Spennan magnast í brugghúsinu

Skrifað af:

Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Finnur, Philipp og Aleksandar. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Óðum styttist í að boðið verði upp á göldróttan bjór af Ströndum en fyrsta framleiðslan verður drykkjarhæf um miðjan desember. Fréttaritari strandir.is heimsótti Galdur Brugghús á Hólmavík þar sem mjöðurinn mallar í sínum tönkum og spjallaði við félagana á bak við starfsemina, stofnendurna Aleksandar Kuzmanic og Finn Ólafsson, og bruggarann Philipp Ewers.

Aleksandar Kuzmanic segir að þeir Finnur hafi byrjað á verkefninu fyrir 2 árum en þegar búnaður Steðja var settur á sölu, hafi þeir þurft að taka ákvörðun.

„‘Ætlum við að hafa þetta lítið eða byrja stórt?‘ Síðan ákváðum við að kaupa brugghúsið og nú erum við þrír hérna á hverjum degi. Það eru alls konar hlutir sem þarf að gera, ég er að sjá um vörustýringu, við erum með bruggara sem þrífur og bruggar alla daga og Finnur… hann getur gert eiginlega allt, svo þetta er mjög spennandi tími.“

Undirbúnir fyrir erfiðan markað

Fyrst um sinn verður bjórinn í boði á Ströndum og nærliggjandi svæðum en hann sé síðan væntanlegur í nokkrar verslanir ÁTVR í Reykjavík upp úr áramótum.

„Við verðum með vörur í fjórum verslunum. Þetta er flókið með ÁTVR og hvar má selja en hér á svæðinu getum við teygt okkur lengra til suðurs og austurs. Við getum verið hérna á Hólmavík, á Hvammstanga og í Búðardal. En við getum t.d. ekki farið með þetta til Ísafjarðar af því þar er þegar brugghús. Þetta er dálítið erfiður markaður en við erum fjárhagslega búnir undir það og getum unnið í þessu á meðan við erum að stækka. Vonandi fáum við að skína í sumar þegar túristarnir koma og hótel og veitingastaðir opna, sérstaklega á Ströndum. Flest þeirra hafa áhuga á bjórnum okkar og að koma honum á framfæri. Það verður áhugavert að sjá hvernig fer eftir sumarið. Það er auðvitað erfiðasta verkefnið okkar, að selja.“

Korn í bjórinn. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

En Aleksandar er auðvitað spenntur fyrir komandi verkefnum.

„Já við erum allir mjög spenntir og bara mjög glaðir að við erum komnir á það stig að framleiða bjórinn. Þetta hefur átt langan aðdraganda, við fengum búnaðinn 1. október svo við höfum verið að í meira en mánuð, að þrífa og setja allt upp, rafmagn, pípulagnir… þetta var mikið verk en við fengum hjálp fólksins í samfélaginu. Fólkið hér er alltaf reiðubúið að hjálpa en við höfum líka gert mikið sjálfir.“

Aleksandar hafði einnig hug á því að fara erlendis til að læra til bruggmeistara en nú sé það kannski óþarfi því hann getur lært beint af Philipp Ewers sem ráðinn var til Galdurs eftir að hafa starfað hjá Steðja og hefur mikla reynslu.

Brugghúsið sjálft þar sem korn er soðið. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Mikil lífefnafræði í bjórgerð

Philipp lýsir bruggferlinu fyrir fávísum fréttaritara.

„Maltið er malað og sett saman við vatn og síðan hitað að ákveðnu hitastigi þannig að ensímin búi til sterkju úr korninu sem gerjar sykurinn. Síðan eru vökvinn og kornið aðskilið og soðið saman við humla svo við fáum beiskjuna úr humlunum í bjórlausnina. Síðan kæli ég þetta og bæti við geri og þá byrjar bjórinn að myndast því gerið tekur sykurinn og gerjar. Þetta er það sem er í gangi núna og tekur um 2 vikur í viðbót. Síðan kæli ég þetta aftur og læt gerið setjast. Tveir þessara bjóra verða síaðir en sá þriðji, Märzen bjórinn okkar, bruggast hægar við lægri hita. Síðan setjum við hann á flöskur, eða kannski dósir, og hann er þá tilbúinn á markað.“

Gerjunar- og kælitankar, brugghús í bakgrunni. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Aðspurður hvort hann geti gert eitthvað í brugghúsinu til að ná fram einhverjum séreinkennum Stranda – sem hefur verið fjallað töluvert um í markaðsetningu brugghússins – svarar Philipp því til að svarið sé bæði já og nei. Flestir lager bjórar, sem eru undirstaðan í framleiðslunni, séu hverjir öðrum líkir í grunninn en hægt sé að gera tilbrigði með ýmsum leiðum.

„Við erum með alls konar hugmyndir um hvernig við getum gert hreinan Stranda-bjór. Ég held að það sé einhver á svæðinu að rækta bygg svo við gætum kannski notað það að hluta til og svo er Finnur með kirsuberin. Þegar þau spretta í sumar prófum við líklega að gera bjór úr bygginu héðan og kirsuberjunum og ég ætla kannski að reyna að búa til ger, blanda og rækta eigin bakteríuflóru. Svo sjáum við til hvort við getum gert súran kirsuberjabjór en þetta eru bara hugmyndir á teikniborðinu. Annars passa þessir bjórar sem við erum að gera núna vel við andrúmsloftið hér. Ég er nú bara búinn að vera hér í sex vikur svo ég er enn að átta mig á einkennum svæðisins. Ég held að vatnið hafi líka áhrif og ég hlakka til, þegar bjórinn er tilbúinn, að sjá hvort munar miklu um vatnið. Hjá síðasta brugghúsi sem ég vann hjá, sendum við sýni á tilraunastofu í Þýskalandi og þeir sögðust sjaldan sjá svo hreint vatn og voru undrandi yfir því að það var dálítið sætt á bragðið. Í Þýskalandi er vatnið beiskt en hér er það mjög gott.“

Philipp á fjölskyldu í Borgarfirði og flakkar því töluvert á milli en segist vona að hann sé búinn að kenna hinum nóg til að geta reddað sér ef hann skyldi verða veðurtepptur. Hann segist þó ekki hafa miklar áhyggjur því Aleksandar og Finnur hafi báðir reynslu af heimabruggi og séu því fljótir að læra.

Kælitankar til að geyma tilbúinn bjór. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Engir óvæntir hnökrar

Finnur Ólafsson er auðvitað líka ánægður með stöðu mála og segir allt ganga samkvæmt áætlun.

„Þetta gengur vonum framar. Við erum á pari við áætlanirnar sem við gerðum um hvenær við gætum komið bjór á markað og það voru engir hnökrar sem komu okkur á óvart sem maður átti alveg eins von á. En við erum náttúrulega á fullu að læra á nýjan búnað og nýtt ferli. Þótt við kunnum fræðilegu hliðina, þá er alltaf annað að gera þetta í eigin höndum og núna er kominn nýr fasi. Nú er samsetningar-og prufufasinn búinn, núna erum við komnir í þann fasa að undirbúa vöru á markað og herja á aðila sem við teljum að geti verið söluleiðir okkar, og frágang á miðahönnun og allt sem þarf að ganga frá til þess að koma vöru á markað. Það er búið að vera rosalega mikið að læra. Maður er búinn að panta korn frá Póllandi, varahluti frá Bandaríkjunum, humla frá Þýskalandi, ger frá Þýskalandi og Póllandi, og við erum að panta sýnishorn af dósum frá Póllandi. Það er endalaust eitthvað sem maður er að sækja héðan og þaðan til þess að betrumbæta eða laga og margir sem hafa komið og lagt hönd á plóg, komið og aðstoðað við samsetninguna. Maður finnur þennan gríðarlega samtakamátt hjá samfélaginu að hjálpa okkur og eigendunum áfram – það eru 75 eigendur að þessu fyrirtæki.“

Gerjunartankar þar sem svokallaður virtir verður að bjór. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Finnur segir að þeir séu á góðri leið með að ná rekstrarlegum markmiðum og séu farnir að huga að því að setja ný þar sem verkefnið hafi mikið rými til að vaxa.

„Við erum með margar hugmyndir sem er hægt að vinna með áfram, ef við höfum getuna til þess. Þannig það eru spennandi tímar fram undan. Fyrstu hugmyndirnar okkar voru margfalt minni að umfangi, þar sem hægt væri að sinna þessu svona aukalega og á kvöldin meðfram annarri vinnu yfir í að vera þetta, sem er komið með sinn eigin starfsmann. Við sjáum fram á að geta ráðið fleiri inn í þetta ef vel gengur. Næst er að koma þessu ofan í maga sem flestra, enda er þetta göldróttur mjöður sem mun bæta og kæta hjá flestum.“

Eins og áður sagði verður fyrsti Strandabjórinn tilbúinn um miðjan desember og búast má við að mikið verði um dýrðir af því tilefni. Áhugasöm geta því farið að telja niður.

Finnur, Philipp og Aleksandar. Mynd: Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Nýjustu fréttir og greinar

Öll sem þekkja til Steinu í Gröf vita að hún er mikið jólabarn og bókstaflega umbreytir húsinu í Gröf í fallegt jólahús á hverju ári.
„Í síðustu viku áskotnaðist undirrituðum sá heiður að taka sæti á Alþingi íslendinga fyrir Miðflokkinn.“ skrifar Högni Elfar Gylfason.
Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.
Laugardaginn 19. nóvember tóku nemendur Grunnskóla Drangsness þátt í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League í Háskólabíó.
Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum mánudaginn 28. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu á Hólmavík milli kl. 16:00 og 18:00.