Strandavarpið: Sjálfstæðisflokkurinn | Haraldur Benediktsson

Skrifað af:

Ritstjórn

Haraldur Benediktsson skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal. Strandavarpið er kosningahlaðvarp strandir.is. Oddvitum framboðsflokka í Norðvesturkjördæmi var boðið að koma í viðtal á Hólmavík og ræða hitamálin á svæðinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:

Ýmsir virkjanakostir

Haraldur vill nálgast umræðuna út frá orkusjálfbærni Vestfjarða og að landshlutinn hafi tækifæri á að framleiða orkuna sjálfur. Hann segir að Hvalárvirkjun sé í biðstöðu en það séu fleiri virkjunarkostir sem ætti að horfa til og nærtækast sé Vatnsfjarðarvirkjun og að það ætti ekki að bíða eftir endurnýjun flutningslínunnar vestur heldur koma sem hraðast á orkusjálfbærni Vestfjarða. Þá séu líka tækifæri samhliða lagningu háspennustrengs í Árneshrepp en þar gæti fallið til virkjanakostur sem gæti aukið raforkuöryggi fyrir t.d. Hólmavík.

Rammaáætlun ekki að virka

Um rammaáætlun segir Haraldur að hún hafi mistekist og sé ekki að virka. Það sé göfug hugsun að skoða ýmsa virkjanakosti niður í kjölinn og reyna að ná samstöðu um þá, en það vanti inn í hana rýni um efnahagslega og samfélagslega þætti. Hann segir að það þurfi kjark til að skera upp rammaáætlunaferlið og setja inn atriði eins og efnahagslega þýðingu virkjanakosta fyrir orkuskiptin og sjálfbærni landsins sem samfélag sem framleiðir sína orku sjálft.

Vindorka góð viðbót

Um vindorku segir Haraldur að hún sé góð viðbót við vatnaflsvirkjanir og hægt sé að hafa miklu meira út úr því vatnsafli sem að við höfum þegar virkjað í dag með því að láta vindorkuna spila þar á móti. Þá segir hann það skiljanlegt að sveitarfélög séu að nýta skipulagsvald sitt og setja upp vindorkugarða ef þau sjái sér hag í því fyrir sitt byggðalag.

Mokstursreglur í samráði við heimafólk

Haraldur vill að Árneshreppur sé í heilsárssamgöngum og komið sé á mokstursreglu sem sé samstarf vegagerðarinnar og heimamanna. Um forgangsröðun í vegaframkvæmdum á svæðinu vilji hann setja á oddinn samgönguáætlun landshlutasamtaka sveitarfélaga sem er forgangsröðun heimamanna. En stundum þurfi fámenn sveitarfélög að fá innspýtingu framar öðrum til að snúa við ákveðinni óheillaþróun. Um flokkun vega þurfi ákveðna hugsun þannig að verið sé að styrkja samfélögin innanfrá.

Landbúnaður byggðastoð á Ströndum

Í atvinnumálum hefur ekki verið sami uppbyggingarkrafturinn á Ströndum eins og á norður- og suðursvæði Vestfjarða þar sem hefur verið mikill uppgangur í laxeldi og ferðaþjónustu. Hér sé að stærstum hluta landbúnaðarhérað og svo þéttbýliskjarnar með sjávarútveg. Hann segir að landbúnaður sé byggðastoð hér og fjallar um möguleika greinarinnar til að takast á við fleiri verkefni eins og við loftslagsmál sem gæti verið hluti af því að styrkja byggð.

Nútímaleg stjórnsýsla yfir netið

Haraldur bindur miklar vonir við innviðauppbyggingu hins opinbera þar sem verið er að fjárfesta í kerfum um nútímalega stjórnsýslu yfir netið. Með góðum fjarskiptum þýði þetta að hægt sé að sinna allskonar verkefnum og þjónustu meira á netinu og auki möguleika á að vinna störfin hvar sem er.

Endurskoða lagaumhverfi afurðastöðva

Vandi sauðfjárbænda er að hluta til samkeppni við erlenda markaði sem hefur aukist á undanförnum árum. Haraldur telur að stærsta einstaka málið sem geti raunverulega breytt afkomu bænda sé að fara inn í lagaumhverfi afurðastöðvanna og endurskoða það.

Staðbundin verðmætasköpun

Haraldur segir að auðlindirnar ættu að skapa verðmætin á þeim stað sem þau verða til og sem dæmi ætti gjaldtaka í fiskeldi að renna meira til samfélagsins sem það er stundað í.

Réttur fólks til að hafa áhrif

Um jafnt vægi atkvæða segir Haraldur að t.d. í okkar kjördæmi sem sé bæði stórt og byggð dreifð sé afar erfitt fyrir fólk að fá raddir sínar heyrðar. Þetta sé spurning um að virða rétt fólks til að hafa áhrif á sitt samfélag og hann telur að þessar dreifðu byggðir þyrftu frekar fleiri talsmenn en færri.

Hugverkaiðnaður um allt land

Haraldur segir að það sé mikill vöxtur í útflutningstekjum af skapandi greinum og bylting í fjarskiptainnviðum hafi lagt grunn að tækifærum fyrir hugvitsfólk. Enn séu 50 byggðalög sem ekki hafi fullkomna nettenginu en þegar það sé komið séu forsendur fyrir hugverkaiðnaðinn um allt land.

Betri kynning styrkja eða kvóti

Varðandi lágt hlutfall styrkja sem koma til landsbyggðarinnar úr ýmsum sjóðum segir Haraldur að ríkisstjórnin hafi verið að rýna í þetta og forsvarsmönnum sjóða hafi verið gert að kynna sjóðina sérstaklega úti á landsbyggðinni svo allir væru á sama stað í umsóknarferlinu. Ef þetta dugar ekki væri hægt að skoða hvort settir yrðu einhverskonar byggðakvótar á styrki.

Styðjandi fyrir samfélögin og flóttafólk

Varðandi flóttafólk og möguleika svæðisins til að taka á móti því segir Haraldur að við eigum nýleg verkefni sem hafa gengð vel eins og í Húnaþingi vestra sem sýni að það sé hægt fyrir minni samfélög að taka við flóttafólki. Verkefni sem bæði styður fólk og samfélögin sem taka á móti þeim.

Stingum á ofbeldiskýlið

Um kynbundið ofbeldi og gerendameðvirkni segir Haraldur að umræðan sé til alls fyrst og að viðurkenna vandamálið. Hann segir að við séum lögð af stað og farið að stinga á þessi kýli. Þetta sé heilmikið verkefni en það verði til góðs.

Þróun fjarnáms í skólum

Haraldur segir að möguleikar fólks á landsbyggðinni til að sækja sér menntun séu tengdir námsframboði háskólanna á netinu en flestir þeirra hafa þróast sem fjarvinnsluskólar. Þá séu góðar nettengingar mikilvægar svo hægt sé að nýta þessi tækifæri.

Laða menntafólk í störf úti á landi

Haraldi finnst almennt ekki aðlaðandi að nýta skattakerfið til að stýra búsetu en það sé hægt að nota það sem úrræði til að bregðast við. Þá sé hægt að beita endurgreiðslu námslána út í gegnum byggðaáætlun til að laða að menntafólk í viðkomandi starfstéttir út á landi. Hann talar ekki fyrir skattahækkunum og að það sé letjandi fyrir fólk að vinna eða búa til verðmæti.

Samræming í sorpmálum

Í sorpmálum segir Haraldur að sveitarfélögin kalli eftir samræmi bæði í flokkunarmálum og almennt hvernig á að umgangast sorp. Með samræmingu sé betur hægt að sjá hvað er hægt að endurvinna og hvað hentar í brennslu og svo lífræni hlutinn hvernig hægt er að nýta hann í ræktun.

Fjarlækningar og bætt starfsskilyrði

Varðandi heilbrigðismál segir Haraldur að það vanti aðgengi að heimilislæknum. Það þarf að fara inn í heilbrigðisstofnanir og búa til aðlaðandi starfsumhverfi, aðgengi að hjúkrunarfræðingum og heilsugæslulæknum. Með sérfræðilækna fyrir landsbyggðina væri hægt að horfa til blandaðra lausna s.s. fjarlækninga og bætt starfsskilyrði.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.