Áramótapistill Sauðfjársetursins: Viðburðir og verkefni

Skrifað af:

Ester Sigfúsdóttir

Ester Sigfúsdóttir og Dagrún Ósk Jónsdóttir ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsetisráðherra. Mynd: Aðsend
Ester Sigfúsdóttir

Þá er árið 2021 liðið undir lok. Veiran alræmda hefur sannarlega sett svip sinn á viðburðahald á Sauðfjársetrinu þetta árið, líkt og í fyrra, en engu að síður hefur verið nóg um að vera og á köflum mikið að gera í vinnunni. Á söfnum fer fram allskonar innra starf við minjavörslu og skráningu sem er að miklu leyti ósýnilegt. Og við höfum áfram þurft að finna nýjar leiðir til að skemmta okkur saman. Nokkra viðburði tókst að halda í raunheimum, aðra á netinu og enn aðrir bíða betri tíma. 

Í janúar tók Sauðfjársetrið þátt í vetrarhátíðinni Vetrarsól sem var bæði haldin í raunheimum og á vefnum. Þá var opnuð ný ljósmyndasýning á Kaffi Kind á Sauðfjársetrinu sem hefur yfirskriftina Svipmyndir úr sveitinni: Úr myndaalbúmi Rósu Jónídu á Kirkjubóli. Þá stóð Náttúrubarnaskólinn líka fyrir skemmtilegum rúnaratleik á Hólmavík og viðburðurinn Bábiljur og bögur úr baðstofunni var sendur út á vefnum. Þá stóð Sauðfjársetrið, ásamt Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum fyrir annarri myndasýningu á Hólmavík. Um var að ræða útisýningu á stórum sjónvarpsskjá í glugganum á Hnyðju, Þróunarsetrinu á Hólmavík. Þar rúllaði sýning á gömlum ljósmyndum frá Hólmavík úr myndamöppum Karls E. Loftssonar.

Í febrúar var haldin önnur skemmtileg hátíð: Hörmungadagar á Hólmavík. Á dagskrá Sauðfjársetursins í tengslum við þá skemmtilegu hátíð var óhugnanleg draugaganga í Orrustutanga sem var vel sótt (þó innan samkomutakmarkana að sjálfsögðu) og skemmtun með fróðleik og tónlist sem bar yfirskriftina Pestir og plágur, harmakvein og hungur-sneið. 

Í mars hófst heima-páska-bingó. Þá gat fólk um allt land keypt bingóspjöld sem send voru til þeirra í gegnum vefinn og svo voru dregnar út tölur á hverjum degi. Það var frábær þátttaka og mikið stuð. Bingó-ið stóð í 20 daga áður en allir vinningar höfðu gengið út.

Í apríl og maí var áframhaldandi stuð á vefnum, Facebook hópurinn Gamlar Strandamyndir, sem Sauðfjársetrið og Rannsóknasetur HÍ á Ströndum standa saman að, er í fullu fjöri. Mikið var líka um að vera bak við tjöldin í skráningu og skipulagi. Þá undirbjuggum við okkur líka undir að opna fyrir sumarið. Anddyrið í Sævangi var málað og sögusýningin Börn í sveit, sem opnaði árið 2016, var tekin niður til að rýma til fyrir nýrri sýningu. 

Frá Náttúrubarnahátíðinni – Arfisti kennir jurtalitun. Mynd: Ester Sigfúsdóttir

Í júní opnaði safnið. Náttúrubarnaskólinn tók líka til starfa á ný og stóð fyrir tveim vikulöngum leikjanámskeiðum í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð. Það var vel heppnað og gaman. Þá fóru Söguröltin aftur af stað, en þau eru samstarfsverkefni Sauðfjársetursins og Byggðasafns Dalamanna. Gönguferðirnar voru fróðlegar og skemmtilegar eins og alltaf og yfirleitt vel sóttar.

Sögurölt í Bersatungu. Mynd: Ester Sigfúsdóttir

Á Hamingjudögum á Hólmavík opnaði sýningin: Förufólk og flakkarar, á Sauðfjársetrinu. Sýningin segir frá förufólki sem flakkaði um Ísland fyrr á öldum. Þetta var fjölbreyttur og umtalaður hópur og í sögunum sem sagðar voru um þau, eru þau stundum líkari þjóðtrúarverum en raunverulegum manneskjum. 

Þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson eru höfundar sýningarinnar og sögðu frá gerð hennar og förufólkinu við opnunina. Einnig var á boðstólum kaffihlaðborð. Á sýningunni eru textaspjöld, myndir og fróðleikur um förufólk. Textar á veggjum eru á íslensku, en á ensku í möppum. Einnig er leikin heimildamynd á sýningunni, leikþáttur sem Leikfélag Hólmavíkur tók þátt í að gera. Var hann tekinn upp í baðstofunni á Byggðasafninu á Reykjum. Sunneva Guðrún Þórðardóttir málaði heilmikla veggmynd á tvo veggi í sérsýningarherberginu. Það er mikill munur fyrir Sauðfjársetrið hversu margt hæfileikaríkt listafólk og fræðifólk býr í héraðinu og að það skuli vera jafn jákvætt fyrir því að taka þátt í uppátækjum setursins og raun ber vitni. 

Veggmynd Sunnevu G Þórðardóttur afhjúpuð. Jón Jónsson, Sunneva og Dagrún Ósk Jónsdóttir. Mynd: Ester Sigfúsdóttir

Í júlí var áfram mikið um að vera, sögurölt, kaffi, tónleikar með Gímaldin, sýningarheimsóknir og fleira. Sauðfjársetrið tók á móti Uglusafni Ásdísar Jónsdóttur sem leysti áletruðu könnurnar af hólmi í sýningarhillunni miklu á Sauðfjársetrinu. Alls eru þarna um 89 uglur. Sirkusinn Allra veðra von kom í heimsókn og var með glæsilega útisýningu. Um miðjan mánuð var Náttúrubarnahátíðin síðan haldin með pompi og prakt, en þá voru engar takmarkanir í gildi vegna kórónuveirunnar. Hátíðin samanstendur af þéttri dagskrá yfir heila helgi þar sem bæði listafólk og skemmtikraftar af svæðinu og á landsvísu koma fram. Aðsóknin var mjög góð og talið er að samtals hafi um 300-400 manns komið á hátíðinni, bæði heimafólk og gestir sem voru komnir lengra að. Gestir og heimafólk voru ánægð með hátíðina en ánægðust vorum við líklega sjálf, að allt hafi gengið svona glimrandi vel. 

Sýningin Allra veðra von. Mynd: Sauðfjársetrið

Í ágúst voru samkomutakmarkanir hertar á ný. Hrútadómunum var því miður aflýst annað árið í röð, en við erum full bjartsýni á nýju ári og vonum að það takist nú að halda þá í sumar. Náttúrubarnaskólinn og Söguröltið fóru sömuleiðis í pásu. Gestir héldu þó áfram að streyma á safnið til að skoða sýningar og gæða sér á kaffi og kökum. Sjónvarpsstöðin n4 kom og gerði innslag um bæði Sauðfjársetrið og Náttúrubarnaskólann. Í lok ágúst kom svo Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í heimsókn og fræddist um starfsemi safnsins og þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem það hefur. Ein bókakynning var haldin í lok ágúst, þar sem góðir gestir sögðu frá nýrri bók um bardagaaðferðir og samfélag víkinga. 

Ester Sigfúsdóttirr og Dagrún Ósk Jónsdóttir ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsetisráðherra. Mynd: Aðsend

Í haust voru nokkrir eftirminnilegir viðburðir. Í september var haldin Þjóðtrúarkvöldvaka. Þemað að þessu sinni var einnig Pestir og plágur, og voru flutt fróðleg erindi um þjóðtrú og sögur, siði og venjur, fyrr og nú. Auk þess var kynngimagnað kvöldkaffi á boðstólum og tónlistaratriði að venju. Þá fór starfsfólk safnsins líka á Farskóla safnmanna í Stykkishólmi. Í október var langþráð spilakvöld haldið í Sævangi við mikinn fögnuð, en heldur færri mættu þó en vanalega vegna hópsmits í Dölum sem kom upp um þetta leyti. Við vonumst til að ná að spila meira á nýju ári. Sviðaveislunni sem er næstmikilvægasta árlega fjáröflun Sauðfjársetursins á eftir hrútaþuklinu var hins vegar aflýst annað árið í röð vegna sóttvarna. 

Söngdúettinn Dúllurnar, Salbjörg Engilbertsdóttir og Íris Björg Guðbjartsdóttir. Mynd: Ester Sigfúsdóttir

Í nóvember var hátíðin Bókavík haldin á Hólmavík. Á dagskrá Sauðfjársetursins var ljóðakvöld á Sauðfjársetrinu þar sem Ólafur Sveinn Jóhannsson kom á staðinn og kynnti ljóðabókina sína Klettur: Ljóð úr sprungum. Þá var einnig sagt frá nýrri bók sem gefin er út af Sauðfjársetrinu og Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu, Álagablettir á Ströndum. Þá var einnig sagt frá næsta útgáfuverkefni safnsins sem stendur til að komi út á þessu nýja ári, en það er ljósmyndabók með gömlum Strandamyndum og er ætlunin að bjóða hópi af áhugasömum Strandamönnum að velja gamla ljósmynd tengda Ströndum og skrifa pistil með perónulegum vinkli um myndina. Í nóvember byrjaði líka jóla-heima-bingó sem gekk ljómandi vel. 

Desember mánuður snérist mest um nýju bókina um álagabletti. Bókin byggir á sýningu um álagabletti í Sauðfjársetrinu sem var opnuð árið 2013, en nú er fyrirhugað að hún verði tekin niður og leyst af hólmi með annarri skemmtilegri sýningu á þessu nýja ári. Bókin er full af áhugaverðum og krassandi sögum um álög og bannhelgi sem tengist einstökum stöðum á Ströndum. Í henni er einnig fjöldi litljósmynda og margvíslegur fróðleikur um þjóðtrú og sagnir. Sunnudaginn 12. desember var haldið útgáfuhóf í Hnyðju á Hólmavík, sem einnig var hægt að fylgjast með í vefstreymi. Bókabíllinn rúntaði með bókina, en hana er ennþá hægt að nálgast hjá Sauðfjársetrinu en einnig í bókabúðum Pennans í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri og Ísafirði og hjá Kvaka, vefverslun Stranda.

Sauðfjársetrið er sjálfseignarstofnun og viðurkennt safn þar sem öllum tekjum og framlögum er varið í að efla starfsemina og búa í haginn fyrir safnið. Þrír stuðningsaðilar eru mikilvægastir, Safnasjóður, Uppbyggingasjóður Vestfjarða og sveitarfélagið Strandabyggð. Á árinu fengum við líka stuðning frá Sterkum Ströndum og Orkubúi Vestfjarða. Við þökkum þessu bakhjörlum kærlega fyrir stuðninginn, enda væri starfsemin aðeins svipur hjá sjón án þeirra.

Við þökkum kærlega fyrir árið sem er að líða, heimsóknir í Sævang, þátttökuna í bingó-inu, viðtökurnar við bókinni og skemmtilega viðburði í byrjun árs og sumar. Við hlökkum til næsta árs. Það eru skemmtileg verkefni framundan, árið 2022 verður Sauðfjársetrið 20 ára og er fyrirhuguð fjölbreytt og spennandi dagskrá í tengslum við það. Við stefnum á að opna nýjar sýningar fyrir næsta sumar og aftur næsta haust, prufa okkur áfram á nýjum miðlum og halda áfram við bókaútgáfu. Við vonumst líka til að hitta ykkur aftur í raunheimum sem allra fyrst, drekka kaffi, spjalla saman og hafa gaman.

Megi gleði og gæfa fylgja ykkur á nýju ári,

Ester Sigfúsdóttir, forstöðumaður

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.