Strandavarpið: Viðreisn | Guðmundur Gunnarsson

Skrifað af:

Ritstjórn

Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal. Strandavarpið er kosningahlaðvarp strandir.is. Oddvitum framboðsflokka í Norðvesturkjördæmi var boðið að koma í viðtal á Hólmavík og ræða hitamálin á svæðinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:

Horfa til orkunýtingar á hóflegum skala

Guðmundur segir að það þurfi að bæta orkumálin á Vestfjörðum. Umræðan um orkumálin sé pólaríseruð um annars vegar að beisla orkuna og hins vegar að flytja hana inn á svæðið og litið sé á talsmenn þessara hópa sem annarsvegar umhverfissóða og hins vegar umhverfissinna. Þetta sé hugsanaskekkja og enginn sé að tala um stóriðju á Vestfjörðum heldur að hafa raforku til að standa undir atvinnuuppbyggingu og til að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmarkmiðum. Guðmundur segir að við ættum að horfa til orkunýtingar á hóflegum skala sem hæfir svæðinu og að við viljum vera stóriðjulaus. Hann segir að við séum að renna út á tíma og tækifæri sem reiða sig á orku muni sigla framhjá ef ekkert sé að gert. Vandinn sé að ekki sé hægt að koma sér saman um hvað á að gera og stjórnvöld hafi verið ákvarðanafælin.

Umræðan má ekki kafsigla hagsmunamálum

Guðmundur segir að Hvalárvirkjun sé risastórt verkefni sem gæti leyst vandamál s.s. að framleiða raforku inn á svæðinu og gera okkur sjálfbær um raforku en umræðan hafi verið hatrömm og mótbyrinn mikill. Nú sé þetta verkefni í frosti. Hann segir að ekki megi leyfa umræðu að kafsigla hagsmunamál eins og gerðist þarna. Hann segir að nú ætti að horfa á verkefni sem eru í gangi og líklegust til að ganga sem hraðast en ekki þau sem séu sofandi.

Um orkuskiptin segir Guðmundur að það verði að horfa á þarfirnar sem við blasi en ekki hver orkuþörfin hafi verið síðustu áratugi og gera þurfi ráð fyrir þeirri miklu orkuþörf sem orkuskiptin kalla á. Hann segir að það vanti allt hugrekki og framsýni í þetta verkefni.

Brotið á íbúum í Árneshreppi

Um samgöngumál í Árneshreppi segir Guðmundur að þar sé verið að brjóta á íbúum. Þarna sé mikil uppbygging í ferðamálum í Djúpavík og bæði fólk og fyrirtæki sem séu bara ekki þjónustuð eins og aðrir. Þetta sé ekki boðlegt fyrir sveitarfélög í svona mikilli varnarbaráttu.

Sjálfsákvörðunarréttinn til bænda

Í landbúnaðarmálum vill Guðmundur færa sjálfsákvörðunarréttinn aftur til bænda og að þeir geti ráðið hvernig búskap þeir stundi. Með uppstokkun á styrkjakerfinu geti bændur stundað blandaðan búskap með fjölbreyttum hliðarbúgreinum. Þá inniheldur endurheimt votlendis tekjumöguleika sem troða engum um tær og möguleika á að ná umhverfismarkmiðum okkar á sama tíma.

Opinber störf án staðsetningar

Guðmundur er ekki hrifinn af því að flytja heilar stofnanir út á land því það sé sjaldnast á forsendum starfsmannanna. Hann vill að opinberum stofnunum verði gert það skylt að bjóða öll störf sín sem hægt er að vinna hvaðan sem er á landinu sem störf án staðsetningar. Þannig fái fólk möguleika á að flytja á landsbyggðina án þess að yfirgefa vinnuna sína, þetta myndi bæði styrkja byggðirnar og lækka rekstrarkostnað ríkisstofnanna.

Ábyrgar fiskveiðar en vantar í samneysluna

Guðmundur segir að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé gott og ábatasamt og feli í sér ábyrgar fiskveiðar en vanti hins vegar upp á að greiða af því í samneysluna. Hann vill innkalla allt að 5% fiskveiðiheimilda á ári og breyta í markaðskerfi á 20 árum. Varhugavert sé að gera þetta of hratt en greinin þurfi að skila meira fé inn í samneysluna. Það fé eigi að vera eyrnamerkt inn í samneysluna í byggðalögunum og nota eigi jöfnunarsjóð sveitarfélaganna til að jafna aðstöðu byggðanna. Þá vill Guðmundur tímabinda samninga í sjávarútvegi eins og samninga um nýtingarrétt á öðrum auðlindum.

Krónan ógn við nýsköpun

Guðmundur telur að það séu gríðarleg tækifæri fyrir nýsköpun á Vestfjörðum og þar séu nú þegar mörg nýsköpunarfyrirtæki. Krónan sé hins vegar vandamál og ógn við nýsköpun í mörgum greinum sem fást við fleiri gjaldmiðla en krónuna s.s. ferðaþjónustu- og útflutningsfyrirtæki.

Samfélög verða að standa með þolendum

Guðmundur telur að vakningabylgjan sem nú á sér stað um kynbundið ofbeldi og gerendameðvirkni sé afar jákvæð og þessi menning hafi verið allt of lengi við lýði. Hann segir alla sem búa í litlum samfélögum úti á landi vita hvað gerendameðvirkni geti verið skaðleg. Samfélagið verði að geta tekið á þessum málum og standa alltaf með þolendum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.