Seldi á Akranesi og keypti Orkubúshúsið á Hólmavík

Skrifað af:

Ritstjórn

Þorsteinn svæðisstjóri OV afhendir Bergsveini lyklana. Mynd: Aðsend

Bergsveinn Reynisson, bóndi á Gróustöðum í Gilsfirði, keypti nýlega Orkubúshúsið að Hafnarbraut 33 á Hólmavík. Ýmsar vangaveltur eru um hvað Bergsveinn ætli að gera með þetta stóra hús en það er 200m². Fréttakona strandir.is sló á þráðinn þar sem Bergsveinn var að gefa en hann er með 550 kindur á Gróustöðum.

Gróustaðir nafli á milli þriggja svæða

Aðspurður um hvort hann ætli að flytja á Hólmavík þá segir hann svo ekki vera. En hvað ætlar bóndi uppi í sveit að gera við stórt hús á Hólmavík? „Já það er saga að segja frá því“ segir Bergsveinn. „Sko þegar krakkarnir mínir þurftu að fara í framhaldsskóla þá lá beinast við að fara á Akranes, en það var svolítið snúið samt og erfitt að staðsetja Gróustaði á kortinu með tilliti til þess hvert börnin ættu helst að fara í skóla og hvort þau kæmust að á heimavistinni eða hvort aðrir gengju fyrir.“ Gróustaðir eru nefnilega svoldið eins og nafli á milli þriggja svæða, tilheyra stundum Vestfjörðum, stundum Vesturlandi og stundum Norðurlandi Vestra, eins og vangaveltur Guðlaugar dóttir Bergsveins bera með sér í Facebook færslu fyrir nokkru:

„Þannig að ég held bara áfram að kynna mig sem Gilsfirðing. Gilsfjörður nær mun vestar en brúin, er alveg sæmilega stór. Sumir vita hvar hann er, aðrir ekki. Ég er hvorki Vestfirðingur né af Vesturlandi, ekki Strandamaður né nokkuð annað sem er almennt notað um fólk af mínu svæði. Ég er hvorki né og Gilsfjörður allur í þessu eilífa millibilsástandi að vera fyrir vestan en samt ekki fyrir vestan.“

Allavega endaði með að Bergsveinn keypti íbúð á Akranesi fyrir börnin að búa í meðan þau voru í framhaldsskóla á Akranesi. Síðan eru nú liðin mörg ár og börnin búin með skólann en fasteignaverð á Akranesi hefur hækkað síðan þá og fínt að losa smá pening. 

Orkubúshúsið
Hafnarbraut 33 á Hólmavík. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Fimm sinnum stærra hús og traktor fyrir milligjöfina

„Ég get keypt mér 5m² á Hólmavík fyrir hvern 1m² á Akranesi því fasteignaverð er hagstætt á Hólmavík. Samt gat ég fengið traktor á milli, en það var nú bara af því að sá gamli bilaði“ segir Bergsveinn og fer umsvifalaust að tala um traktorinn sinn. „Hann heitir sko Óli Gunnar, eftir Ole Gunnar Solskjær, fráfarandi þjálfara Manchester United. Ég á við sama vandamál að stríða og Manchester United: It is hard to find something better than an old Ferguson“ segir Bergsveinn og hlær. 

Breyta húsinu í 3 íbúðir

En aftur að húsinu á Hólmavík. Bergsveinn segir að ýmsar hugmyndir hafi verið nefndar en til að byrja með þá ætli hann sér að breyta því í 3 íbúðir og leigja út, láta húsið vinna fyrir sér, svo framundan eru framkvæmdir og standsetning. Guðlaug dóttir Bergsveins er þjóðfræðingur og vinnur í Þróunarsetrinu á Hólmavík í vetur og mun hafa aðsetur líka í íbúðinni og Bergsveinn sjálfur er oft á ferðinni þarna. Hann á t.d. skútu sem liggur í höfninni á Hólmavík en hann segist fara alltof sjaldan út á henni, en kannski húsakaupin breyti því eitthvað. Bergsveinn er líka stjórnarmaður í nýstofnuðu sjósportfélagi við Steingrímsfjörðinn sem bráðvantar aðstöðu fyrir kajaka og björgunarvesti. „Jú“ segir Bergsveinn, „kannski bílskúrinn nýtist í það, en það þarf eitthvað að laga aðgengi og svona fyrst.“ 

Bergsveinn
Bergsveinn á Gróustöðum stússar í búskapnum. Mynd: Aðsend

Mætti endurvinna nafnið fyrir brugghús

Gárungarnir á Hólmavík hafa komið með ýmsar hugmyndir fyrir mögulega starfsemi í húsinu, s.s. bar og brugghús. „Er eitthvað til í því?“ spyr fréttakonan. „Nei, það er eitthvað meira en ég veit þá sjálfur“ segir Bergsveinn “en ef það verður sett upp brugghús í húsinu má vel endurvinna nafnið á því en það hefur verið kallað Orkubúshúsið vegna eignarhaldsins í mörg ár. Ef maður tekur orku- framan af nafninu passar það vel við brugghús.“

Sér fyrir sér að verða gamall á Hólmavík

Bergsveinn sem er 57 ára gamall segist sjá fyrir sér að verða gamall á Hólmavík. „Einhvern tíman hættir maður að búa og þá held ég að sé gott að verða gamall á Hólmavík. Ég held að þetta sé ein besta ákvörðun sem ég hef tekið lengi“ segir Bergsveinn að lokum en hann er í miðjum tilhleypingum og sæðingum þessa dagana eins og sauðfjárbændur almennt. Það verður spennandi að sjá hvað Bergsveinn mun gera við húsið. 

Bergsveinn á skautum á Gilsfirðinum. Mynd: Aðsend

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.