Heygarðshornið: Hrútahátíð, haustverk og kynbætur

Skrifað af:

Hafdís Sturlaugsdóttir

Blær með aðdáendum sínum. Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Erfitt er að manna leitir á haustin og leitarsvæðið stækkar en fallþungi í haust var með því besta sem gerist. Kynbótastarf er í blóma í sauðfjárrækt á Ströndum og nú hafa fundist tvær kindur með verndandi arfgerð vegna riðu en markmiðið er að rækta arfhreinar kindur með þessa verndandi arfgerð.

Smalamennskur gengu þokkalega í haust en verða erfiðari eftir því sem þeim sem eru með búskap fækkar. Þannig er orðið erfiðara að manna leitir og svæðið sem leita þarf stækkar. Þetta á við hér á Ströndum sem og annarsstaðar á landinu. Dilkar komu vænir af fjalli og fallþungi var með því sem best gerist og flokkun lamba í sláturhúsi var einnig mjög góð. 

Fé var tekið á hús í nóvember og mest allt klippt þegar það kom á hús. Margir klippa sjálfir en aðrir fá rúningsmenn til að klippa fyrir sig. Ullin er verðmæt vara, sem er vistvæn og gefur ekki frá sér skaðleg efni, hvorki í vinnslu né í förgun. Það er því mikilvægt að fara vel með ullina og reyna að fá sem best verð fyrir hana, þó bændum finnst að þeir fái ekki nógu gott verð miðað við þá vinnu sem fer í rúning og flokkun ullarinnar.

Kynbótastarf í blóma á Ströndum

Kynbótastarf í sauðfé er í blóma hér á Ströndum. Menn keppast við að eiga góða hrúta sem gefa góð lömb. Nú fyrir jólin voru lögð drög að framleiðslu næsta árs þegar var raðað undir hrútanna. Við þetta verk er yfirleitt lagst í miklar pælingar og það er margt sem þarf að passa uppá. Það helsta sem þarf að passa er skyldleiki. Við skyldleikaræktun er hætt við illa geti farið vegna galla sem geta komið fram. Þá er spáð í hvaða kindur gáfu sérstaklega góð lömb síðasta haust og hvort eigi að velja besta hrútinn á þær. Síðan þarf að huga að því hvort eigi til standi að fá fram einhverja sérstaka liti og raða þá saman eftir því og hafa litaerfðirnar á hreinu, sem eru nokkuð flóknar í sauðfé. 

Brúnó með mórauða hópinn sinn og eina gráa. Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

Tvær kindur við Steingrímsfjörð með verndandi arfgerð vegna riðu

Það er líka svo frábært í íslenskum sauðfjárbúskap að hver og einn getur haft sína sérvisku fyrir sig í ræktun. Þess vegna höfum við borið gæfu til þess að halda í alla liti sauðfjárins. En það er einnig annað sem vinnst með þessari sérvisku en það er erfðafjölbreytileiki í sauðfénu. Það er mikill auður þegar kemur að sjúkdómum að fjölbreytileikinn sé til staðar. Nú síðustu ár hefur verið boðið upp á að arfgerðargreina hrúta og þá aðallega til að leita að þætti sem geti haft áhrif á riðusmit. Nú í haust voru tekin sýni sem í var leitað að fleiri þáttum en áður. Niðurstöður sýndu að hugsanlega ónæmari arfgerð fannst í tveimur kindum við Steingrímsfjörð. Í framhaldi af þessum niðurstöðum verða svo tekin fleiri sýni. Markmið er að reyna að finna eða rækta arfhreinar kindur með verndandi arfgerð til kynbóta vegna riðu. Það verður áhugavert að sjá fleiri niðurstöður á þessu sviði.

Uppfært 30.12.: Áður stóð að niðurstöður sýndu að verndandi arfgerð hafi fundist í tveimur kindum við Steingrímsfjörð, því var breytt í hugsanlega ónæmari arfgerð.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.