Varðskipið Þór mun sigla á Strandir í næstu viku og fjarlægja þau rúmlega fimmtíu grindhvalahræ sem legið hafa í fjörunum í Árneshreppi síðan síðastliðinn laugardag. Þetta kom fram hjá Fréttastofu RÚV í dag.
Áhöfnin í Þór mun taka hræin í skipið og sigla með þau út fyrir sjávarfallastrauma og henda þeim þar fyrir borð.
Fjörurnar sem hræin liggja í eru í einungis um 300 metra frá íbúðarhúsunum á Melum. Ef hvalhræ eru utan alfaraleiðar eru þau oft látin liggja og náttúran látin sjá um náttúrulegt niðurbrot en það var ekki boðlegt í þessu tilviki.
Sveitungum létt
Í samtali við RÚV sagði Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, að stefnt sé að því að varðskipið komi á þriðjudag og að sveitungum sé mjög létt að lausn sé fundin á málinu.
Hvalina rak á land í Árneshreppi síðastliðinn laugardag og drápust þar. Síðan þá hefur verið leitað leita til þess að farga hræjunum, en þau liggja nú í fjöruborðinu og eru byrjuð að rotna.