Ferðasumarið 2021 á Ströndum

Skrifað af:

Þorgeir Pálsson

Tjaldsvæðið á Hólmavík. Mynd: Haukur Sigurðsson

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.

Sjálfsagt hafa margir haft miklar væntingar til sumarsins 2021. Bæði vegna þess hversu vel gekk hjá mörgum sl. sumar, en einnig í þeirri von að nú færi Covid-19 að láta undan. Sumarið 2020 var gott fyrir marga, því eins og menn muna, streymdu Íslendingar út á land sem aldrei fyrr.

Sumarið hægt af stað

Sumarið 2021 fór hins vegar hægt af stað, en samkvæmt þeim sem rætt var við, fór allt á fulla ferð í júní og stóð fram í september. Við gerð þessa pistils var rætt við fulltrúa; Café Riis, Finna Hótels, Gistihúss Hólmavíkur, Víðidalsá Friendly Farmhouse, Galdrasafnsins, Gistiheimilisins Kríukots, Íþróttamiðstöðvar Strandabyggðar, Strandahesta, Sauðfjársetursins, gistiheimilisins að Kirkjubóli og Láka hvalaskoðunar.

Gvendarlaug Bjarnarfirði
Gvendarlaug í Bjarnarfirði. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Margir náð veltu síðasta árs strax í september

Almennt er mikil ánægja með sumarið og hafa sumir viðmælenda þegar náð veltu síðasta árs. Gistihús Hólmavíkur hefur reyndar náð þeirri veltu sem áætluð var fyrir árið 2022. Café Riis upplifir sitt besta ár til þessa og svona mætti lengi telja. Hjá flestum hefur verið mjög mikið að gera í sumar, hvort sem um var að ræða í mat, gistingu, tjaldsvæði eða sund.

Gisting á tjaldsvæðinu á Hólmavík var ekki langt frá því sem var sumarið 2020, en á tímabilinu maí – ágúst í sumar voru skráðar 4746 gistinætur og 7255 komu í íþróttamiðstöð og sundlaug á sama tíma.

Gistiheimilið Kríukot var með svipaða heildartölu gistinátta í ár og sl. ár en skiptingin var önnur, fleiri komu um sumarmánuðina en í fyrra en meiri dreifing á vetrarmánuðina árið áður.

Finna Hótel segir sömuleiðis svipaða sögu; sumarið fór hægt af stað, en frá og með júní var mjög mikið að gera þar til fyrst í lok september fór að hægjast um. 

Heitu pottarnir Drangsnesi
Heitu pottarnir í fjörunni á Drangsnesi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Gott sumar í öllum starfsgreinum

Almennt séð má því slá föstu, að þegar horft er til veitingasölu og gistinátta, var þetta gott sumar. Hvernig þróunin verður út árið er hins vegar erfiðara að segja til um. Sumir viðmælenda bentu á að lítið eða ekkert væri bókað í nóvember og desember, enn sem komið er. Hitt er svo annað, að Strandabyggð liggur það vel við samgöngum að hér ætti að vera hægt að bjóða upp á gistingu og veitingar allan ársins hring. 

Hjá Víðidalsá Friendly Farmhouse fengust þær upplýsingar að sumarið hafi gengið vonum framar og sé um 75% af meðalári við eðlilegar aðstæður. Framan af sumri voru gestir nær eingöngu Bandaríkjamenn, en síðan bættust Evrópubúar við þegar leið á. 

Í stuttu spjalli við fulltrúa Sauðfjársetursins og gistiheimilisins að Kirkjubóli, kom fram sama saga og hjá öðrum, að sumarið hefur verið gott og náðu gestakomur vel inn í september.

Selur
Selur á Ströndum. Mynd: Silja Ástudóttir

Hvalaskoðun Láka aftur í boði eftir árshlé

Hvað afþreyingu varðar, má benda á fyrirtækið Láka sem bauð aftur upp á hvalaskoðun á Hólmavík, en sumarið 2020 var engin starfsemi hér vegna Covid-19. Það var því mikið gleðiefni að sjá Láka sigla að nýju um Steingrímsfjörð. Hvalurinn lét hins vegar bíða eftir sér þetta sumarið og því fór starfsemin hægt af stað. Júní og júlí voru rólegir mánuðir, en mun meira sást af hval í ágúst og september.  Hvalurinn hefur almennt séð verið tregur um allt land og er skýringin hugsanlega hitinn og tíðarfarið. Starfseminni var haldið út september og síðan hefst ný vertíð næsta vor.

Erlendir ferðamenn voru stærsti hópurinn hjá Láka þetta sumarið og mun minna um Íslendinga en áður. Hólmavík hefur hingað til haft þá sérstöðu að gestir í hvalaskoðun héðan eru yfirleitt 25% íslenskir, en í ár var hlutfallið mun minna. Svo virðist sem Íslendingurinn hafi farið norður í land þetta sumarið í hvalaskoðun.

Láki Tours er með ferðir frá Hólmavík. Mynd: Silja Ástudóttir

Erlendir ferðamenn aftur orðnir fleiri á Galdrasýningunni

Strandagaldur hefur svipaða sögu að segja en þar er almenn ánægja með sumarið. Eins og hjá öðrum var mikil óvissa í byrjun sumar, en síðan komu ferðamennirnir. Það sem var frábrugðið frá síðasta ári, er að nú snéru erlendir ferðamenn aftur og voru um 60% af þeim 9.147 gestum sem heimsóttu Galdrasafnið á tímabilinu júní til ágúst. Innlendir gestir voru því 40%.  Um miðjan september höfðu 1.257 gestir heimsótt safnið. 

Strandahestar voru á pari við fyrri ár að sögn eiganda fyrirtækisins. Hápunkturinn í sumar var um miðjan júlí og voru nánast allir gestir erlendir ferðamenn og voru Bandaríkjamenn þar áberandi. Sumarið var í heildina mjög gott og varði lengur nú en í fyrra en þá lauk starfseminni nánast eftir verslunarmannahelgina. Enn var verið að selja ferðir fram í miðjan september sem er jákvæð breyting.

Sé staðan könnuð utan Strandabyggðar, má segja að ferðaþjónustufyrirtæki í nágrannasveitarfélögunum hafi svipaða sögu að segja. Haft var samband við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum, Laugahól í Bjarnarfirði, Sunna Guesthouse og Malarhorn Guesthouse á Drangsnesi og Hvamm Sumarhús í Bjarnarfirði.

Strandahestar
Reiðtúr með Strandahestum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Gott ár í Reykhólahreppi líka

Á Báta- og hlunnindasýningunni var sumarið mjög gott þrátt fyrir óvissu vegna Covid-19. Þó náði umfangið ekki því sama og á síðasta ári. Það er greinilegt að aðsóknin jókst í kjölfar viðburða og aukinnar markaðssetningar. Veðrið spilaði hins vegar inn í og það var erfiðara að áætla aðsókn, ef verðurútlit var vont eða erfitt. Með því að markaðssetja markvisst endurbyggingu á gömlum báti, tókst að ná til ákveðins markhóps. Eins varð aukning í tengslum við Reykhóladaga en þá daga er öllu jöfnu mest að gera. Þetta sumar var betra á þessum tíma en árin á undan.

Auk þess að reka safn, starfar Báta- og hlunnindasýningin einnig sem upplýsingamiðstöð, og voru komur þangað um 27% af öllum komum á sýninguna. Heildarfjöldi þeirra sem kom var 1062.

Í Króksfjarðarnesi er Handverksfélagið ASSA og þar á bæ voru menn mjög sáttir við sumarið. Það var almennt mikið að gera, fram að lokun um mánaðarmótin september – október.

Rekaviður Nesströnd
Rekafjara á Nesströnd í Steingrímsfirði. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Íslendingar framan af sumri en erlendir ferðamenn seinnihlutann

Hvammur Sumarhús er fyrirtæki í Bjarnarfirði. Að sögn aðstandenda þess var var sumarið á heildina litið mjög gott. Það fór hægt af stað í maí og fram í miðjan júní en síðan þá var bókað fram í lok september. Íslendingar voru áberandi framan af sumri eða fram í miðjan ágúst en eftir það voru erlendir ferðamenn í meirihluta.

Í Bjarnarfirði er einnig Hótel Laugahóll og var bókunarstaðan mjög góð í allt sumar en eitthvað fleiri afbókanir en í venjulegu árferði. Áberandi var minni áfengissala og eins gekk illa að manna starfsstöðurnar.

Á Drangsnesi er fyrirtækið Sunna Guesthouse og segja fulltrúar þess að sumarið hafi verið frábært, alltaf bókað og alveg fram til loka september. Bókanir í október eru hins vegar fáar. 

Besta ár frá upphafi reksturs

Malarhorn Guesthouse, hefur sömu sögu að segja; sumarið mjög gott og jafnvel það besta frá upphafi. Að sögn fulltrúa þeirra hefur ásókn verið meiri í haust en gert var ráð fyrir.

Vissulega eru fleiri fyrirtæki sem koma að ferðaþjónustu á Ströndum og hafa án efa áhugaverða sögu að segja.  Allir sem rætt var við, eru þó sammála um að ferðasumarið 2021 hafi verið gott í alla staði.

Ferðamaður nýtur útsýnisins frá Malarhorni. Mynd: Silja Ástudóttir

Vandi að manna ferðaþjónustuna á sumrin

Það er því í raun ekki hægt að kvarta yfir sumrinu sjálfu, þegar kemur að veitinga- og gistihúsum, samkvæmt þessum upplýsingum fyrirtækjanna. Þá var sumarið nokkuð gott fyrir tjaldsvæðið og íþróttamiðstöðina á Hólmavík.

Þó er það eitt sem skyggði á og flestir voru sammála um, en það var vandamál með mönnun sumarstarfsmanna.  Það var einfaldlega erfitt að fá fólk til starfa á þessum stöðum og einnig erfitt að finna þeim sem koma, húsnæði. Það er ljóst að atvinnurekendur þurfa að ræða stöðuna og hvað sé til ráða. Eins þarf að skoða húsnæðismálin í Strandabyggð hvað þetta varðar. Atvinnurekendur sem glíma við þetta sameiginlega vandamál, ættu að reyna að finna sameiginlega lausn.

Hótel Djúpavík
Hótel Djúpavík. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Sóknarfæri í ferðaþjónustu á Ströndum

Strandabyggð fór þá leið sumarið 2020 að auglýsa sveitarfélagið á facebook sem eins konar áfangastað fyrir fjölskyldur, sem gætu gist hér í nokkrar nætur og sótt afþreyingu innan Strandabyggðar og nærliggjandi sveitarfélaga. Þetta tókst vel og er rétt að vinna áfram á þessum nótum, enda Strandabyggð augljós þjónustukjarni svæðisins.

Hér eru fyrsta flokks veitingastaðir, hótel, gistihús, afþreying og almenn þjónusta svo ekki sé talað um einstakt landslag hér við Hólmavík og í næsta nágrenni. Ferðaþjónusta í Strandabyggð hefur því góðan grunn til að byggja á og hefur alla burði til að vaxa og eflast með fjölbreyttara úrval afþreyingar og lífsgæða.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.