Fólkið það besta við að búa í Kaldrananeshreppi

Skrifað af:

Ritstjórn

Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps. Mynd: Finnur. Bakgrunnsmynd: Ragna Ólöf.

Finnur Ólafsson var kosinn í sveitarstjórn Kaldrananeshrepps árið 2014 og kosinn oddviti á fyrsta fundi þess kjörtímabils. Strandir.is hafði samband við Finn til þess að fræðast um hann og hvað væri á döfinni í sveitarfélaginu Kaldrananeshreppi. 

Hver er bakgrunnur þinn og hvað leiddi þig í þetta starf?

Ég er fæddur og uppalinn á Svanshóli í Bjarnarfirði en flutti í burtu til að sækja mér menntunar en ég tók BS próf í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2007. Svo kláraði ég fiskeldisfræði frá Hólum árið 2014. Eftir að hafa menntað mig kom ég til baka á Strandir og var svo heppinn að hitta eiginkonu mína sem hafði ákveðið að vinna eitt sumar á Galdrasýningunni á Hólmavík. Það var svo árið 2014 að við flytjum í Kaldrananeshrepp og byrjuðum að búa og sama ár var ég kosinn í hreppsnefndina. 

Er þetta þitt aðalstarf?

Oddvitastarfið er ekki fullt starf en það er klárlega aðalstarfið mitt þar sem það er bæði mest krefjandi og ábyrgðarfyllsta starf sem ég hef gegnt. Ég starfa líka hjá Fiskmarkaði Hólmavíkur. 

Hefur þú alltaf búið í Kaldrananeshreppi?

Þótt að ég hafi slitið barnsskónum í Kaldrananeshreppi, þá hef ég búið víða, svo sem á Hólmavík, Reykjavík, Laugum í Aðaldal og á Bifröst auk þess að vera styttri tímabil víða. Eftir að hafa verið í burtu í nokkur ár fór ég að leita í upprunann og áttaði mig á því hvað skipti mig máli og hvað ég vildi hafa í mínu nærumhverfi og það leiddi mig svo hingað aftur. 

Hvað finnst þér best við að búa í Kaldrananeshreppi? En mest krefjandi?

Fólkið er klárlega efst á listanum yfir hvað er best við mitt sveitarfélag, því án þess væri allt það sem ég kann best að meta í samfélaginu ekki eins og það er. Mest krefjandi er fámennið sem veldur því að það er ekki alltaf hægt að vinna öll þau verkefni sem við viljum gera og ekki á þeim hraða heldur sem maður óskar.

Eru einhverjar ákveðnar breytingar/framþróun sem þú værir til í að sjá í Kaldrananeshreppi?

Með þróun atvinnulífsins í þá átt að störf án staðsetningar verða æ algengari sé ég viss tækifæri fyrir okkur að fá fólk til okkar sem gæti unnið fjölbreyttari störf. Ég myndi vilja að hér byggðist upp aðstaða þar sem fólk sem vinnur störf án staðsetningar gæti leigt sér aðstöðu til lengri eða skemmri tíma. 

Hvaða áhrif hefur Covid-19 haft á Kaldrananeshrepp?

Þótt að Covid-19 hafi ekki haft mikil efnahagsleg áhrif síðastliðið ár þá er róðurinn núna að þyngjast með verri söluhorfum á fiskafurðum og lækkunum á verði en sveitarfélagið byggir alfarið á sjávarútvegi, veiðun, ræktun og landvinnslu. Samfélagslegu áhrifin er miklu lúmskari, þau byrjuðu á því að fólk takmarkaði samneyti við aðra en fjölskyldu og nána vini, sem allir voru tilbúnir til þess að ráða niðurlögum faraldursins. Nú þegar faraldurinn hefur staðið yfir á annað ár finnur fólk fyrir félagslegri einangrun og flestir orðnir langeygir eftir að þessu ljúki svo hægt sé að fara að eiga skemmtilegar stundir í samfélagi við aðra í kringum sig. 

Hvað er helst á döfinni í Kaldrananeshreppi um þessar mundir?

Það er ýmislegt á döfinni í Kaldrananeshreppi. Talsvert er um byggingarframkvæmdir en verið er að reisa fjögur hús núna og verið að gefa út þrjú ný byggingarleyfi á síðasta byggingarnefndarfundi svo það verður mikið að gera hjá smiðum hérna í sumar.
Hreppurinn sér fram á að hægt verði að klára lagningu ljósleiðara í dreifbýli og verið er að vinna að því að kanna möguleika á að leggja ljósleiðara inna þéttbýli á Drangsnesi í sumar. Þá verður farið í lagningu grunninnviða vegna sumarhúsabyggðar á Klúku skv. skipulagi. Nýtt fyrirtæki á svæðinu er núna í tilraunaverkefni að kanna möguleika á fiskirækt í sjó með nýtingu ljósátu, sem er mjög spennandi. 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.