Hnallþóran hennar Helgu

Skrifað af:

Ritstjórn

Helga Gunnarsdóttir við hrærivélina góðu. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Matkrókurinn er nýr flokkur á strandir.is þar sem matgæðingar á Ströndum og Reykhólum deila uppáhalds uppskriftum sínum, matarsögum og smávegis frá sjálfum sér. Matkrókur vikunnar skorar síðan á einhvern annan að deila sinni uppáhalds uppskrift með lesendum. Helga Gunnarsdóttir á Hólmavík ríður á vaðið með ekta Hólmavíkurhnallþóru.

Helga er Hólmvíkingur í húð og hár, uppalin og búsett á Hólmavík. Hún er gift Birni Sverrissyni og eiga þau þrjú uppkomin börn sem búa á Hólmavík, Reykhólum og í Álaborg.

Rosa gaman og bakar oft meira en hún ætlaði sér

Helgu finnst gaman að baka og þó hún byrji stundum í bakstrinum af nauðsyn þá tvíeflist hún þegar hún er byrjuð og finnst þá rosagaman og bakar oft miklu meira en til stóð í upphafi. Björn, kallaður Billi, skýtur inn í: „svona fyrst að ofninn er heitur“. Helgu finnst skemmtilegra að baka en að elda og segist vera lagnari við það. Hún hefur oft tekið þátt í að baka fyrir stórar veislur og uppákomur.

Stalst til að baka þegar mamma hennar skrapp út í sveit

En hvað var það fyrsta sem Helga bakaði? „Það var líklega skúffukaka heima hjá mömmu Kristjönu á Vitabrautinni. Ég hef ekki verið eldri en svona 12 – 13 ára. Mamma vildi ekki leyfa mér að baka og sagði oft: „Þú kannt ekkert að baka, þú eyðileggur bara eggin.“ Eitt skipti þegar mamma skrapp eitthvað út í sveit stalst ég til að baka skúffuköku og þá sá mamma náttúrulega að ég gat þetta alveg. Heima var ekki til hrærivél og maður þurfti að nota handþeytara.“ En í dag á Helga KitchenAid hrærivél sem hefur fylgt henni í gegnum baksturinn í 40 ár og stendur sig enn.

Jarðarberja- og Baileys terta. Mynd: Helga Gunnarsdóttir

Glútenlausa kakan flæddi um allan ofninn

Aðspurð hvort hún hafi lent í einhverjum vandræðum með bakstur segir Helga frá því þegar hún var að vinna í grunnskólanum fyrir nokkrum árum og ætlaði að koma með köku í vinnuna.

„Þá var einn kennarinn með glútenóþol og mig langaði samt að vera nice og koma með eitthvað sem hún gæti borðað líka. Svo ég notaði möndlumjöl í staðinn fyrir hveiti. En þetta varð alveg hræðilegt, kakan bókstaflega flæddi upp úr forminu og lak niður á botninn í bakaraofninum og eftir varð þunn skán í forminu sem leit helst út eins og keramikskál, en þetta var nú samt étið“ segir Helga og hlær, en hún hefur ekki reynt sig meira við glútenlausu kökurnar eftir þetta.

Langar að læra að sauma harðangur og klaustur

En eru einhverjar kökur sem Helgu langar að læra að baka? „Nei, en mig hefur samt alltaf langað í hússtjórnarskóla til að læra meira í handavinnu“ segir Helga, en hún er mikil handavinnukona og saumar mikið út. „Mig langar að læra að sauma harðangur og klaustur og að vefa og að setja upp í vefstól.“

Hefur litla trú á sér í skreytingum þrátt fyrir verðlaun

Hvað er svo erfiðast í bakstrinum? „Ég er ekkert sérstaklega lagin við gerbakstur og ekki með mikla reynslu í því en baka þó stundum eitthvað með geri.“ segir Helga. Þá hefur hún ekki mikla trú á sér í kökuskreytingum og segir marga betri en sig í því. Þrátt fyrir það gerði Helga sér lítið fyrir og vann verðlaun á Hamingjudögum 2018 fyrir girnilegustu kökuna. Og það er einmitt kakan sem hún ætlar að deila með okkur. Helga segir að uppskriftin sé þó ekki frá henni komin, hún hafi fundið hana á netinu en hún sé alveg ofboðslega góð, bæði með marengs og svampbotni og með passlega miklu Baileys-bragði.

Helga skorar á Sunnu Einarsdóttur á Drangsnesi að verða næsti Matkrókur og hefur trú á að hún lumi á einhverju góðu fyrir okkur.

Girnilegasta tertan á Hamingjudögum 2018, tvöföld uppskrift. Mynd: Helga Gunnarsdóttir

Jarðarberja- og Bai­leys terta

Svamp­botn

  • 1 bolli syk­ur
  • 1 bolli egg
  • ¾ bolli hveiti
  • ¼ bolli kart­öfl­umjöl
  • 1 tsk lyfti­duft

AÐFERÐ:

1.    Stillið ofn­inn á 160°

2.    Þeytið egg og syk­ur sam­an þannig að þau verði ljós og létt. Bæt­ið síðan þur­refn­inu í skál­ina og hrær­ið var­lega sam­an. Setjið deigið í form (26cm form er passlegt fyrir einfalda uppskrift) og inn í ofn í u.þ.b korter. Kælið svamp­botn­inn.

Mar­engs

  • 170 gr. syk­ur
  • 3 eggja­hvít­ur

AÐFERÐ:

1.    Stillið ofn­inn á 140°

2.    Stífþeytið eggja­hvít­urn­ar sam­an við syk­ur­inn. Setjið í formið og inn í ofn í u.þ.b klukku­stund. Kælið mar­engs­inn.

Að auki þarf:

Makkarón­ur og eina öskju af jarðarberj­um.

AÐFERÐ:

1.    Setjið svamp­botn á disk. Raðið makkarón­um á botn­inn og hellið vel af Bai­leys yfir. Þeytið 500 ml af rjóma. Geymið smá rjóma til hliðar.

2.    Skerið kassa af jarðarberj­um niður í litla bita (gott að geyma nokk­ur ber til skreyt­inga) og blandið sam­an við rjómann.

3.    Dreifið rjóm­an­um vel yfir makkarón­urn­ar. Setjið mar­engsið ofan á rjómann og þrýstið var­lega á mar­engsið svo að hún fest­ist. 

4.    Takið rjómann sem þið lögðuð til hliðar og smyrjið hliðina vel.

5.    Skreytið með Bai­leys-súkkulaði og með berj­um að eig­in vali.

Bai­leys-súkkulaði

  • 3 msk Bai­leys
  • 2 msk rjómi
  • 75 gr suðusúkkulaði
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.