Strandavarpið: Píratar | Magnús Davíð Norðdahl

Skrifað af:

Ritstjórn

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal. Strandavarpið er kosningahlaðvarp strandir.is. Oddvitum framboðsflokka í Norðvesturkjördæmi var boðið að koma í viðtal á Hólmavík og ræða hitamálin á svæðinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:

Tryggja dreifikerfi raforku

Magnús segir að afhendingaröryggi raforku sé forsenda atvinnuuppbyggingar á svæðinu og það verði að tryggja. Það liggur fyrir að það er framleitt meira af raforku á landinu en við þurfum en þessu sé misskipt á milli svæða. Hann segir að það þurfi að tryggja dreifikerfið og eftir atvikum framleiða rafmagn að því marki sem þörf sé á. Grunnatriði hjá Pírötum sé valddreifning og lýðræði og að nærsamfélagið viti best hvernig á að laga sín mál.

Atkvæðagreiðsla um Hvalárvirkjun

Varðandi Hvalárvirkjun nefnir Magnús að það væri hægt að halda atkvæðagreiðslu á svæðinu til að komast að vilja Vestfirðinga. Það þurfi að finna leið til að tryggja afhendingaröryggið án þess að ganga á umhverfið meira en þarf. Þá segir hann að það ætti hiklaust að skoða vindorkuver enda verði eitthvað að koma í staðinn fyrir jarðefnaeldsneytið í orkuskiptunum, en vindorkuver séu ekki gallalaus og henti ekki allstaðar.

Forgangsraða eftir byggðasjónarmiðum

Í vegamálum telur Magnús að það verði að breyta mælikvarðanum sem er notaður til að forgangsraða verkefnum með hliðsjón af byggðasjónarmiðum. Það sé ekki hægt að nota núverandi svæðaskiptingu ef við viljum vernda viðkvæmar byggðir. Þá telur hann að Árneshreppur eigi rétt á því að fá heilsársvegaþjónustu.

Auka strandveiðiheimildir

Til að efla atvinnulíf á svæðinu vilja Píratar auka heimildir í strandveiðikerfinu og efla það. Þá vilja þeir innkalla aflaheimildir í áföngum og bjóða þær út til tímabundinnar leigu.

Dreifa starfsemi ríkisstofnana

Magnús telur að það sé af hinu góða að færa ríkisstofnanir út á land og covid hafi sýnt okkur það sé vel möguleg. Það þurfi ekki alltaf að flytja heilu stofnanirnar á einn stað, heldur væri jafnvel hægt að dreifa starfsemi einhverrar ríkisstofnunar á marga staði þar sem fólk gæti unnið í fjarvinnu.

Nýsköpun í landbúnaði

Í landbúnaðarmálum segir Magnús að stefna Pírata gangi út á mikilvægi fæðuöryggis og að grunnframfærsla bænda sé tryggð. Hann vill styðja við nýsköpun með styrkjum og sér mikla möguleika í allskonar nýjungum s.s. hamp- og þörungarækt. Hann segir að það þurfi að vera frelsi í styrkjakerfinu, þannig að nýsköpun einskorðist ekki við hugmyndarflug þingmanna.

Nýja stjórnarskrá og aukinn jöfnuð

Magnús vill sjá nýja stjórnarskrá og að auðlindirnar séu í þjóðareign. Það séu til allskonar leiðir til að auka jöfnuð og skattkerfið sé eitt af þeim og það ætti að nýta í að skattleggja meira þá sem meira eiga.

Beint íbúalýðræði

Varðandi ójafnt vægi atkvæða segir Magnús að jafna þyrfti þennan mun en þá þyrfti samhliða að grípa til mótvægisaðgerða til að jafna aðstöðumun á svæðunum sem gæti verið t.d. með meiri valddreifingu og beinu íbúalýðræði þar sem fólk gæti haft meiri áhrif á mál síns svæðis með atkvæðagreiðslum.

Jafna styrkjaúthlutun um landið

Píratar leggja áherslu á nýsköpun og gagnrýndu að Nýsköpunarmiðstöð var lögð niður. Magnús segir að það vanti almennt meira frelsi í styrkjakerfinu svo fleiri geti spreytt sig og að þegar nýsköpunarfyrirtæki er að komast á laggirnar verði að styrkja þau. Þá þyrfti að finna einhverja leið til að jafna úthlutun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins á styrkjum úr opinberum sjóðum.

Atvinnuleyfi ætti að fylgja dvalarleyfi

Magnús segir að það eigi að taka vel á móti flóttafólki sem hingað leitar og koma fram við það af mannúð og virðingu. Hann segir að það sé galli í kerfinu þar sem atvinnuleyfi fylgi ekki sjálfkrafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það leiði til að fólk er háð styrkjum frá sveitarfélagi sínu en þetta sé almennt duglegt fólk sem þráir að fá að vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins og þetta þurfi að laga. Í stað þess að tala um kostnaðinn við móttöku flóttafólks ætti að horfa á tækifærin sem felast í því að hér sé stór hópur fólks sem vill koma hingað og vinna og við þurfum vinnandi hendur, ekki síst á landsbyggðinni.

Þyngri refsingar fyrir kynferðisbrot

Um kynbundið ofbeldi segir Magnús að það sé jákvæð þróun að þessi mál séu að koma meira í umræðuna, það sé lykilatriði að hlusta á þolendur og trúa þeim. Hann segir að það þurfi að þyngja refsingu fyrir kynferðisbrot almennt og honum finnist bagalegt að refsing fyrir alvarleg kynferðisbrot sé lægri en varða glæpi sem varða fjármuni.

Jafna aðstöðumun til menntunar

Magnús segir að það séu ýmis tækifæri til fjarnáms með tækniframförum en oft verði fólk að sækja menntun út fyrir svæðið sem kosti fólk meira og að það þurfi að jafna þann aðstöðumun. Þetta mætti gera meðan á skólagöngunni stendur með beinum styrkjum, með síðari tilkomnum skattaívilnunum, eða í gegnum námslánakerfið með niðurfellingu á hluta lána. Þegar ekki er hægt að tryggja jafnan rétt til grunnþjónustu þá þarf að jafna aðstöðumuninn. Þá þurfi líka að hlúa vel að landsbyggðinni til að fólk sjái möguleika á því að snúa til baka eftir nám í góð störf.

Dreifðari ferðamálastyrkir

Magnús myndi vilja sjá að styrkir til ferðamála myndu dreifast meira um landið og að það mætti vera auðveldara að komast á landsbyggðina frá höfuðborgarsvæðinu og vegasamgöngur séu hluti af því máli.

Áhersla á hringrásarhagkerfi

Varðandi sorpmál segir Magnús að Píratar leggi áherslu á hringrásarhagkerfi og að auka endurvinnslu sem gengur ekki út á að brenna stærstan hluta af okkar sorpi en hefur ekki kynnt sér sorpbrennslur sérstaklega.

Auka heimaþjónustu aldraðra

Magnús telur að varðandi aldraða sé mikilvægt að auka heimaþjónustu og lengja þann tíma sem fólk getur verið heima. Þá þurfi að minnka skerðingar á bótum ef fólk vill starfa eftir eftirlaunaaldurinn.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.