Elísa Mjöll: „Ég hef alltaf viljað láta öðrum líða vel“

Skrifað af:

Ritstjórn

Elísa Mjöll Sigurðardóttir guðfræðinemi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Elísa Mjöll Sigurðardóttir guðfræðinemi á Hólmavík mun sjá um helgistundir, fermingarfræðslu og barnastarf í Hólmavíkurkirkju fram á vorið. Strandir.is hitti Elísu og fékk hana til að segja aðeins frá sér, náminu og starfinu í kirkjunni. 

Elísa Mjöll er 23 ára og fædd og uppalin á Hólmavík, elst þriggja systkina og eru foreldrar hennar einnig búsett þar og ömmur og afar langt aftur í ættir eru einnig Strandafólk. Elísa er gift Berki Vilhjálmssyni og eiga þau tvö börn Ellen Sigurrósu 2 ára og Ágúst Andra 6 ára. En hvað kom til þess að hún fór í guðfræðinám?

Ætlaði að verða flutningabílstjóri eins og afi

„Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða flutningabílstjóri eins og afi, sem mér fannst mjög töff. Seinna þegar ég var 10-11 ára langaði mig að verða prestur eða hjúkrunarfræðingur, en fljótlega hætti ég við hjúkrunarfræðinginn þar sem ég er ekki hrifin af blóði og nálum og svoleiðis. Mig langaði að gefa af mér og hafa alla góða og að öllum líði vel.“

Hún segir að hún hafi verið feimin og ekki sagt samnemendum sínum frá því að sig langaði að verða prestur nema einni vinkonu: „Ég og vinkona mín ákváðum að við myndum báðar verða prestar, hún myndi sjá um jarðarfarir en ég um rest, en ég endaði samt ein í guðfræðináminu og vinkonan fór að gera eitthvað annað.“ segir Elísa. Vinirnir tóku því samt vel þegar hún fór í námið og gera góðlátlegt grín að henni og kalli hana Ellu Prellu segir Elísa og hlær. 

Elísa við altarið í Hólmavíkurkirkju. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Ömmu Rósu að þakka að hún fór í guðfræðina

En er hún trúuð? „Já ég hef verið trúuð frá því ég man eftir mér. Bænir voru hluti af uppeldinu en ég held samt að þetta sé svolítið ömmu Rósu að þakka segir Elísa og vísar til ömmu sinnar Sigurrósar Guðbjargar Þórðardóttur sem lést árið 2010. „Amma kenndi mömmu bænir og fór með hana í sunnudagaskóla og svo bara gerði mamma eins með okkur. Ég man eftir að hafa síðan verið að kenna yngri systkinum mínum bænir. Ég hef alltaf viljað láta öðrum líða vel og geri ýmislegt sem kannski er líka meðvirkni eins og að leyfa öðrum að vinna í spilum bara svo að þeim líði betur.“ segir Elísa. 

Skiptir öllu máli að hafa gott bakland

Elísa er á öðru ári í BA námi í guðfræði, sem er í heildina þrjú ár, og stefnir á embættisnám Mag. Theol að því loknu. Henni finnst mjög gaman í náminu og að hitta samnemendur og kennara en hún tók allan framhaldsskóla í fjarnámi heima á Hólmavík. „Þó að það sé gaman að vera í staðnámi og hitta alla þá mætti HÍ alveg bjóða upp á aðeins meira fjarnám en það getur verið snúið að vera alla virka daga í Reykjavík með tvö lítil börn heima.“ segir Elísa og segist ekki geta þetta nema af því að hún hafi mjög gott bakland þar sem allir eru boðnir og búnir að leysa málin með henni, foreldrar þeirra Barkar, ömmur, afar og vinir. „Ég er mjög þakklát fyrir alla þessa hjálp og stuðning.“ segir Elísa. 

Elísa í fermingarathöfninni í Hólmavíkurkirkju. Mynd: Sigurður Marinó Þorvaldsson

Sér um barnastarfið og eiginmaðurinn spilar undir

Elísa hefur verið að sinna ýmsum verkefnum fyrir kirkjuna á Hólmavík og bæði séð um barnastarfið og fermingarfræðsluna síðan í haust. Hvernig finnst henni að takast á við þessi verkefni?  „Ég er mjög þakklát sr. Sigríði að hafa gefið mér tækifæri að sinna þessum verkefnum. Í fermingarfræðslunni er ég með tvo stráka og þeir spyrja mikið og ég verð bara að svara, ég læri helling á þessu líka. Í barnastarfinu er ég svo heppin að hafa Börk manninn minn með en hann er alveg með mér í að skipuleggja starfið og spilar undir á gítar sem er mjög gott þar sem starfið byggir mikið á tónlist og söng. Ég reyni að fá krakkana til að vera sem mest þátttakendur með mér og tónlistin er góð leið til að sameina breiðan aldur í hópnum, það geta allir verið með í söng og hreyfileikjum og krakkarnir eru frábærir“ segir Elísa.

Fékk að taka þátt í að ferma bróðir sinn

Hæst beri þó að hún hafi fengið að taka þátt í að ferma bróðir sinn, Marinó Helga, síðastliðið vor. „Ég fékk að taka fullan þátt í athöfninni með sr. Sigríði. Þetta var bara fámennt út af Covid en ég leiddi hann inn með fjölskyldunni og fékk að lesa ritningalesturinn og fara með bænir. Þetta var mjög sérstök athöfn og hafði mikla þýðingu bæði fyrir mig og bróðir minn.

Elísa í fermingarathöfn bróður síns. Mynd: Sigurður Marinó Þorvaldsson

Langar að starfa sem prestur á Ströndum í framtíðinni

Elísa sér fram á að útskrifast með embættispróf árið 2025 og vonast til að í framtíðinni geti hún starfað sem prestur á Ströndum. En hvað er svona gott við Strandirnar? „Það er bara fólkið og fjölskyldan og gott að búa í svona litlu bæjarfélagi. Allir styðja mann í því sem maður ákveður. Svo er líka útsýnið og frelsið og hérna vil ég ala upp börnin mín“ segir Elísa sem er virkur þátttakandi í samfélaginu og er bæði í björgunarsveitinni og slökkviliðinu auk þess að vera í kirkjukórnum og spila fótbolta. „Ég vil bara láta gott af mér leiða og geta gefið af mér til samfélagsins“ segir Elísa að lokum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.