Æskujól í Bitrufirði nítjánhundruðsextíuogeitthvað

Skrifað af:

Stefán Gíslason

Jóladagatal. Mynd: Stefán Gíslason

Stefán Gíslason er fæddur og uppalinn í Gröf í Bitrufirði og bjó á Ströndum í um 40 ár ýmist starfandi sem smali, skólastjóri eða sveitarstjóri. Strandir.is báðu Stefán um að deila með okkur jólaminningum sínum frá æskuárunum í Gröf og brást hann við og sendi okkur þennan hugljúfa pistil.

Stefán Gíslason

Eitt af því sem manni getur dottið í hug á jólunum er að rifja upp gamla jólatíma, sérstaklega ef maður er orðinn nógu gamall til að eiga svoleiðis tíma í kollinum – og ekki svo gamall að þeir séu dottnir aftur þaðan út. Æskan mín stóð líklega hæst á tímabilinu 1963-1969. Alla vega held ég að jólaminningar æskunnar séu flestar frá þeim árum. Núna er auðvitað margt gleymt af því sem gerðist þá, enda „ekki til neinar myndir af því“. Eitthvað stendur vissulega eftir, en ég veit að minnið getur verið valkvætt – og það gildir jafnt um mig sem aðra. 

Rafmagnið 

Ég ólst upp í Gröf í Bitru, tiltölulega langt frá þéttbýli og tiltölulega langt frá nútímanum. Þangað náði dreifikerfi raforku fyrst árið 1974 ef ég man rétt og þá var æska mín búin og öll jól æskunnar orðin að minningum. Rafmagnið sem brá ljóma á jól æsku minnar kom sem sagt ekki frá Orkubúi Vestfjarða, heldur frá dísilrafstöð af gerðinni Lister. Fyrstu þrjú jólin mín voru þó líklega enn rafmagnslausari, því að þá kom eina rafmagnið á heimilinu frá lítilli 12 volta vindrellu á þakinu, á milli þess sem hún fauk niður. En ég man ekkert eftir þeim jólum. 

Fyrsti Listerinn kom inn á heimilið árið 1960 eða þar um bil. Þetta var eins strokks dísilvél sem gaf að mig minnir 1,25 kílówött. Það rafmagn dugði vel til ljósa, en til að setja þetta í eitthvert nútímasamhengi dugar þetta afl í mesta lagi til að knýja einn hraðsuðuketil. Þar af leiðandi voru nánast engin raftæki í Gröf á þessum árum, nema ein gömul tromluþvottavél af gerðinni Mjöll, já og KitchenAid-hærivélin. Veturinn 1965-1966 gaf þessi Lister svo upp öndina og í staðinn kom annar miklu stærri, heil 6 kílówött. Í kjölfarið fylgdu alls konar ný þægindi, m.a. rafmagnseldavél. 

Þessi pistill átti vissulega ekki að fjalla um rafvæðingu Bitrufjarðar, en líklega höfðu fáir þættir meiri áhrif á jólahaldið en einmitt orkan sem var tiltæk. Þess vegna rifja ég þessa rafmagnssögu upp hér. 

Jóladagatalið 

Jól æsku minnar voru augljóslega um margt einfaldari en tíðkast í dag, og sá einfaldleiki réðist ekki bara af takmörkuðum aðgangi að rafmagni. Þetta voru bara aðrir tímar. Einfaldleikinn birtist m.a. í jóladagatalinu mínu, þar sem hvorki leyndust súkkilaðimolar, leikföng eða bjórflöskur, heldur bara lítil mynd fyrir hvern dag. Og svo var sama dagatalið notað ár eftir ár. Samt var alltaf hægt að hlakka til að opna næsta glugga. Jóladagatalið var u.þ.b. A4 að stærð og þegar jólin voru búin var því alltaf pakkað inn í sama umbúðapappírinn og geymt til næstu jóla. Þetta jóladagatal á ég enn óskemmt (og umbúðapappírinn líka), en ég er reyndar hættur að opna gluggana reglulega.  

Jóladagatal Stefáns. Búið að opna nokkra glugga og mikil spenna framundan. Mynd: Stefán Gíslason

Jólasveinar 

Þegar ég man fyrst eftir mér voru jólasveinarnir ekki byrjaðir að gefa börnum í skóinn, í það minnsta ekki í afskekktari byggðum. Þar af leiðandi fengum við systkinin engar gjafir á aðventunni, aðra en tilhlökkunina eftir því sem hlaut að bíða okkar á aðfangadag. Auðvitað vissi ég af tilvist jólasveinanna og vissi að þeir væru synir Grýlu og Leppalúða. Ég hafði m.a. lesið af þeim sögur og kvæði, föndrað þá í skólanum og jafnvel heyrt sungið um þá í útvarpinu. En þeir gerðu aldrei vart við sig í sveitinni og mættu aldrei á jólaböllin, líklega einkum vegna þess að það voru engin jólaböll. 

Föndur og skraut 

Fyrstu kynni mín af skólagöngu voru í Farskóla Fells- og Óspakseyrarskólahverfis, eins og sú merka stofnun nefndist í formlegu tali. Þetta var veturinn 1964-1965. Fyrsti kennarinn minn þar hét Flosi – og hann flutti með sér mikinn áhuga á handverki. Það varð m.a. til þess að við yngri bræðurnir, rétt eins og önnur börn í sveitinni, sátum löngum stundum með útsögunarsög og söguðum mögnuð listaverk úr krossviði. Og þegar búið var að pússa kantana með sandpappír og misþykku lagi af þolinmæði, var málað yfir allt saman með þekjulit. Meðal þess sem þarna var skapað voru jólasveinar og jólatré, sem upp frá þessu voru hluti af hinu árlega jólaskrauti. Þar við bættust svo krosssaumsmyndir, dúkar og fleiri fallegir hlutir eftir mömmu, sem var annáluð handavinnukona. Allt þetta gerði jólin hátíðlegri og ólíkari öðrum dögum en ella. Þar fyrir utan var lítið til af jólaskrauti í Gröf.

Mömmu fannst gaman að hafa fínt í kringum sig á jólunum, en þótt efnin væru nóg tíðkaðist ekki að eyða þeim í óþarfa. Þegar ég hugsa til baka man ég best eftir fjórum hlutum, öðrum en þeim heimagerðu, sem flokka mætti sem jólaskraut. Þetta var í fyrsta lagi gylltur kertastjaki fyrir fjögur lítil kerti, þar sem hitauppstreymið frá kertunum var látið snúa gylltum engli og tilheyrandi „dinglumdangli“ sem bjó til bjölluhljóm meðan logaði á kertunum. Svei mér þá ef svipaðir hlutir fást ekki í búðum enn þann dag í dag. Í öðru lagi var það bjöllulaga, upptrekkt, gyllt spiladós sem spilaði „Gingle Bells“ þegar eftir því var leitað. Þriðji hluturinn var svolítil jólablómakarfa úr plasti, sem hengd var upp í loft við kvistgluggann í baðstofunni og skartaði rauðum jólaseríuperum sem glöddu augun þegar búið var stinga græjunni í samband. Og sá fjórði var önnur blómakarfa í svipuðum stíl, sem stóð á veigalitlum gylltum fótum á borði og var líka með litlar rauðar jólaseríuperur. Þessi búnaður þurfti engin 6 kílówött. Jólaseríur voru annars óþekktar í Gröf, og þar var heldur ekkert jólatré á þessum árum. 

Útsagaður jólasveinn af Stefáni eða bróður hans frá 1964-1965. Tvö jólatré eiga líka að standa á þessum palli, en þau þarfnast viðgerðar og tolla ekki á mynd. Mynd: Stefán Gíslason

Jólabaksturinn 

Mamma bakaði alltaf nokkrar smákökusortir fyrir jólin. Mig minnir að mér hafi þótt mömmukökurnar bestar, en hálfmánar og vanilluhringir voru líka vinsælir. Stundum bakaði hún líka loftkökur – og sjálfsagt nokkrar sortir í viðbót, sem ég man ekki eftir nema kafa dýpra í hugann. Þar fyrir utan átti hún alltaf til hvítar og brúnar lagkökur, auk þess sem hún setti á eina eða fleiri rjómatertur og fleira af því tagi. Baksturinn var alfarið á verksviði mömmu, en sjálfsagt hjálpuðum við krakkarnir eitthvað til við að setja krem á mömmukökurnar og svoleiðis. 

Aðfangadagur jóla 

Aðfangadagur var alltaf dagur mikillar tilhlökkunar, þó að aðventan væri alla jafna býsna hverdagsleg. Eftir á að hyggja átti hógværð aðventunnar kannski einmitt stóran þátt í að byggja upp tilhlökkunina. Tilhlökkun er nefnilega tilfinning sem þarf að rækta – og það verður ekki gert með því að láta mann alltaf fá það sem mann langar í um leið og mann langar í það. Á ekki aðventan að vera biðtími? 

Þó að aðfangadagur væri dagur mikillar tilhlökkunar, þýddi það ekki að maður sæti aðgerðalaus allan daginn og biði eftir því að klukkan yrði sex. Eftir sem áður þurfti auðvitað að sinna hinum daglegu verkum, en allt frá þriggja ára aldri hafði ég verið sannfærður um að ég væri mikilvægur þátttakandi í þeim. Það þurfti jú að fara í fjárhúsin tvisvar á dag og þar voru oft talsverðar annir á aðfangadag. Um það leyti var nefnilega fengitíminn að byrja. Þá tíðkaðist ekki að treysta hverjum hrúti fyrir einum garða (einni kró) í húsunum, heldur var hrútur leiddur í gegnum allt safnið á hverjum degi til að kanna hvar þyrfti að grípa til aðgerða til að tryggja að sauðburðurinn á vori komanda myndi skila sem bestum árangri. Mig minnir að fengitíminn hafi einmitt stundum verið látinn byrja á aðfangadag – og fyrsti dagurinn var yfirleitt einn sá annasamasti, því að þá hafði safnast upp svolítil eftirspurn eftir hrútum. Kindur sem fengu á aðfangadag áttu að bera 13. maí vorið eftir (nema þegar var hlaupár). Það var almennt talinn ágætur tími til að byrja í sauðburði. 

Venjulega tók hver ferð í fjárhúsin ekki meira en einn og hálfan tíma, en í byrjun fengitímans var þetta talsvert seinlegra. Mig minnir að við höfum oft farið út í seinni gjöfina um 2-leytið, sem þýddi að þegar meira var um að vera vorum við kannski ekki komnir inn aftur fyrr en um eða upp úr kl. 4. Þá var kaffitíminn eftir og svo þurfti kannski einhver að fara í bað. Baðferðir voru seinlegar. Fyrstu árin mín var ekkert baðker á heimilinu – og þaðan af síður sturta. Og fyrstu árin eftir að baðkarið kom var ekkert heitt rennandi vatn í boði. Þá þurfti að hita baðvatnið í stórum pottum á eldavélinni, bera pottana inn á snyrtinguna og hella í baðið. Svo var vatnið kælt eftir þörfum og þá gátu þvottar hafist. Allt varð þó auðvitað að vera búið fyrir kl. 6. Sá tími var heilagur, þrátt fyrir að heilagleikanum væri almennt stillt í hóf. 

Jólamessan 

Fólkið í Gröf var líklega ekkert sérlega kirkjurækið, þó að auðvitað þætti tilhlýðilegt að mæta til messu í Óspakseyrarkirkju, ef og þegar þar var á annað borð messað. Ég man svo sem ekkert hvernig þessu var háttað upp úr 1960, en ég man alla vega að þar var aldrei messað á aðfangadag. Kannski var messað á jóladag, dagana þar á eftir, eða kannski um nýárið. Hvernig sem þetta var, minnir mig að ljóminn í kringum messuhaldið hafi verið minni en Stefán frá Hvítadal lýsti í sálmi sem hefst á orðunum „Gleð þig særða sál“ og var upprifjun frá því þegar Stefán gekk frá Stóra-Fjarðarhorni til kirkju að Felli í Kollafirði á jóladag, líklega árið 1895. 

Hvað sem messusókninni leið, minnir mig að útvarpsmessan kl. 6 á aðfangadag hafi verið fastur liður í jólahaldinu og að jólasálmarnir sem þar voru sungnir hafi átt stóran þátt í að búa til hátíðleika. Að öðru leyti var Gröf ekki tónlistarheimili og heimilisfólkið söng hvorki jólasöngva né neitt annað, nema kannski að einhvern tímann hafi verið raulað með útvarpinu, já og svo í skjóli hljóðsins frá skilvindunni í búrinu. Þar að auki raulaði pabbi reyndar oft rímnalög þegar hann var úti að saga rekavið. 

Heimagert jólakort með krosssaumi eftir mömmu gefur hugmynd um yfirbragð jólanna í Gröf. Mynd: Stefán Gíslason

Jólamaturinn 

Ég verð að viðurkenna að ég man ekkert hvað var í jólamatinn fyrstu 10 árin mín eða svo. Takmarkað framboð á raforku gerði það að verkum að kæling og frysting matvæla var ekki í boði, umfram það sem kaldar útigeymslur og skaflar gátu lagt til málanna. Þess vegna takmarkaðist fæðuframboðið á veturna lengi vel við þær matvörur sem hægt var að geyma í salti eða súr, að ógleymdum ferskum fiski sem stundum var hægt að útvega frá Hólmavík og nýttist að hluta síðar sem siginn fiskur og saltfiskur. Þar til annað kemur í ljós ætla ég að halda því fram að jólamaturinn fyrstu árin hafi verið niðursoðið kjöt, brúnaðar kartöflur og sósa. Á haustin sauð mamma alltaf niður talsvert af kjötbitum, sem síðan gátu varðveist og haldið ferskleikanum mánuðum eða árum saman í loftþéttum glerkrukkum með þéttihring.  

Árið 1963 eða þar um bil varð mikil breyting á matarmenningunni, bæði á jólum og á öðrum tímum árs. Þá var nefnilega frystihúsið á Óspakseyri tekið í notkun og þar höfðum við aðgang að frystihólfi. Þetta hólf var kyrfilega fyllt með matvörum í sláturtíðinni á haustin og svo var hægt að sækja þangað vistir þegar hentaði. Eftir að þetta gerðist hætti niðursoðna kjötið líklega að vera jólamatur og í staðinn komu steiktir lambakjötsbitar. En sósan og brúnuðu kartöflurnar héldu stöðu sinni. Og rabbabarasulta með. 

Þegar búið var að borða kjötið var örugglega grautur í eftirmat. Það var þó hvorki grjónagrautur né Risalamande (sem ég held að sé það sama), heldur hugsanlega sveskjugrautur með rjóma, eða þá búðingur og blandaðir ávextir úr dós. Jólamaturinn var alla vega alltaf góður, borðið fallega dúkað og maturinn snæddur af gullmynstraða jólastellinu sem pabbi og mamma fengu í brúðkaupsgjöf 1944. Og mamma og pabbi borðuðu grautinn með silfurskeiðum. Nafnið hennar mömmu var greypt í skeiðina hennar, sem hún fékk í fermingargjöf vorið 1929 frá Sigurkarli bróður sínum og konunni hans. En ekkert okkar var samt beinlíns fætt með silfurskeið í munni. 

Á þeim tíma sem hér um ræðir sátum við yfirleitt sex saman yfir jólamatnum, þ.e.a.s. pabbi og mamma og við systkinin fjögur. Tvö þau eldri voru farin að heiman í skóla og/eða vinnu þegar hér var komið sögu, en voru meira eða minna heima á sumrin – og alltaf á jólunum. 

Ég hugsa að við höfum borðað hangikjöt og hvíta sósu á jóladag. Nóg var af köldum geymslum og þær dugðu hangikjötinu ágætlega. 

Jólagjafirnar 

Jólagjafirnar voru ekki fjölbreyttar, en engu að síður afskaplega vel þegnar. Fyrstu 7 árin mín fékk ég eitthvað af leikfangabílum og öðru dóti, auk barnabóka um Snúð og Snældu eða aðrar merkar persónur. Eftir það voru þetta nánast eingöngu bækur – og kannski stundum Legokubbar eða annað dót sem hægt var að byggja úr. Mér fannst hæfilegt að fá svona 7 bækur á hverjum jólum. Þær komu aðallega frá hinum í fjölskyldunni, en líka ein eða tvær frá frændfólki sem einhvern tímann hafði ánetjast þessari hefð. Og það var ekki bara ég sem fékk bækur. Allir fengu bækur. Við yngri bræðurnir fengum unglingabækur, með miklum texta og fáum myndum, líklega alveg frá því að við vorum 7 ára. Í þeim bókastöflum var mikið af Fimm-bókunum, Ævintýrabókunum og Dularfullu bókunum eftir Enid Blyton og líka bækur eftir Ármann Kr. Einarsson og fleiri íslenska höfunda. Eldri systkinin fengu fullorðinslegri bækur, t.d. spennusögur eftir Alister MacLean. Og pabbi og mamma fengu alls konar ævisögur og sagnaþætti, t.d. Íslenskt mannlíf og þar fram eftir götunum, auk þess sem mig minnir að mamma hafi oft fengið þykkar, þýddar skáldsögur frá systrum sínum, eftir höfunda á borð við Sigrid Unsted og Mika Waltari. 

Jólagjöf frá 1961. Enn í nokkuð góðu standi þrátt fyrir að hafa lent undir alvöru dráttarvél úti á túni. Mynd: Stefán Gíslason

Nú er eðlilegt að spurt sé hver hafi keypt allar þessar bækur sem rötuðu í jólapakka innan fjölskyldunnar. Það var jú lítið um bókabúðir í Bitrunni á þessum árum. Reyndar getur vel verið að einhverjar bækur hafi fengist fyrir jólin í kaupfélaginu á Óspakseyri, en aðaluppsprettan var þó bókalisti tímaritsins Heima er bezt, eða „Bókalisti HEB“ eins og þessi bæklingur nefndist í daglegu tali okkar í Gröf ef mig misminnir ekki. Systir mín var áskrifandi að HEB, en blaðið og fylgirit þess (ef einhver voru) komu alltaf með póstinum heim í Gröf, þó að systirin væri að mestu flutt að heiman þegar þarna var komið sögu. Bókalistanum fylgdi pöntunarblað sem mamma sendi til baka í pósti og svo faldi hún innihaldið í kassanum sem kom til baka nokkrum dögum seinna. Þar með var jólunum bjargað. 

Aðfangadagskvöld 

Eftir að jólapakkarnir höfðu verið opnaðir og búið var að ganga vandlega frá jólapappírnum til endurnota næsta ár, fór mamma niður í eldhús til að útbúa kvöldkaffið. Húsið var nefnilega á tveimur hæðum, svokölluð baðstofa og eitt herbergi uppi – og eldhús, stofa og allt hitt niðri. Ég man ekki til að við hin höfum hjálpað mikið til við húsverkin, og líklega voru við byrjuð að lesa mest spennandi bækurnar þegar mamma kallaði á okkur í kaffið. Reyndar var þetta aðallega heitt súkkulaði og terta með, líklega oftast rjómaterta með blönduðum ávöxtum úr dós, eða hugsanlega perum. Einhvers staðar í dagskránni var líka pláss fyrir eplin, sem höfðu verið keypt í kaupfélaginu og biðu jólanna í stórum pappakassa með bláum holóttum spjöldum á milli eplaraðanna. Eplalyktin er eftirminnileg og epli sáust varla á öðrum árstímum. 

Síðkvöldið 

Eftir kvöldkaffið var aftur tekið til við lestur jólabókanna, enda var lestur alltaf helsta tómstundagaman fjölskyldunnar. Það tók okkur svo sem ekki marga daga að lesa allar jólabækurnar, en í Gröf þurfti aldrei að örvænta um skort á lesefni. Bæði gátum við krakkarnir lesið okkur í gegnum bókahillurnar sem höfðu fyllst fyrir okkar daga sem lestrarhesta, og svo var líka helmingur af bókakosti Lestrarfélags Óspakseyrarhrepps varðveittur í Gröf. Þær bækur þöktu heilan vegg, enda voru þetta líklega eitthvað á annað þúsund titlar. En sá bókakostur kom víst ekki inn á heimilið fyrr en 1971, sem sagt eftir þann tíma sem ég skilgreini sem hátind æskunnar. 

Eins gaman og okkur þótti að lesa á aðfangadagskvöld, var enginn möguleiki að láta þann lestur ganga langt fram á nóttina. Mamma fór alltaf síðust í rúmið og hennar síðustu verk voru annars vegar að slökkva á Sólóeldavélinni sem hitaði upp húsið og sem ekki mátti vera eldur í þegar allir voru sofandi – og hins vegar að slökkva á ljósavélinni. Listerinn fékk aldrei að ganga á nóttunni, hvort sem hann var 1,25 eða 6,00 kílówött. Og þegar Listerinn var dauður var ekki lengur skíma í húsinu. Þá tók svefninn við. Reyndar var alveg hægt að lesa við ljós frá olíulampa, en það var ekki mikið stundað. Ég man líka að mér þótti lyktin af olíureyknum vond. 

Jólaskraut í Gröf frá óskilgreindum tíma en líklega þó eftir 1969. Mynd: Stefán Gíslason

Áramótin 

Gamlársdagur var að vissu marki endurtekning á aðfangadegi, þó kannski bara að því leyti að kvöldmaturinn var borðaður kl. 6 (en ekki upp úr kl. 7 eins og flesta daga ársins) – og að því leyti að yfir deginum hvíldi einhver hátíðleiki. Annars man ég lítið eftir gamlársdögum æskunnar. Kannski var kveikt á útvarpsmessu, hlustað á ávarp útvarpsstjóra og lögin Brennið þið vitar og Nú árið er liðið. Kannski var gripið í spil. Sjónvarpið kom ekki í Gröf fyrr en löngu síðar – og því var Áramótaskaupið ekki hluti af dagskrá dagsins. Þar að auki voru flugeldar óþekkt fyrirbæri í sveitinni. Einhvern tímann í lok tímabilsins sem hér er til umfjöllunar, eða kannski enn seinna, fór björgunarsveitin að keyra um héruð og bjóða flugelda til sölu. Pabbi keypti alltaf helling af þeim, en baðst svo undan því að fá vöruna. Sprengjur tíðkuðust ekki í Gröf, hvorki á þessu sviði né öðrum. 

Skrifað á Hvanneyri á jóladag 2021 

Stefán Gíslason frá Gröf 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.