Strandavarpið: Framsóknarflokkurinn | Stefán Vagn Stefánsson

Skrifað af:

Ritstjórn

Stefán Vagn Stefánsson

Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal. Strandavarpið er kosningahlaðvarp strandir.is. Oddvitum framboðsflokka í Norðvesturkjördæmi var boðið að koma í viðtal á Hólmavík og ræða hitamálin á svæðinu. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.

Hringtenging forgangsmál hjá Framsókn

Við byrjuðum á að spurja Stefán út í orkumálin. Hann segir að orkumálin á svæðinu séu ekki í lagi og það þurfi að gera bragarbót á þeim. Hann er hlynntur að nýta þær auðlindir sem eru í nýtingarflokki í rammaáætlun  s.s. Hvalárvirkjun. Þá segir hann að hringtenging rafmagns á Vestfjörðum sé sanngirnismál fyrir svæðið til jafns við önnur svæði á landinu. Þetta sé forgangsmál hjá Framsóknarflokknum en geti tekið langan tíma.

Aðspurður um vindorkuver telur Stefán að vindorkugarðar verði orðnir að veruleika eftir nokkur ár eða áratugi. Þetta séu kostir sem vel ætti að skoða og það ætti að horfa til þess að byggja upp atvinnustarfsemi samhliða orkuöflun á því svæði sem orkan er búin til og þannig nýtist hún best þar sem talsvert tapist í orkuflutningum. Þetta eigi ibæði við um vindorkuver og vatnsfallsvirkjanir, þær eigi að efla atvinnu og búsetu sem næst upptökunum.

Sóknarfæri fyrir Ísland að nýta græna orku

Í sambandi við orkuskiptin telur Stefán að við séum nú þegar komin inn í orkuskiptin með mikilli aukningu á raf- og tvinnbílum og að verið sé að horfa til bæði rafmagns og vetnis til að knýja skipaflotann og í flugsamgöngum. Hann telur að það séu gríðarleg sóknarfæri fyrir Ísland að nýta græna orku í vetnisframleiðslu sem gæti leitt til útflutnings í framtíðinni og orðið okkar olíulind.

Varðandi samgöngumál á svæðinu er Stefán m.a. spurður um afstöðu sína til snjómokstursreglna í Árneshreppi. Hann segir að það þurfi að laga þessi mál og ekki sé hægt að nota sömu viðmið um snjómokstur og fjölda bíla í umferð og notuð séu t.d. á Suðurlandi þar sem veður og snjóalög séu með öðrum hætti.

Nýjungar í ferðaþjónustu skipta miklu máli

Þegar spurt er hvað hægt sé að gera í atvinnumálum á svæðinu nefnir Stefán að ekki sé hægt að horfa á allt kjördæmið sem eina heild. Hólmavík og Akranes t.d. séu ekki sambærileg og hafi misjöfn tækifæri. Hann nefnir að fiskeldinu hafi fylgt mikil uppbygging á sunnanverðum Vestfjörðum og að það sé nú að sækja í sig veðrið á norðursvæðinu einnig. Þá nefnir hann nýjungar í ferðaþjónustu geti skipt miklu máli s.s. eins og útsýnispallurinn á Bolafjalli sem eflaust verði mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku í Bolungarvík og nágrenni.

Ljósleiðari forsenda fyrir uppbyggingu atvinnu

Stefán segir að Strandir séu eina svæðið sem sé í basli og segir enga töfralausn í augsýn en veltir upp möguleikum um samvinnuklasa sem ríki og sveitarfélög þurfi að sameinast um að styrkja. Þá sé Framsóknarflokkurinn hlynntur því að flytja opinber störf út á land og þurfi að horfa á svæði eins og Strandir í því tilfelli. Þá þurfi að huga að frekari innviðauppbyggingu á svæðinu og að ljósleiðari sé forsenda fyrir uppbyggingu atvinnu og að það þurfi að setja mikinn þunga á það.

Þurfum að standa með íslenskum landbúnaði

Í landbúnaðarmálum nefnir Stefán að staðan sé flókin en misjöfn. Mjólkuriðnaðurinn sé búinn að fara í gegnum ákveðið hagræðingarferli sem hefur skilað árangri og að sauðfjárbúskapurinn þurfi að fara í gegnum svipað ferli. Það þurfi að skoða samkeppnislögin og fá sambærilegar undanþágur frá þeim fyrir sauðfjárbúskap eins og í mjólkuriðnaðinum. Þá þurfi líka að endurskoða tollasamninga en þar sé viss forsendubrestur og þurfi að semja upp á nýtt. Hann segir að það þurfi að hugsa kerfið upp á nýtt og fólk þurfi að hafa kjark og dug til að standa með íslenskum landbúnaði.

Boða ekki byltingu í sjávarútvegsmálum

Þegar talið berst að kvótanum segir Stefán að Framsóknarflokkurinn boði ekki neina byltingu í sjávarútvegsmálum enda telji þeir að kerfið sé að flestu leyti gott og þar séum við með sjálfbæra nýtingu og arðsemi út úr greininni. Hann telur hins vegar að það mætti skoða hvort brothættar byggðir eins og eru á Ströndum ættu að fá aukalega úthlutun.

Þegar talið berst að skapandi greinum segir Stefán að við þurfum að vera vakandi og grípa þau tækifæri sem eru í boði og getum ekki beðið með að fá allt upp í hendurnar. Hann segir að það sé mikil gróska í þessum málaflokki í kjördæminu en að við þurfum að vera með öfluga talsmenn, bæði á þingi og í sveitarstjórnum sem geta aðstoðað íbúana við að koma málefnum sínum á framfæri.

Fyrst þarf að viðurkenna vandann

Spurt er hvort svæði eins og Strandir geti tekið við flóttafólki og telur Stefán að það ætti alveg að geta gengið. Það þurfi samt að vera ákveðnir innviðir í formi húsnæðis og þjónustu sem flóttafólk þarf á að halda. Þarna sé um að ræða fólk sem þurfi mikla aðstoð og utanumhald enda sé það að koma beint úr stríði.

Að lokum er Stefán spurður um hvað sé til ráða varðandi kynbundið ofbeldi og gerendameðvirkni. Hann telur að við þurfum fyrst og fremst að viðurkenna vandann og eina leiðin sé forvarnir og að tala við börnin okkar öfgalaust og á leiðbeinandi hátt. Hann segir að ef að það eigi að breyta ríkjandi menningu þurfi að ávarpa vandamálið og ræða opinskátt um það og að þetta sé ólíðandi kúltúr sem muni taka langan tíma að komast í gegnum.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.