Varðskipið Þór setti talsverðan svip á Hólmavík í síðustu viku þar sem það lá við festar í Hólmavíkurhöfn í nokkra daga. Aðspurður um hvaða erindum skipið væri í á Hólmavík sagði Eiríkur Bragason yfirstýrimaður að þau væru mest í hefðbundnu eftirliti en einnig hafi þau verið að skipta um öldudufl sem staðsett er í Steingrímsfirði. Þá héldu þau reykköfunaræfingu um borð í Fönix ST-177 á Hólmavík.
Á vef Landhelgisgæslunnar segja þau æfingar sem þessar gegna mikilvægu hlutverki svo áhafnir gæslunnar geti brugðist örugglega við ef eldur kemur upp um borð í skipum á Íslandsmiðum.
Áhöfnin gaf sér þó tíma frá skylduverkunum og bauð nemendum í Grunnskólanum á Hólmavík að koma og skoða skipið og er óhætt að segja að það hafi fallið í góðan jarðveg og nemendur ánægðir með heimsóknina. Flestum fannst mest áhugavert að sjá fallbyssu skipsins og skoða sig um í brúnni. Nemendur á Leikskólanum Lækjarbrekku brugðu sér líka í gönguferð til að skoða skipið. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni á þriðjudeginum ásamt myndbandi frá Landhelgisgæslunni af reykköfunaræfingunni á Hólmavík.




