Vel sóttur íbúafundur í Strandabyggð

Skrifað af:

Ritstjórn

Frá íbúafundi um sameiningarmál. Mynd: Ásta Þórisdóttir.

Íbúafundur var haldinn í gær 6. október í Félagsheimilinu á Hólmavík um sameiningu sveitarfélaga. Fundurinn var vel sóttur og um 70 manns tóku þátt, ýmist á staðnum eða í fjarfundi. Fimm valkostir voru kynntir og flestir fundargestir voru hlynntir því að Strandabyggð myndi hefja sameiningarviðræður.

Íbúafundurinn er haldinn í kjölfar valkostagreininga sem fyrirtækið RR ráðgjöf hefur unnið fyrir sveitarfélagið Strandabyggð undanfarna mánuði. Róbert Ragnarsson og Gunnar Úlfarsson frá ráðgjafafyrirtækinu stýrðu fundinum. Fundinum var streymt og notast var við rafræna samráðskerfið menti til að kanna hug fundarmanna um afstöðu þeirra til málanna.

Um 70 manns voru á fundinum þegar mest var, um helmingur á staðnum og helmingur á neti. Fyrst var farið yfir stöðu Strandabyggðar í fjármálum, þjónustu og samstarfsverkefnum og hún borin saman við þau sveitarfélög sem til skoðunar voru. Þá voru fimm valkostir kynntir, flutt erindi um reynslu Múlaþings af sameiningu sveitarfélaga og opnað fyrir umræður og í lokin boðið upp á veitingar.

Kynning á reynslu sameiningar sveitarfélaga í Múlaþingi

Gestur fundarins Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fyrrum sveitarstjóri Djúpavogshrepps, kynnti fyrir fundargestum reynslu Múlaþings af sameiningu sveitarfélaga þar eystra og útskýrði m.a. hvernig þeirra fyrirkomulag um heimastjórnir virka í hverju fyrrverandi sveitarfélagi fyrir sig.

Íbúafundur um sameiningarmál
Gauti Jóhannesson sagði frá sameiningum í Múlaþingi. Mynd: Ásta Þórisdóttir.

Þrír valkostir uppfylla íbúalágmark og fjárhagsleg viðmið

Þeir fimm valkostir sem voru kynntir voru valdir á vinnustofu sem sveitarstjórn Strandabyggðar og aðrir starfsmenn sveitarfélagsins tóku þátt. Fram kom að Strandabyggð fylgir 316 milljónir í sameiningarfjárframlag en það framlag samanstendur að fastri upphæð upp á 100 milljónir auk skuldajöfnunar- og byggðaframlag. Valkostirnir sem kynntir voru eru eftirtaldir:

  1. Strandabyggð – Reykhólahreppur – Dalabyggð
  2. Strandabyggð – Reykhólahreppur
  3. Strandabyggð – Kaldrananeshreppur – Árneshreppur – Reykhólahreppur – Dalabyggð
  4. Strandabyggð – Kaldrananeshreppur – Árnsehreppur – Reykhólahreppur
  5. Strandabyggð – Kaldrananeshreppur – Árneshreppur – Reykhólahreppur – Dalabyggð – Húnaþing vestra

Fram kom að af þessum kostum eru einungis þrír þar sem sameinað sveitarfélag myndi standast bæði fjárhagsleg viðmið og ná íbúalágmarkinu 1.000 íbúar, en það eru valkostir 1, 3 og 5.

Fundargestir vildu fara í sameiningarviðræður

44 aðilar nýttu sér samráðskerfið og kusu í skoðanakönnuninni en 42 af 44 voru íbúar Strandabyggðar. Þá sögðu 30 að Strandabyggð ætti að hefja sameiningarviðræður en 4 voru ýmist á móti eða óvissir. Þá gátu fundargestir valið hvaða kosti þeim leist best á og var valkostur 3 vinsælastur en það er sameining allra sveitarfélaga á Ströndum auk Reykhóla og Dalabyggðar. Hægt er að kynna sér þessa valkosti með því að horfa á upptöku frá íbúafundinum á Facebooksíðu sveitarfélagsins Strandabyggðar: Íbúafundur

Hvaða valkostir ættu að vera í forgangi?

Niðurstöður skoðanakönnunar á íbúafundinum. Mynd: Skjáskot

Næstu skref

Næstu skref eru þau að sveitarstjórn Strandabyggðar mun fara yfir málið og taka ákvörðun um hvort farið verður í sameiningarviðræður og þá með hvaða hætti, en hægt er að fara í formlegar eða óformlegar sameiningarviðræður.

Sameiningarferlið tekur u.þ.b. tvö ár frá því að sveitarfélögin ákveða að fara í sameiningarviðræður og er áætlað að eftir eins árs undirbúning myndu íbúar kjósa um sameiningartillöguna. Ef tillagan yrði samþykkt tæki við innleiðingarferli sem tæki annað ár og þá væri hægt að kjósa nýja sveitarstjórn.

Íbúafundur um sameiningu
Í lok fundar var boðið upp á veitingar og spjall. Mynd: Ásta Þórisdóttir.
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.