Ásakanir og dylgjur um fólkið í fráfarandi sveitarstjórn Strandabyggðar

Skrifað af:

Jón Jónsson

Krummi krunkar úti. Mynd: Jón Jónsson.

Nú er kjörtímabili sveitarstjórnar að ljúka og ég verð feginn því, hef fengið meira en nóg af öllu þessu brasi. Ég bauð mig ekki fram í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Ég bauð mig reyndar heldur ekki fram fyrir fjórum árum, ef fólk skyldi hafa gleymt því og sýndi engan áhuga á að verða kosinn í þessu blessaða persónukjöri sem þá var. Samt lenti ég nú þarna inni sem 4. varamaður í sveitarstjórn Strandabyggðar. Gladdist reyndar mjög yfir því að vera ekki ofar, enda hafði konan mín, Ester Sigfúsdóttir, beðið mig mjög fallega árið 2014 um að bjóða mig ekki fram aftur og mér finnst að samþykki mitt síðan þá sé enn í fullu gildi. 

Á endanum fór það samt þannig að ég sat inni í hreppsnefndinni í eitt og hálft ár af síðasta fjögurra ára tímabili og fór alloft á fundi sem varamaður þegar aðrir komust ekki. Með mér í sveitarstjórninni sat alltaf gott fólk með það að markmiði að gera eins vel og það gat fyrir samfélagið sitt. Það hafði yfirsýn og horfði á heildarmyndina, skildi að samfélagið þarf öfluga atvinnustarfsemi, kraftmikið menningarstarf og gott mannlíf. Góð ímynd svæðisins, stemmningin í samfélaginu og sterk sjálfsmynd fólksins skiptir líka miklu og hefur áhrif á alla þessa þætti. Ég held raunar að langoftast sé fólk í sveitarstjórnum að reyna að gera sitt besta og það sem það telur réttast hverju sinni, þótt árangurinn sé kannski misjafn. Það sé algjör undantekning ef einstaklingar hugsa meira um eigin hagsmuni, en það sem kemur samfélaginu best. Ég vil nota tækifærið, nú á síðasta starfsdegi fráfarandi sveitarstjórnar, og þakka öllum þeim sem ég “afplánaði” með kærlega fyrir gott samstarf. 

Margt bar til tíðinda á kjörtímabilinu, ráðist var í stór verkefni eins og sameiningu grunn- og leikskólans, sveitarstjórn greip til aðgerða til að tryggja að matvöruverslun yrði áfram á Hólmavík og löngum stundum var glímt við afar erfiðan rekstur sveitarfélagsins. Talsverðar breytingar urðu á sveitarstjórninni og þrír af varamönnum tóku fast sæti í henni um tíma, ýmist vegna brottflutnings þeirra sem fyrir voru, persónulegra aðstæðna eða veikinda. Engir varamenn voru til taks seinni hluta kjörtímabilsins. Covid setti auðvitað líka sinn svip á kjörtímabilið, mannlíf og atvinnulíf. Þátttakan í byggðaþróunarverkefninu Sterkum Ströndum hafði mikil og jákvæð áhrif. 

Og svo var sveitarstjóranum sagt upp störfum þegar ár var eftir af kjörtímabilinu. Samstarfsörðugleikar höfðu verið nokkrir og fóru vaxandi. Þegar fólk getur ekki unnið saman verður einhver að víkja og sveitarstjórninni sjálfri er það ekki heimilt, lögum samkvæmt. Hún verður að sitja út tímabilið og getur ekki stigið til hliðar í slíkum aðstæðum (þótt sumir hefðu kannski viljað það). Það var því ekki annað að gera. 

Eftir uppsögnina hófst sveitarstjórinn fyrrverandi þegar handa við að birta ásakanir og dylgjur um störf sveitarstjórnarinnar sem hann hafði unnið með misserin á undan. Í opnu bréfi til íbúa í Strandabyggð sem birt var á Strandir.is, fljótlega eftir uppsögnina, setur Þorgeir fram ásakanir í þessum anda, um „hagsmunagæslu sveitarstjórnarfulltrúa og varamanna, óheppilegum og óæskilegum tengingum þeirra við styrkúthlutanir og aðra ráðstöfun fjármagns eða eigna sveitarfélagsins.“ Hann bætir svo við: „Mér hafa þótt sumar þessara ákvarðana stangast á við sveitarstjórnarlög, samþykktir Strandabyggðar og siðareglur Strandabyggðar.“

Ári síðar hjálpuðu blaðamenn svo til að dreifa sambærilegum ásökunum á landsvísu, bæði  fyrir og eftir kosningarnar nýafstöðnu. Nokkru fyrir kosningar birtist drottningarviðtal við Þorgeir í Stundinni. Meginefni þess snerist reyndar um að klekkja á stórútgerðinni í landinu og ef til vill hefur blaðamaðurinn litið þannig á að þetta sveitarstjórnarþras væri hálfgert aukaefni. Þá er kannski ekkert skrítið að hann hafi alveg sleppt því að spyrja hreppsnefndina í Strandabyggð, sem sat undir ásökunum, hvort hún hafi eitthvað um málið að segja. Mér finnst það samt dálítið skrítið. 

Í viðtalinu í Stundinni segir Þorgeir: „Ég var rekinn hér sem sveitarstjóri vegna þess að ég gagnrýndi sérhagsmunagæslu sveitarstjórnarinnar. Alls kyns styrkúthlutanir til safna og fyrirtækja sem tengjast sveitarstjórnarfulltrúunum. Líka meðhöndlun eigna og ákvörðun um að gefa þær einstaklingum sem tengjast fulltrúum í sveitarstjórn beint.“ Síðan bætir hann við að fólkið í sveitarstjórn eigi að fara „að sveitarstjórnarlögum, samþykktum og siðareglum. Það var að mínu mati ekki alltaf gert, sem ég gagnrýndi og var fyrir vikið rekinn.“ Þessi söguskýring um brottreksturinn er auðvitað eftiráskýring, en nú er ég meira að hugsa um þær ásakanir sem í þessu felast. 

Hvernig á að skilja og túlka þessar ásakanir? Ég svara svo sem bara fyrir sjálfan mig, en það er nú allt nokkuð augljóst, finnst mér. Það er verið að ásaka mig (og hina einstaklinga sem hafa setið síðustu fjögur árin í sveitarstjórn) um lögbrot og spillingu, fjárdrátt úr sveitarsjóði til stofnana og fyrirtækja í okkar eigu og þjófnað á eignum sveitarfélagsins sem við eigum að hafa gefið ónafngreindum einstaklingum sem okkur tengjast. Dylgjurnar snúast beinlínis um að við höfum gengið hart fram við að úthluta sjálfum okkur, fjölskyldum okkar og fyrirtækjum, fjármunum úr næstum galtómum sveitarsjóði.

Slík afbrot á auðvitað að kæra til lögreglu, í staðinn fyrir að bera fram ásakanir eftir að samstarfinu var lokið og dreifa þá dylgjum um meinta glæpi. En það er ekki gert, enda hefði þá auðvitað komist upp að þessar ásakanir væru innistæðulausar. Í staðinn er sagt sem svo að sitthvað misjafnt hafi átt sér stað, en aldrei tilgreint hvað það er. Það hentaði greinilega betur að láta Gróu á Leiti um málið. Slúðursögur og lygaþvættingur sem byggist á þessum ásökunum og dylgjum virðist líka hafa verið á svo miklu flugi hér í samfélaginu síðasta árið, að maður gæti næstum haldið að þeim hafi verið dreift skipulega.

Rétt er að benda á að sveitarfélög eru undir eftirliti, reikningar þeirra eru endurskoðaðir og sveitarstjórnarráðuneytið hefur eftirlit með fjármálum þeirra, auk þess sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fylgist vandlega með og reyndar sérstaklega með Strandabyggð vegna erfiðrar stöðu. Allt hefur verið með eðlilegum hætti, engar athugasemdir gerðar af þessum eftirlitsaðilum.

Þessar ásakanir um brot í starfi og upplognar slúðursögur sem fylgdu í kjölfarið hafa hins vegar vissulega haft áhrif í samfélaginu. Margir virðast vera móttækilegir og eiga auðvelt með að trúa því sem ljótt er sagt um náungann. Þessar ásakanir hafa líka heilmikil áhrif á þá sem fyrir þeim verða og það á líka við um mig og mína fjölskyldu. Mamma er algjörlega miður sín. Konan mín Ester hefur ítrekað imprað á því undanfarið hvort við séum ekki búin að eiga nógu lengi heima á Ströndum. Hvort það sé einhver ástæða fyrir fólk að reyna að leggja sitt af mörkum í samfélagi, þar sem aðrir eru tilbúnir til að trúa alls konar óhróðri um það. Þessi umræða er ekki útkljáð enn, ég hef eytt þessu tali, en skil ljómandi vel hvað hún er að fara. Börnin okkar sem öll eru orðin fullorðin eru bæði sár og leið, en fyrst og fremst furðu lostin.

Góðu fréttirnar eru þær að það er ekki bara einn maður í sveitarstjórn. Þar munu sitja fimm einstaklingar næsta kjörtímabil, öll með sjálfstæðar skoðanir, alveg eins og síðasta kjörtímabil. Þess vegna er mikilvægt fyrir mig sem hef setið undir þessum ásökunum (ásamt öðrum í fráfarandi sveitarstjórn), að heyra frá fólkinu sem situr frá og með morgundeginum með Þorgeiri Pálssyni í sveitarstjórn fyrir hönd T-listans. Jón Sigmundsson og Sigríður G. Jónsdóttir, ég spyr ykkur beint, hvað finnst ykkur um þennan málflutning Þorgeirs um lögbrot og glæpi fólksins sem sat í síðustu sveitarstjórn?

auglýsingar

Nýjustu fréttir og greinar

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Strandabyggð auglýsir þrjár lausar stöður í Grunnskólanum á Hólmavík og í Leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Í dag opnar fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. 23 myndlistarmenn sýna verkin sín á Ströndum.
Það styttist óðfluga í Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem verður haldin á Sauðfjársetrinu í Sævangi helgina 8.-10. júlí næstkomandi.
Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana.
Opinn kynningarfundur um verkefnið Verndarsvæði í byggð á Hólmavík verður haldinn á Kaffi Galdri nk. fimmtudag, 30. júní og hefst kl. 20:00.