Hamingjudagar voru haldnir á Hólmavík síðastliðna helgi. Hátíðin gekk vonum framar og þrátt fyrir að veðrið hafi verið heldur kalt þá stoppaði það ekki hátíðargesti sem mættu á hina ýmsu viðburði sem voru í boði.
Strandir.is heyrði í Hrafnhildi Skúladóttur íþrótta- og tómstundafulltrúa sem hafði veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel miðað við veðurspá. Ég vil bara þakka öllum sem lögðu hönd á plóg við að gera þetta mögulegt og mér finnst öll þessi samvinna frábær og Strandamönnum og -konum til mikils sóma“ segir hún.
Fótboltamót og Hamingjuhlaup
Á Pæju- og Pollamóti sem haldið var á Skeljavíkurgrundum mættu sprækir krakkar sem spiluðu tvo leiki. Þessi viðburður var í umsjón Magneu Drafnar Hlynsdóttur. Allir skemmtu sér vel og náðu að hlaupa sér til hita í kulinu.
Hamingjuhlaupið er fastur liður á Hamingjudögum og að þessu sinni var farið úr Þiðriksvalladal og hlaupið til Hólmavíkur. Alls tóku 15 manns þátt og Birkir Þór Stefánsson stýrði hlaupinu.
Hnallþóruhlaðborð, markaður og fleira í Félagsheimili
Á laugardaginn var Hnallþóruboð Hamingjudaga og Hnallþórukeppnin haldin í Félagsheimilinu. Að vanda eru það íbúar sveitarfélagsins sem baka og gefa kræsingarnar sem gestum er boðið gjaldfrjálst upp á. Verðlaun voru veitt í fullorðinsflokki og sigraði Hjördís Inga Hjörleifsdóttir þann flokk með glæsilegri súkkulaðiköku með handmáluðu merki Strandabyggðar.
Í barnaflokki sigraði Ási Þór Finnsson 6 ára með ormagryfjunni sinni. Dómnefnd var skipuð á staðnum og hana skipuðu kokkur, bakarameistari, matgæðingur og heimamaður. Talið er að um 300 manns hafi litið við og bragðað á gómsætum tertum og skoðað markað og komið við á matarkynningu nýrra Hólmavíkinga af erlendum uppruna.
Í félagsheimilinu sýndu einnig ungmenni í Strandabyggð myndir frá ungmennaskiptaferð sem þau fóru í til Ítalíu á dögunum. Margir komu við og fengu ferðasöguna og kíktu á myndirnar og fannst gaman að fá innsýn inn í þessa skemmtilegu ferð.
Kajakferðir og Galdra-Quidditch
„Kajakferðir í boði Valla“ var einn dagskrárliðurinn og kajakferðirnar voru virkilega vinsælar og hátt í 100 manns prófuðu að sigla á kajak. Valli, Valgeir Örn Kristjánsson er í stjórn Sjóíþróttafélagsins Ránar sem nýverið hefur fjárfest í kajökum og búnaði til kajaksiglinga.
Þá voru haldnir Quidditch-leikar á Galdratúninu, enda er leikurinn íþrótt úr bókunum um galdrastrákinn Harry Potter. Hrafnhildur segir að leikurinn hafi verið hressandi og skemmtilegur og 12 þátttakendur hafi tekið þátt.
Magga Stína og draumur frá balli og Dansband Kolbeins Skagfjörð með böll á Café Riis
Tvö böll voru haldin um helgina á Café Riis. Dansband Kolbeins Skagfjörð, skipað brottfluttum heimamönnunum Andra og Sigga Orra spilaði fyrir dansi á föstudagskvöldið. Það var vel sótt og margir orðnir ballþyrstir og mikið stuð. Á laugardagskvöldið var svo annað ball með Möggu Stínu og Draumnum frá Balli. „Það var geggjað þó að hefðu mátt mæta fleiri. Bilað stuð fram á nótt“ segir Hrafnhildur sem skellti sér á ballið.
Listsýningar
Í glugganum á Hnyðju má sjá sýninguna Deig/leir sem er hluti af Umhverfing 4 sem er stór myndlistarsýning sem verður opnuð formlega 2. júlí nk. Þær Anna Andrea Winther og Berglind Erna Tryggvadóttir sýna þar lágmyndir úr deigi.
Sara Jóhannsdóttir frá Hólmavík hélt sína fyrstu sýningu á Kaffi Galdri þar sem hún sýndi kolateikningar.
Aðalsteinn Guðlaugur Aðalsteinsson sýndi myndir í Krambúðinni og var ánægður með söluna á sýningunni. „Aðalsteinn er sennilega búinn að mála hátt í 1500 myndir og selt þær flestar á þeim 30 árum sem hann hefur verið að. Svo það er nú dágott“ segir Hrafnhildur sem er sveitungi Aðalsteins frá Þingeyri.
Raimonda Sereikaite-Kiziria listakona sýndi skúlptúra í Hnyðju.
Þá sýndi Kómedíuleikhúsið ævintýrið um Bakkabræður í Félagsheimilinu og Leikhópurinn Lotta sýndi Pínulitlu Mjallhvíti í Íþróttahúsinu.
Heimboð, hamingjumessa og aquazumba
Sá heimilslegi siður er á Hamingjudögum að íbúar og fyrirtæki bjóða fólki í heimsókn. Að þessu sinni voru það íbúar á bænum Hnitbjörgum sem buðu fólki í heimsókn að kíkja húsdýr og fá sér kaffi. Heimboðið að Hnitbjörgum heppnaðist vel og töluvert rennerí var þangað bæði laugardag og sunnudag.
Á sunnudagsmorgni var haldin hin árlega útimessa í Tröllatungu sem var annað árið í röð fermingarmessa, þar sem Stefán Þór Birkisson ábúandi í Tröllatungu var fermdur en systir hans fermdist í útimessunni í fyrra. Sannkölluð Hamingjumessa í Tröllatungu.
Á sunnudeginum var líka boðið upp á Aquazumba í sundlauginni á Hólmavík sem Kristbjörg Ágústsdóttir zumbakennari stýrði að vanda.
Rjómatertur og hvítabirnir á afmæli Sauðfjársetursins
Sauðfjársetur á Ströndum hélt upp á 20 ára afmæli safnsins á sunnudeginum með kaffi og kruðeríi. Á sama tíma var formlega opnuð sýningin Hvítabirnir koma í heimsókn en sýningin er samvinnuverkefni viðurkenndra safna á Vestfjörðum og Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Strandir.is óskar strandafólki til hamingju með 20 ára afmælið, þar sem Sauðfjársetrið skipar stóran sess í menningarlífi Strandafólks.
Fleiri viðburðir voru á dagskránni sem ekki hafa fengist myndir af. Þar má nefna ljóðalestur í Steinshúsi á Langadalsströnd, sundlaugapartý, unglingaball, brekkusöng og útileiki.