Vel heppnaðir Hamingjudagar að baki

Skrifað af:

Ritstjórn

Hnallþóruboð í Félagsheimilinu. Mynd: Svanur Kristjánsson

Hamingjudagar voru haldnir á Hólmavík síðastliðna helgi. Hátíðin gekk vonum framar og þrátt fyrir að veðrið hafi verið heldur kalt þá stoppaði það ekki hátíðargesti sem mættu á hina ýmsu viðburði sem voru í boði.

Strandir.is heyrði í Hrafnhildi Skúladóttur íþrótta- og tómstundafulltrúa sem hafði veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel miðað við veðurspá. Ég vil bara þakka öllum sem lögðu hönd á plóg við að gera þetta mögulegt og mér finnst öll þessi samvinna frábær og Strandamönnum og -konum til mikils sóma“ segir hún.

Fótboltamót og Hamingjuhlaup

Á Pæju- og Pollamóti sem haldið var á Skeljavíkurgrundum mættu sprækir krakkar sem spiluðu tvo leiki. Þessi viðburður var í umsjón Magneu Drafnar Hlynsdóttur. Allir skemmtu sér vel og náðu að hlaupa sér til hita í kulinu.

Pæju- og Pollamótið á Skeljavíkurgrundum. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Hamingjuhlaupið er fastur liður á Hamingjudögum og að þessu sinni var farið úr Þiðriksvalladal og hlaupið til Hólmavíkur. Alls tóku 15 manns þátt og Birkir Þór Stefánsson stýrði hlaupinu.

Hlauparar koma í mark við Félagsheimilið. Mynd: Svanur Kristjánsson
Hlauparar í Hamingjuhlaupinu 2022. Mynd: Guðmundur Magni Þorsteinsson

Hnallþóruhlaðborð, markaður og fleira í Félagsheimili

Hnallþóruborð Hamingjudaga. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Á laugardaginn var Hnallþóruboð Hamingjudaga og Hnallþórukeppnin haldin í Félagsheimilinu. Að vanda eru það íbúar sveitarfélagsins sem baka og gefa kræsingarnar sem gestum er boðið gjaldfrjálst upp á. Verðlaun voru veitt í fullorðinsflokki og sigraði Hjördís Inga Hjörleifsdóttir þann flokk með glæsilegri súkkulaðiköku með handmáluðu merki Strandabyggðar.

Hnallþóruboð og markaður. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Í barnaflokki sigraði Ási Þór Finnsson 6 ára með ormagryfjunni sinni. Dómnefnd var skipuð á staðnum og hana skipuðu kokkur, bakarameistari, matgæðingur og heimamaður. Talið er að um 300 manns hafi litið við og bragðað á gómsætum tertum og skoðað markað og komið við á matarkynningu nýrra Hólmavíkinga af erlendum uppruna.

Ormagryfjan eftir Ása Þór Finnsson, verðlaunakaka í barnaflokki. Mynd: Anna Björg Þórarinsdóttir
Verlðlaunakaka Hjördísar Ingu Hjörleifsdóttur. Mynd: Svanur Kristjánsson

Í félagsheimilinu sýndu einnig ungmenni í Strandabyggð myndir frá ungmennaskiptaferð sem þau fóru í til Ítalíu á dögunum. Margir komu við og fengu ferðasöguna og kíktu á myndirnar og fannst gaman að fá innsýn inn í þessa skemmtilegu ferð.

Kajakferðir og Galdra-Quidditch

„Kajakferðir í boði Valla“ var einn dagskrárliðurinn og kajakferðirnar voru virkilega vinsælar og hátt í 100 manns prófuðu að sigla á kajak. Valli, Valgeir Örn Kristjánsson er í stjórn Sjóíþróttafélagsins Ránar sem nýverið hefur fjárfest í kajökum og búnaði til kajaksiglinga.

Kajakar á Hamingjudögum. Mynd: Valgeir Örn Kristjánsson

Þá voru haldnir Quidditch-leikar á Galdratúninu, enda er leikurinn íþrótt úr bókunum um galdrastrákinn Harry Potter. Hrafnhildur segir að leikurinn hafi verið hressandi og skemmtilegur og 12 þátttakendur hafi tekið þátt.

Quidditch-keppni á Galdratúninu. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Magga Stína og draumur frá balli og Dansband Kolbeins Skagfjörð með böll á Café Riis

Tvö böll voru haldin um helgina á Café Riis. Dansband Kolbeins Skagfjörð, skipað brottfluttum heimamönnunum Andra og Sigga Orra spilaði fyrir dansi á föstudagskvöldið. Það var vel sótt og margir orðnir ballþyrstir og mikið stuð. Á laugardagskvöldið var svo annað ball með Möggu Stínu og Draumnum frá Balli. „Það var geggjað þó að hefðu mátt mæta fleiri. Bilað stuð fram á nótt“ segir Hrafnhildur sem skellti sér á ballið.

Magga Stína og Draumar frá Balli léku fyrir dansi á Café Riis. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Listsýningar

Í glugganum á Hnyðju má sjá sýninguna Deig/leir sem er hluti af Umhverfing 4 sem er stór myndlistarsýning sem verður opnuð formlega 2. júlí nk. Þær Anna Andrea Winther og Berglind Erna Tryggvadóttir sýna þar lágmyndir úr deigi.

Deig/leir Lágmyndir Önnu Andreu Winther og Berglindi Ernu Tryggvadóttur. Mynd: Svanur Kristjánsson
Anna Andrea Winther og Berglind Erna Tryggvadóttir við opnun sýningarinnar Deig/leir. Mynd: Svanur Kristjánsson

Sara Jóhannsdóttir frá Hólmavík hélt sína fyrstu sýningu á Kaffi Galdri þar sem hún sýndi kolateikningar.

Kolateikningar Söru Jóhannsdóttur á Kaffi Galdri. Mynd: Svanur Kristjánsson

Aðalsteinn Guðlaugur Aðalsteinsson sýndi myndir í Krambúðinni og var ánægður með söluna á sýningunni. „Aðalsteinn er sennilega búinn að mála hátt í 1500 myndir og selt þær flestar á þeim 30 árum sem hann hefur verið að. Svo það er nú dágott“ segir Hrafnhildur sem er sveitungi Aðalsteins frá Þingeyri.

Aðalsteinn Guðlaugur Aðalsteinsson í matsal Krambúðarinnar. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Raimonda Sereikaite-Kiziria listakona sýndi skúlptúra í Hnyðju.

Þá sýndi Kómedíuleikhúsið ævintýrið um Bakkabræður í Félagsheimilinu og Leikhópurinn Lotta sýndi Pínulitlu Mjallhvíti í Íþróttahúsinu.

Heimboð, hamingjumessa og aquazumba

Sá heimilslegi siður er á Hamingjudögum að íbúar og fyrirtæki bjóða fólki í heimsókn. Að þessu sinni voru það íbúar á bænum Hnitbjörgum sem buðu fólki í heimsókn að kíkja húsdýr og fá sér kaffi. Heimboðið að Hnitbjörgum heppnaðist vel og töluvert rennerí var þangað bæði laugardag og sunnudag.

Kanínur á Hnitbjörgum skoðaðar. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Á sunnudagsmorgni var haldin hin árlega útimessa í Tröllatungu sem var annað árið í röð fermingarmessa, þar sem Stefán Þór Birkisson ábúandi í Tröllatungu var fermdur en systir hans fermdist í útimessunni í fyrra. Sannkölluð Hamingjumessa í Tröllatungu.

Hamingjumessa og ferming í Tröllatungu. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Á sunnudeginum var líka boðið upp á Aquazumba í sundlauginni á Hólmavík sem Kristbjörg Ágústsdóttir zumbakennari stýrði að vanda.

Aquazumba í sundlauginni með Kristbjörgu Ágústsdóttur. Mynd: Hrafnhildur Skúladóttir

Rjómatertur og hvítabirnir á afmæli Sauðfjársetursins

Sauðfjársetur á Ströndum hélt upp á 20 ára afmæli safnsins á sunnudeginum með kaffi og kruðeríi. Á sama tíma var formlega opnuð sýningin Hvítabirnir koma í heimsókn en sýningin er samvinnuverkefni viðurkenndra safna á Vestfjörðum og Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Strandir.is óskar strandafólki til hamingju með 20 ára afmælið, þar sem Sauðfjársetrið skipar stóran sess í menningarlífi Strandafólks.

Jón Jónsson þjóðfræðingur brá á leik við opnun sýningarinnar. Mynd: Ester Sigfúsdóttir
Afmælisgestir njóta veitinga á Sauðfjársetrinu. Mynd: Ester Sigfúsdóttir

Fleiri viðburðir voru á dagskránni sem ekki hafa fengist myndir af. Þar má nefna ljóðalestur í Steinshúsi á Langadalsströnd, sundlaugapartý, unglingaball, brekkusöng og útileiki.

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.