Unnið að friðlýsingu Dranga á Ströndum

Skrifað af:

Ritstjórn

Drangaskörðin eru mikilfengleg. Mynd: Silja Ástudóttir

Umhverfisstofnun hefur lagt fram tillögu að friðlýsingu Dranga á Ströndum. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í áttu sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, sveitarfélagsins Árneshrepps, Minjastofnunar og umhverfis- og auðlindaráðneytisins. 

Í tillögunni er sagt að friðlýsingin miði að því „að standa vörð um umfangsmikið óbyggt víðerni þar sem náttúran fær að þróast á eigin forsendum, varðveita og viðhalda óvenjulegu, mikilfenglegu og fjölbreyttu landslagi sem og víðsýni. Friðlýsingunni er einnig ætlað að tryggja vernd jarðminja, vistkerfa og lífríki þeirra innan svæðisins. Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið, í kyrrð og ró, einstakrar náttúru þar sem náttúrulegir ferlar eru ríkjandi og beinna ummerkja mannsins gætir lítið eða ekkert.“

Óvenjulegt að landeigendur hafi frumkvæði

Það eru landeigendur Dranga sem eiga frumkvæði að tillögunni en þau hafa lengi viljað láta friðlýsa svæðið og sendu umhverfisráðherra erindi þess efnis fyrir um 3 árum. Í viðtali við Samfélagið á RÚV 2018 sagði Sveinn Kristinsson, einn eiganda jarðarinnar, sem eru allir afkomendur síðustu ábúenda hennar, það „líklega óvenjulegt að landeigendur hafi frumkvæði að því að fá jörð sína friðlýsta en að vonandi hreyfi það við fleirum, bæði á Ströndum og á öðrum stöðum á landinu þar sem enn eru víðerni.“

Drangar séð frá sjó. Mynd: Gunnar Guðjónsson/Umhverfisstofnun

Verndargildi svæðisins hátt

Fram kemur í tillögunni að svæðið sem sóst sé eftir að friðlýsa sé hluti af víðáttumiklu óbyggðu víðerni á Vestfjörðum. „Verndargildi svæðisins er mjög hátt á bæði íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða og felst fyrst og fremst í víðerni og tilkomumiklu landslagi mótað af jöklum ísaldar. Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. Landslag er mikilfenglegt og áhrifamikið, s.s. Drangaskörð, gróðurfar sérstakt, víðernisupplifun mikil sem og náttúrufegurð og svæðið er nær óraskað.“

Eiríkur rauði og Leifur heppni á Dröngum

Með friðlýsingu yrði hægt að tryggja verndun menningarminja en við ströndina er að finna menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um búsetuhætti og tíðaranda fyrri tíma. Drangar eru landnámsjörð og þar bjó Eiríkur rauði eftir fráfall föður síns, Þorvalds Ásvaldssonar sem nam land á Dröngum. Þá er einnig talið líklegt að Leifur heppni hafi fæðst á Dröngum, sonur Eiríks rauða.

Friðlýsingin nær til bæði land- og sjávarsvæðis Dranga

Jörðin Drangar nær frá Drangajökli að sjó á milli Bjarnarfjarðar og Drangavíkur. „Friðlýsingin nær til landsvæðis og sjávarsvæðis Dranga, þ.m.t. til fjöru, hafsbotns, vatnsbols, lífríkis, eyja, skerja, hólma, dranga og annarra landfræðilegra eininga.“ Mörk svæðisins er hægt að sjá á kortinu hér fyrir neðan og hægt er að sjá hnitin á síðu Umhverfisstofnunar.

Græna línan sýnir tillögu að mörkum friðlýsta svæðisins. Mynd: Umhverfisstofnun

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 25. nóvember 2021.

Ábendingum og athugasemdum má skila inn á formi hér, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Hægt er að lesa tillöguna í heild hér.


Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.