Trékyllisheiðin er nýtt utanvegahlaup sem fer fram á Ströndum í fyrsta sinn laugardaginn 14. ágúst 2021. Tvær vegalengdir eru í boði á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur.
Hlaup í óbyggð á söguslóðum
Það er Skíðafélag Strandamanna sem stendur fyrir hlaupinu. Stefán Gíslason er í skipulagsteymi hlaupsins, en hann er Strandamaður úr Bitrufirði og umhverfisfræðingur ásamt því að vera forfallinn hlaupari. Hann gaf út bókina Fjallvegahlaup árið 2017 sem hefur að geyma lifandi leiðarlýsingar 50 fjallvega víðsvegar um landið auk veglegs undirbúningskafla og fjölda góðra ráða.
Aðspurður að því hvers vegna þessi leið hafi verið valin segir Stefán að leiðin henti betur en flestar aðrar leiðir á Ströndum fyrir langt utanvegahlaup. Á þessari leið sé hægt að hlaupa langa leið í óbyggðum, langt frá bílaumferð og öðru daglegu amstri. Leiðin gefi þátttakendum einnig tilefni til að heimsækja Árneshrepp.
Leiðin yfir Trékyllisheiðina býr yfir heilmikilli sögu um ferðalög á milli Steingrímsfjarðar og Árneshrepps fyrr á tíðum en hún hefur hvorki verið mönnum blíð né auðveld yfirferðar síðustu aldirnar.
Ekki bara fyrir vana hlaupara
Í hlaupinu eru tvær vegalengdir í boði, 47 km (um 980 m hækkun) og 15,5 km (um 280 m hækkun). Aðspurður hvort aðeins vanir hlauparar geti tekið þátt segir Stefán að lengri leiðin sé 47 km í frekar grýttu og hrjúfu landslagi. Þrátt fyrir að leiðin fylgi troðnum slóðum að mestu sé hún tæplega fyrir óvant fólk.
Styttri leiðin er hins vegar aðeins rúmir 15 km með lítilli hækkun. „Hún ætti að geta hentað nánast hverjum sem er sem á annað borð treystir sér í þriggja tíma gönguferð á troðnum stígum. Það er jú alls engin skylda að hlaupa alla leið.“ segir Stefán.
Utanvegahlaup mjög vinsæl
Stefán segir að utanvegahlaup njóti mikilla vinsælda og því líklegt að margir muni sýna þessu framtaki áhuga. Hins vegar sé líka talsverð samkeppni og að boðið sé upp á slík hlaup allar helgar sumarsins einhvers staðar á landinu. Sem dæmi þá eru a.m.k. tvö önnur utanvegahlaup á Suðurlandi á dagskrá, sömu helgi og hlaupið yfir Trékyllisheiði er. Því sé erfitt að spá fyrir um þátttökuna. „En ætli u.þ.b. 100 manns sé ekki raunhæf ágiskun, svona í fyrsta hlaupi.“ segir Stefán um áætlun á þátttöku í hlaupinu.
Áætlað að hlaupið gefi ITRA-stig
Hlaup sem uppfylla tiltekin skilyrði geta gefið svokölluð ITRA-stig, mismörg eftir vegalengd, hæðarmetrum o.fl. ITRA er skammstöfun fyrir Alþjóða utanvega-hlaupasamtökin (International Trail Running Association) og þurfa þau að samþykkja leiðina til þess að stig séu gefin. Beðið er eftir staðfestingu frá samtökunum fyrir hlaupið yfir Trékyllisheiði en áætlað er að lengri leiðin muni gefa 2 ITRA-stig.
Stefán segir að hlauparar safni ITRA-stigum í tvennum tilgangi: „Annars vegar halda samtökin úti alþjóðlegum styrkleikalista sem gaman er að reyna sig við og hins vegar er tiltekinn fjöldi ITRA-stiga skilyrði fyrir því að hægt sé að skrá sig í stærstu utanvegahlaup heimsins, einkum þó UTMB-hlaupin sem haldin eru árlega í Ölpunum. Bærinn Chamonix í suðaustanverðu Frakklandi er eins konar Mekka utanvegahlaupanna og þaðan eru UTMB-hlaupin gerð út, þar sem farnar eru mislangar og miserfiðar leiðir utan í og/eða í kringum Mont Blanc.“
Kraftbirtingarhljómur guðdómsins
„Hlaupið yfir Trékyllisheiði gefur þátttakendum tækifæri til að sjá og upplifa landssvæði sem fáir hafa heimsótt. Um leið gefst færi á að styrkja vinabönd og kynnast nýju fólki á nýjan hátt. Í svona hlaupi eru allir jafnir, óháð öllu því sem aðgreinir fólk í daglega lífinu og óháð því hvort fólk getur hlaupið vegalengdina á 4 klst. eða 8 klst. Í svona ferðalagi á fjöllum finnst mörgum þeir verða hluti af náttúrunni um leið og náttúran verður hluti af þeim. Ætli það sé ekki það sem Laxness kallaði „Kraftbirtingarhljóm guðdómsins“ í Heimsljósi?“ segir Stefán að lokum.
Sætaferðir úr Selárdal
Boðið er upp á sætaferðir frá skíðaskála Skíðafélags Strandamanna að rásmörkum beggja hlaupa að morgni hlaupadags. Styttra hlaupið hefst á Bjarnarfjarðarhálsi við norðanverðan Steingrímsfjörð. Lengra hlaupið hefst við félagsheimilið í Árnesi í Trékyllisvík. Bæði hlaupin enda í skíðaskála félagsins sem er í Selárdal, um 16 km frá Hólmavík.
Gott framboð er af gistingu á svæðinu. Hér er hægt að sjá yfirlit yfir gististaði á Ströndum.
Skráningu í hlaupið og ítarlegar leiðarlýsingar má finna hér.