Strandavarpið: Vinstri græn | Bjarni Jónsson

Skrifað af:

Ritstjórn

Bjarni Jónsson, oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason. Strandavarpið er kosningahlaðvarp strandir.is. Oddvitum framboðsflokka í Norðvesturkjördæmi var boðið að koma í viðtal á Hólmavík og ræða hitamálin á svæðinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:

Samfélagslega betri lausnir

Bjarni segir að það þurfi að bæta afhendingaröryggið og koma á betri tengingum. Það geti falið í sér að fara leiðir sem séu ekki endilega hagkvæmastar í aurum talið heldur séu samfélagslega betri lausnir. Hann segir að allar ákvarðanir um tengingu og orkuöflun ættu að vera teknar í góðri sátt og farið eftir góðum leikreglum við það.

Rammaáætlun tæki til ákvarðana

VG hefur talað fyrir því að nýta rammaáætlun áfram og hún sé ákveðið tæki til ákvarðanatöku, en það þurfi líka að hlusta á fólk og það verði að vinna þessi mál í góðri sátt og þau megi ekki sundra samfélögum. Hann segir að Hvalárvirkjun sé ekki á dagskrá í bili og það séu fleiri leiðir til að bæta raforkukerfið á Vestfjörðum.

Varðandi vindorkuver telur Bjarni að þau gætu passað á sumum stöðum en ekki öðrum og það þurfi að skoða það út frá hverju svæði fyrir sig. Hann myndi líka vilja sjá að slík fyrirtæki væru sem mest í eigu Íslendinga.

Efla umhverfisvænar strandsiglingar

Í orkuskiptum er nú þegar búið að stíga nokkur skref en þarf að gera miklu meira og hraða þeim ferlum hvort sem er til sjós eða lands. Hann myndi vilja sjá strandsiglingar eflast á ný með umhverfisvænum fararkostum og svo þurfi fólk almennt að breyta um lífstíl líka.

Heilsárssamgöngur spurning um byggðajafnrétti

Í vegamálum vill Bjarni sjá heilsárssamgöngur í Árneshrepp, það sé spurning um öryggismál og byggðajafnrétti. Þá hefur hann talað fyrir vegabótum á Innstrandarvegi.

Standa með samfélögum

Hann telur að það væri farsælt ef okkur tækist að halda öllu landinu í byggð og við ættum að vera tilbúin að taka róttækar ákvarðanir og standa með samfélögum sem þurfa á því að halda tímabundið. Þetta sé hægt að gera með skattaívilnunum eða beinum stuðningi við einstök byggðalög.

Landsbyggðin þarf málsvara

Bjarna finnst að fólk ætti helst að ákvarða sjálft um framtíð byggðalaga og það þurfi að tryggja að þar haldist grunnþjónusta. Bjarni er ekki talsmaður jöfnun atkvæða og vill ekki fækka þingmönnum í þessum landsbyggðakjördæmum, þessi svæði þurfi sína málsvara.

Stærri einingar út á land

Bjarni vill að störf séu flutt út á land og að það sé góð reynsla af því. Það er mikilvægt að flytja stærri einingar frekar en smærri. Það hefur verið meira á hinn veginn að verið sé að taka opinberu störfin af landsbyggðinni og fólk að flytja burtu út af því og þessu vill hann snúa við.

Tryggja fjölbreytni í atvinnulífinu

Varðandi tækifæri í atvinnulífinu þarf að tryggja fjölbreytni og styðja vel við grunn-atvinnuvegina; sjávarútveg, landbúnað og matvælaframleiðslu. En það sé margt spennandi að gerast í þeim geira sem fólk finnur upp á sjálft. Það eru mörg tækifæri í ferðaþjónustunni og skapandi greinum og nefnir líka að stór iðnfyrirtæki eins og 3X á Ísafirði skipti máli. Þá er grunnatriði að hafa aðgang að menntun og rannsóknar- og háskólasetur á svæðinu skipti miklu máli.

Skapandi greinar framtíðin

Bjarni segir að skapandi greinar séu mikilvægar og vísar í könnun meðal grunnskólanema sem sögðust flest vilja starfa við slík störf í framtíðinni. Hann hefur væntingar til nýs seturs skapandi greina á Bifröst og það sé margt í gangi. Hann segir að það mætti í einhverjum mæli hugsa einhversskonar byggðakvóta til að jafna úthlutun styrkja úr opinberum sjóðum en nú þegar sé verið að reyna að jafna þessu að einhverju marki í gegnum landshlutasamtök, en mætti gera betur.

Takmarka innflutning á landbúnaðarvörum

Bjarni segir að í landbúnaðarmálum þurfi að auðvelda búsetu í sveitum og nýliðun í greininni. Það þurfi að búa starfsumhverfið betur og standa með íslenskri framleiðslu og verja hana og takmarka innflutning á landbúnaðarvörum.

Vill ekki kvóta á hrognkelsaveiðar

Bjarni vill tryggja réttindi sjávarbyggðanna og horfa til reynslu aftur í tímann. Það þurfi að tryggja hag og stöðu smærri útgerða og grunn-nálgunin sé að horfa á hagsmuni byggðalaganna. Hann vill að gjaldtaka í greininni renni að hluta til sjávarbyggðanna sjálfra og stuðli þannig að bættum innviðum í byggðunum. Hann telur að það verði meiri sátt um slíka gjaldtöku ef byggðirnar njóti þess beint. Þá vill hann styrkja strandveiðikerfið og setja meira inn í það og fjölga dögum og þetta sé gert í samráði við þá sem stunda veiðarnar. Varðandi hrognkelsaveiðar sem eru mikilvægar fyrir þetta svæði segir Bjarni að hann styðji ekki kvótasetningu á þær enda þurfi þess ekki, en sér frekar fyrir sér svæðaskiptingu.

Bjarni Jónssson í hljóðveri Strandavarpsins. Mynd: Skúli Gautason

Aðgengi að skólum grunnur búsetu

Um menntamál telur Bjarni að það sé grunnur að búsetu að hafa aðgengi að góðum skólum, bæði grunn- og leikskólum og aðgangur að dreifnámi framhaldsskóla eins og sé hér á Hólmavík skipti líka máli. Þá sé mikilvægt fyrir landsbyggðina að háskólanám sé í boði sem fjarnám. Þá þarf að mæta betur þeim kostnaði sem hlýst af því að þurfa að sækja sér menntun fjarri heimabyggð og þegar fólk er búið að mennta sig mætti vera með ívilnanir í gegnum skattakerfið til að styðja fólk til búsetu úti á landi.

Fá ferðamenn víðar

Bjarni telur að í málefnum ferðaþjónustunnar mætti bæta markaðssetningu og kynningarstarf til að fá ferðamenn til að fara víðar. Þá er fjármagn til uppbyggingar á ferðamannastöðum ekki að skila sér í allar byggðir.

Samræmi í sorpflokkun

Varðandi sorpmál segir Bjarni að ekki sé hægt að setja upp sorpbrennslur á mörgum stöðum, því það þurfi visst magn til að standa undir slíku. Hann segir að það sé mikilvægt að það sé samræmi í sorpflokkun á landsvísu.

Sérfræðilæknar á landsbyggðinni

Bjarni vill tryggja aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það innihaldi líka öryggismál tengd snjómokstri og sjúkraflutningum. Það þurfi að vera góð læknisþjónusta og læknir á staðnum og að boðið sé upp á sérfræðiþjónustu á stöðunum svo fólk þurfi ekki alltaf að sækja annað. Hann segir að það þurfi að gera betur í að mæta kostnaði fólks vegna læknisþjónustu.

Utanumhald og velvilji lykillinn

Um málefni flóttafólks telur Bjarni að smærri samfélög geti verið góður kostur og það sé góð reynsla t.d. frá Hvammstanga. Það þurfi að vera grunnatriði til staðar s.s. vinna, húsnæði, tungumálakennsla og fleira en lykillinn sé gott utanumhald og velvilji í samfélaginu.

Verkefni stjórnvalda og samfélagsins

Um kynbundið ofbeldi og gerendameðvirkni segir Bjarni að þetta séu búin að vera dapurleg mál en búið sé að stíga stór skref m.a. með nýrri lagasetningu til að verja betur hag þolenda, en það þurfi að gera miklu betur. Þetta sé verkefni sem aldrei klárist og alltaf þurfi að vera vakandi fyrir. Hann segir að stjórnvöld geti gert heilmikið en þetta sé líka samfélagslegt verkefni. 

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.