Þrír grænfánar afhentir í Strandabyggð

Skrifað af:

Ritstjórn

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri afhendir viðurkenningar. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Í vikunni var formleg afhending grænfána til skóla í Strandabyggð. Í ár bættist við þriðji skólinn sem fær þessa umhverfisvottun sem grænfáninn er, en það er Vinnuskóli Strandabyggðar. 

Grænfáninn er umhverfisverkefni sem skólar á öllum skólastigum geta tekið þátt í og er helsta innleiðingartæki menntunar til sjálfbærni í heiminum í dag. 

Strandabyggð með þrjá skóla í verkefninu

Grunn- og tónskólinn á Hólmavík hefur verið í grænfánaverkefninu síðan 2007 og fær nú sinn 5. fána. Leikskólinn Lækjarbrekka er að fá sinn þriðja fána eftir nokkurt hlé. Þessir tveir skólar voru sameinaðir árið 2020 og munu framvegis vinna sem einn skóli og setja sér sameiginleg þemu og markmið til næstu tveggja ára. Nú þegar hafa umhverfisnefndir skólans ákveðið að annað þemað af tveimur verði lýðheilsa en samtímis er sameinaður skóli að fara í verkefnið „heilsueflandi grunnskóli“ sem Landlæknisembættið stendur fyrir. Þriðji skólinn sem fær grænfánann er svo Vinnuskóli Strandabyggðar en þetta er hans fyrsti grænfáni og er það eini vinnuskólinn á Vestfjörðum sem er með þessa umhverfisvottun. 

Leikskólinn fékk sinn þriðja grænfána. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Skógarstund í tilefni afhendingar

Umhverfisnefnd grunnskólans skipulagði samverustund í tilefni afhendingarinnar og var farið upp í skólaskóginn fyrir ofan grunnskólann. Þar afhenti Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri viðurkenningarspjöld frá Landvernd og fulltrúar hvers skóla tóku við þeim ásamt grænfánaskiltum sem fest verða utan á húsnæði skólanna. Þá var boðið upp á kakó og piparkökur og umhverfisnefndin skipulagði leiki fyrir alla aldurshópa og meira að segja tveir jólasveinar birtust út úr dimmunni til að samgleðjast. 

Skólar á grænni grein, grænfánaverkefnið er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education.

Jólasveinarnir komu og fögnuðu áfanganum með nemendum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Fjórir grunnskólar og fimm leikskólar á Vestfjörðum með grænfánann

Á Vestfjörðum öllum eru samtals 11 skólar í grænfánaverkefninu, ýmist að byrja eða komnir með fána og nokkrir búnir að vera yfir áratug í verkefninu. Fjórir grunnskólar eru með grænfánann á Vestfjörðum; Tálknafjarðarskóli, Bíldudalsskóli, Patreksskóli auk Grunn- og tónskólans á Hólmavík. Þá eru fimm leikskólar í verkefninu: á Hólmavík, Tálknafirði, Bíldudal, Patreksfirði og á Suðureyri. Lýðskólinn á Flateyri er einnig að byrja í verkefninu sem gerir hann að eina skólanum á Vestfjörðum á framhaldsskólastigi sem er skráður í verkefnið. 

Gómsætt kakó og piparkökur á boðstólnum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Eitt af verkefnum í framkvæmdaáætlun Umhverfisvottaðra Vestfjarða

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum eru sameiginlega í Umhverfisvottun Vestfjarða Earth Check og í framkvæmdaáætlun verkefnisins 2020-2025 sem öll sveitarfélögin samþykktu er eitt af verkefnunum: Að “skólar og leikskólar skrái sig í “Skólar á grænni grein” svo ætla má að grænfánaskólum muni fjölga á næstu árum á Vestfjörðum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Um áramótin urðu kaflaskil á Hólmavík þegar Café Riis fékk nýjan eiganda. Arkitektinn Guðrún Ásla Atladóttir hefur tekið við lyklunum.
Óskar Hafsteinn, kokkur, deilir með okkur uppskrift að spari eftirrétt, sítrónu tart, sem hann gerði m.a. í sveinsprófinu sínu.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Boðið verður upp á bólusetningar með Pfizer bóluefni gegn Covid-19 fyrir börn 5-11 ára á heilsugæslunni á Hólmavík föstudaginn 21. janúar nk.
Skíðafélag Strandamanna tók þátt í bikarmóti á Akureyri um helgina. Fjölmennasti ungmennahópur félagsins 13-16 ára á bikarmóti til þessa.
Auglýst er eftir tilnefningum um íþróttamanneskju ársins 2021 í Strandabyggð. Öll sem vilja geta sent inn tilnefningu.