„Ég fann bara fyrir frelsi“

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Veiga er mikill áhugaljósmyndari. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Veiga Grétarsdóttir hefur afrekað það sem engin kona hefur afrekað áður, að róa hringinn í kringum landið á kajak. Strandir.is hitti Veigu í Norðurfirði þar sem hún var í stuttu stoppi á ferð sinni þar sem hún fer róandi frá Ísafirði til Seyðisfjarðar.

„Já, það er of hvasst,“ segir Veiga. Hún rýnir í sjóinn aðeins utar í firðinum og útskýrir hvernig hún les í öldurnar til að sjá vindhraðann. Veiga er fædd og uppalin við sjóinn, á Ísafirði, en á ættir sínar að rekja til þessa svæðis. Amma hennar var Jenný Jónsdóttir frá Seljanesi í Ingólfsfirði en Jenný var systir Kristins Jónssonar á Dröngum. Veiga verður í tveggja daga stoppi í Norðurfirði og segist vera mjög sátt við það. „Hérna kemst ég í búðina og í sund og get slappað af.“ Utar í firðinum er hún búin að tjalda í lítilli vík og kajakinn hvílir á ströndinni.

Veiga búin að koma sér vel fyrir í Norðurfirði. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

50 kíló til að lifa

Tjaldið og allt sem í því er, raftæki, matur, allt rær hún með á kajaknum. „Ég þarf 50 kíló til að lifa.“ Í hólfum í bátnum kemur hún fyrir öllu sem til þarf. Því er komið fyrir haganlega og pakkað eftir kúnstarinnar reglum. Fréttaritari lætur augun reika síendurtekið frá tjaldi að kajak og undrar sig á því hvernig þetta kemst allt fyrir.

Kajakinn hennar Veigu. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Í sætinu hefur Veiga myndavél sem hún nær auðveldlega til, enda hefur hún tekið meira en 300 gígabæt af myndefni það sem af er ferðinni. Hún lagði af stað frá Ísafirði 10. júlí og reiknar með að vera komin til Seyðisfjarðar eftir mánuð. Hún sýnir fréttaritara myndir af strandlengjunni. Þær eru margar hverjar átakanlegar og sýna mikið af stórum plastúrgangi sem hefur meðal annars verið fleygt í sjóinn. „Ég er búin að sjá ótal gúmmístígvél,“ segir Veiga.

Vekur athygli á umhverfismálum

Náttúruvernd er Veigu ofarlega í huga. Markmið hennar með róðrinum í kringum hálft landið er að njóta nálægðar við náttúrunnar en ekki síst að vekja athygli á verndun hennar með því að beina sjónum landsfólks að ströndum Íslands. Hún hefur jú annað sjónarhorn á það og á bak við ímyndina af hreinu landi er önnur hlið. Veiga hefur nýtt tækifærið og hreinsað strendur á Vestfjörðunum á leið sinni austur. Sem dæmi má nefna að hún fékk heimafólk í lið með sér einn daginn og hjálpuðust allir við að fjarlægja plast og annan úrgang úr Naustvík við Steingrímsfjörð.

Sólarsellur nýtast vel til að hlaða raftækin. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

„Við erum að taka upp heimildaþætti sem snúast um ferðalög á kajak en ekki síst um fegurð náttúrunnar.“ Þessi ferð er fyrsti hluti af fjórum. „Svo fer ég til Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.“ Þættina framleiðir Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Ef allt gengur eftir verða þeir sýndir í öllum fjórum löndunum og jafnvel víðar. Næsta sumar mun Veiga því róa við strendur Noregs. „Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál í stóra samhenginu.“

Fullkomið líf

En verður hún ekkert leið á öllum róðrinum? „Nei, fyrir mér er þetta fullkomið líf. Það eina sem ég geri er að róa, borða og sofa. Ég tek bara einn dag í einu. Þetta er eins minimalískur lífsstíll og hægt er að hugsa sér! Þetta er heimilið mitt og allt sem ég þarf er í kajaknum með mér. Þegar ég kem heim hugsa ég alltaf hvað við séum eiginlega að gera með allt þetta dót sem við eigum. Hlutir geta stjórnað þér of mikið.“

Veiga nýtur lífsins. Mynd: Guðbjörg Guðmundsdóttir

Sambandslaus á Hornströndum

Aðspurð hvort hún verði einhvern tímann smeyk og þá sérstaklega þegar hún rær á stöðum sem eru utan símasambands segist hún vera með tæki sem heiti InReach sem gerir henni kleift að senda skilaboð ef hún þarf aðstoð. „Ég réri framhjá Aðalvík, Hlöðuvík og Hornvík, var tvær nætur í Reykjafirði og eina á Dröngum, allt án þess að vera í símasambandi. Ég fann bara fyrir frelsi.“

Uppfært: Veiga lagði af stað frá Norðurfirði eftir stoppið og hélt ótrauð áfram förinni.

Hér er hægt að fylgjast með staðsetningu Veigu í rauntíma.

Instagramsíða Veigu

Heimasíða Veigu

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.