni verður brátt jógastúdíó. Vinna stendur nú yfir við lagfæringar á salnum en til dæmis þarf að skipta út öllum gluggum og setja upp sérstakan hitabúnað. „Þetta er mikill grunnkostnaður en við erum handviss um að þetta verði vinsælt. Það er svo mikill friður hérna í Árneshreppi!“ Það er átakið Áfram Árneshreppur sem styrkir verkefnið að hluta. „Við munum líka leigja aðstöðuna út fyrir alls kyns viðburði en sjáum helst fyrir okkur komur hópa í jógaferðir erlendis frá. Þá getum við nýtt hótelið betur á haustin og vorin.“ Áætlanir ganga út frá að taka nýja jógastúdíóið í notkun næsta vor eða sumar.

Nýju gluggarnir í jógastúdíóinu eru eftirmynd þeirra gömlu. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Fjallahjól og kajakar

Fyrir þau sem vilja hreyfa sig er hægt að leigja fjallahjól og næsta sumar verður á ný hægt að leigja kajak og róa í firðinum fallega. „Við erum að endurnýja búnaðinn okkar og fengum til þess styrk nýlega. Við erum komin með tvo svokallaða „sit-on-top“ kajaka og ný vesti en fáum aðra tvo á næsta ári ásamt þurrbúningum. Það verður einnig boðið upp á að leigja veiðistöng með enda er krökkt af þorski hérna í firðinum. Við horfum því spennt til næsta sumars.“

Við sjóndeildarhringinn: Skemmtiferðaskip og Baskasetur

Verið er að þróa tvo tekjumöguleika í viðbót, að fá fleiri skemmtiferðarskip til staðarins og opnun nýrrar sýningar um sögu Baska og Strandafólks. „Það er alltaf verið að herða reglurnar á Hornströndum varðandi komur skipa og það getur verið að við fáum einhver af þeim skipum hingað þá. Þetta er fólk sem vill heyra um söguna og nýta sér afþreyinguna. Þetta eru frábærir tekjumöguleikar, ekki síst fyrir hreppinn í formi hafnargjaldanna. Það koma tvö skip í ágúst og september.“ 

Hugmyndin að því að halda á lofti sögu Baskanna í Norðurfirði og á Ströndum hlaut mikinn hljómgrunn meðal íbúa Árneshrepps að sögn Magnúsar, meiri en hann gerði sér vonir um, að eigin sögn. Sú hugmynd kom upp að setja á laggirnar Baskasetur. Setrið verður að stærstum hluta sýning í stærsta tankinum við verksmiðjuna og er hönnuður nú að vinna í útliti sýningarinnar. Reiknað er með að sýningin opni eftir nokkur ár. 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.