Sjoppan rifin eftir 40 ár: „Blendnar tilfinningar“

Skrifað af:

Ritstjórn

Söluskáli KSH 2011. Mynd: Jón Jónsson

Sjoppan á Hólmavík á 40 ára byggingarafmæli í ár, byggð 1982, það markar einnig endalok hennar þar sem verið er að rífa hana niður þessa dagana. Sjoppan þjónaði stærra hlutverki fyrir marga en að einungis selja sælgæti og á hún sér stað í hjörtum margra Hólmvíkinga, þ.a.l. vekur niðurrifið óhjákvæmilega blendnar tilfinningar hjá mörgum. Strandir.is stiklar hér á sögu sjoppunnar og menningarlegu gildi.

Söluskáli Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík er nú óðar að hverfa en unnið er að því að rífa hann þessa dagana. Aðstaðan var flutt í verslun Kaupfélagsins fyrir 11 árum og húsnæðið að mestu staðið tómt síðan, fyrir utan nokkrar útleigur. Margir eiga góðar minningar frá „sjoppunni“ enda um áraraðir verið áningarstaður bæði ferðafólks sem og heimafólks. Strandir.is fór á stúfana til að heyra um sögu söluskálans og báðum við Jón E. Alfreðsson fyrrverandi kaupfélasstjóra að segja okkur um tildrög og rekstur söluskálans.

Við gefum Jóni orðið:

Aðalfundir Kaupfélags Steingrímsfjarðar höfðu ítrekað skorað á stjórn og kaupfélagsstjóra að fara í rekstur á söluskála með olíuvörur, sælgæti, matvörur ofl. 

Söluskálinn rifinn. Mynd: Jón Jónsson

Nokkur vandamál voru að fá lóð en að lokum fékkst hún þar sem síðar var nefnt Höfðatún og lá að veginum inn í þorpið. Olíufélagið hf. byggði húsið en Kaupfélagið sá um rekstuinn. Fyrstu starfsmenn voru Benedikt Sigurðsson, Helga Gunnarsdóttir, Alma Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Sigurðsson. Skálinn var opnaður 23. júlí 1982 kl. 16. Einnig var steypt þvottaplan rétt hjá skálanum. 

Sumarið 1986 var skálinn stækkaður um helming, sett upp grillaðstaða, bætt við snyrtingum, borðum og stólum fyrir nær 50 manns þannig að að hægt var að taka á móti allstórum ferðamannahópum. Rétt slapp að opna stækkaðan söluskála fyrir útihátíðina sem haldin var á Skeljavíkurgrundum um verslunarmannahelgina það ár. 

Arnar Snæberg og Árdís Björk Jónsbörn við sjoppuna 1994. Mynd: Einkasafn Arnars S. J.

Fjölmargir hafa unnið á þessum vinnustað, margir unglingar fengið sína fyrstu alvöru vinnu þar og skálinn var á margan hátt andlit Hólmavíkur, stundum umdeilt eins og gengur. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um allan þann fjölda starfsmanna sem þar hefur unnið en verð þó að nefna nafn Þórunnar Einarsdóttur sem þar var yfirmanneskja í fjöldamörg ár og margir kynntust, sérstaklega á vetrum. Hún var sérlega lipur að fara utan opnunartíma ef vandamál voru uppi og sagði gjarnan: „Þetta reddast einhvern veginn.“

Hafþór Torfason í afgreiðslu síðasta opnunardaginn. Mynd: Jón Jónsson

Tóta í sjoppunni

Þórunn Einarsdóttir var, eins og fram kemur hjá Jóni, verslunarstjóri í sjoppunni í mörg ár og sló fréttakona á þráðinn til hennar, þar sem hún var að redda afleysingu í Handverkshúsinu á Hólmavík.

Þórunn Einarsdóttir, alltaf kölluð Tóta, vann í sjoppunni frá 1989 en tók við sem verslunarstjóri 1991 og var þangað til aðstaðan var flutt í nýjan veitingaskála sem var byggður við verslun Kaupfélagsins 2011.

Tóta í sjoppunni síðasta opnunardaginn 2011. Mynd: Jón Jónsson

Hún segir að þetta hafi verið fjölbreytt starf og ýmislegt þurft að gera: panta, afgreiða og skipuleggja og ekki síst bíða eftir flutningabílsjórum. Hólmavík er miðsvegar á leið flutningabíla til Ísafjarðar og keyptu bílstjórarnir sér iðulega mat í sjoppunni. „Þeir voru orðnir svo hundleiðir á hamborgurum að ég fór að elda bara svona venjulegan heimilismat fyrir þá“ segir Tóta og var það kærkomin viðbót. Hún bætir þó við að þetta hafi oft verið mikil bið og binding, veður og færð allskonar á veturna og flutningabílarnir að koma á öllum tímum.

Hamborgarar um miðja nótt

„Einu sinni var Neskórinn á ferðalagi um vetur og sat fastur uppi á Steingrímsfjarðarheiði fram á nótt. Svo þegar búið var að losa rútuna þá komu þau 26 manns til mín klukkan hálf fimm um nótt og þá var ekkert annað en að grilla hamborgara ofan í allan kórinn“ segir Tóta sem dæmi um hvernig fólki var reddað um mat í sjoppunni þegar ekkert annað var í boði. Þegar hún hafði grillað ofan í allt fólkið þá þakkaði kórinn fyrir sig með söng í sjoppunni þarna um miðja nótt.

Sannur sjoppumatur sem sveik engan. Mynd: Jón Jónsson

Samkomustaður og félagsmiðstöð

Tóta segir einnig að sjoppan hafi verið mikill samkomustaður. Sérstaklega þegar enn mátti reykja í sjoppunni þá komu kallarnir og fengu sér kaffi og sígó og spjölluðu um daginn og veginn. En þetta var líka samkomustaður fyrir krakka og unglinga og hálfgerð félagsmiðstöð. „Ég var nú ekki alltaf vinsæl þegar ég var að reka þau út þegar þau voru búin að hanga of lengi eða voru með læti“ segir Tóta á léttum nótum en býst við að margir eigi einhverjar minningar af sjoppunni. 

Mannlífsmynd úr sjoppunni síðasta opnunardaginn. Mynd: Jón Jónsson

En hvað finnst henni um að það sé verið að rífa söluskálann? „Já, þetta eru svona blendnar tilfinningar, það mun vanta eitthvað á þennan stað held ég en húsið var löngu orðið ónýtt og hefði mátt rífa það fyrr“ segir Tóta að lokum.

Sveitarfélagið sér um þvottaplan og loftdælu

Margir hafa haft áhyggjur af því hvort ekkert þvottaplan eða loftdæla verði á Hólmavík þegar söluskálinn er farinn en sveitarfélagið hefur svarað því að verið sé að vinna að því að tryggja að þessi þjónusta verði áfram á staðnum.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri segir að þvottaplanið verði áfram á sínum stað en sveitarfélagið muni reka það framvegis í stað olíufélaganna. Hann segir einnig að verið sé að finna lausn á að hafa loftdæluna áfram en ekki er komið í ljós hvar hún mun vera. Þorgeir segir að það sé mikill vilji til að leysa þetta fljótlega.

Svipmynd úr sjoppunni. Mynd: Jón Jónsson

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.