Sætt og súrt: Vöruhönnun úr bjarnfirskum kirsuberjum

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Fjölskyldan Svanshóli. Mynd: Anna Björg Þórarinsdóttir

Á Svanshóli í Bjarnarfirði eru ræktuð kirsuber. Tilraunaræktun hófst fyrir um áratug þegar nokkrum kirsuberjatrjám var komið fyrir í stórum pottum inni í litlu gróðurhúsi við bæinn. Við settumst niður með Önnu Björgu Þórarinsdóttur, sem býr við bæinn Svanshól, til að fræðast nánar um um málið.

Kynni Önnu Bjargar af bjarnfirskum kirsuberjum hafa yfir sér rómantískan blæ. Þegar hún og maðurinn hennar, Finnur Ólafsson frá Svanshóli, voru að draga sig saman var hann meðlimur ávaxtaklúbbs hjá Garðyrkjufélagi Íslands en þar var haldið úti fræðslu og innflutningi á ávaxtatrjám. Nýlega höfðu þá verið keypt fyrstu kirsuberjatréin ásamt öðrum ávaxtatrjám. Finnur færði Önnu Björgu nokkur heimaræktuð kirsuber – og eins og Anna segir sjálf, það varð ekki aftur snúið. Anna Björg fluttist stuttu síðar til Hólmavíkur en hún er úr Reykhólasveit og hafði verið búsett í höfuðborginni um nokkurt skeið.

Annað vistkerfi í gróðurhúsinu

Nú er aðstaðan til ræktunar á Svanshóli afar frábrugðin því sem var fyrir um áratug og ásamt stóraukinni framleiðslu hafa tvö börn komið í heiminn síðan þá. Árið 2015 var slegið upp 400 fermetra gróðurhúsi; gömlu refahúsi sem var flutt að bænum og steypt undir, það hækkað og sett plast yfir. Þar vaxa jurtir af ýmsu tagi og áhuginn á þeim samhliða. „Þetta er eins og að fá bara bakteríu sem yfirgefur mann ekki. En Halla tengdamamma er gróðurhússtjórinn, svo það sé á hreinu. Hún segir til hvað þarf að klippa og hvenær enda framleiðir hún trjáplöntur fyrir skógrækt og veit hvað hún syngur,“ segir Anna Björg.

Blóm kirsuberjatrés. Mynd: Anna Björg Þórarinsdóttir

Í gróðurhúsinu vorar fyrr en úti við. „Það er að sjálfsögðu skemmtilegur tími að byrja að fylgjast með öllu blómstra en við þurfum að passa okkur því það geta komið frostanætur og þá þarf að hita húsið með hitablásurum.“ Í miðju hússins er ræktað salat sem er notað á veitingastöðum í héraðinu. Einnig eru ræktaðir þar ávextir sem sjaldnast eru tengdir við Strandir eða Ísland yfirhöfuð. Þar eru hindberjarunnar, bláberjarunnar, eplatré, plómutré, sólber, jarðarber, perutré og allskonar skrautblóm sem mæta fólki þegar það kemur inn í húsið. Gróðurhúsið hefur eigið vistkerfi ef svo má segja. „Við kaupum kassa af humlum að utan sem sjá um að frjóvga blómin en áður þurftum við að nota pensla.“ Á veturna leggst svo allt í dvala.

Sýróp, chutney og brjóstsykur

En aftur að kirsuberjunum. Anna hlaut vöruþróunarstyrk nýlega frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að gera tilraunir með þróun á fjölbreyttari vörutegundum úr berjunum. „Það er heljarinnar vinna í vöruþróuninni enda þarf að gera óteljandi prófanir á því hvernig er best að gera hlutina. Við höfum þó fulla trú á þessu enda er hráefnið alveg sérstakt og vonandi næst að skapa störf og tekjur fyrir svæðið.“ Sem stendur eru í boði tvær vörutegundir: fersk kirsuber og kirsuberjasulta. Tvær tegundir eru ræktaðar; súr ber og sæt. „Sætu berin eru seld fersk bæði hjá okkur og í héraðinu en þau súru notum við í sultuna. Núna undanfarið höfum við gert tilraunir með þurrkun á berjunum, höfum búið til sýróp, chutney, ávaxtanammi og brjóstsykur.“

Það sem liggur fyrir að sögn Önnu er að reyna að auka framleiðslu á súru berjunum. Þau henti betur til framleiðslu enda sé hægt að frysta þau til að vinna úr síðar. Auk þess séu fersku berin vinsælust sem ferskvara þó B-flokkur þeirra geti nýst í aðra söluvöru. Nú er Svanshóll með um 30 tré sem gefa af sér sætu tegundina en þau sem gefa af sér þau súru eru færri. Uppskeran er tekin í júlí og fer magnið eftir veðri. Kalt vor þetta árið þýddi minni uppskeru en oft áður.

Aukin umferð ferðamanna

„Ég fékk hönnuð með mér í lið við að hanna útlit fyrir pakkningar og vörumerki. Hún heitir Anna Katarina og kemur upprunalega frá Austurríki en hefur verið búsett á Drangsnesi í nokkur ár. Hún var dregin inn í vöruþróunina enda er hún miklu vanari ferskum kirsuberjum en við Íslendingarnir nokkurn tímann!“ Anna segist hafa lært mikið á þessu og að viðfangsefnið sé mjög ánægjulegt. „Þetta er farið að fréttast, fólk í héraði er að beina ferðamönnum til okkar en annars erum við ekkert að auglýsa þessa ræktun. Það hafa komið ótal ferðamenn til okkar í sumar sem vilja skoða gróðurhúsið og fá að kaupa kirsuber ræktuð á Ströndum.“

Smakkað á kirsuberjunum í gróðurhúsinu. Mynd: Anna Björg Þórarinsdóttir
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Þorgeir Pálsson ritari í stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða fer yfir stöðuna hvernig ferðasumarið 2021 var á Ströndum.
Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur flutti á Strandir frá Reykjavík og hefur fundið flestum áhugamálum sínum farveg í Hveravík þar sem hún býr.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.

Aðrar fréttir

Daníel Haraldsson er nýr dýralæknir sem sinnir dýralæknaþjónustu á Ströndum, Reykhólum og í Dalabyggð. Daníel tók við 1. október síðastliðinn.
Nemendur í hagnýtri þjóðfræði halda málþing á Hólmavík um allskonar dýr og skepnur frá þjóðfræðilegu sjónarhorni
Samtökin '78 verða með umfangsmikla hinsegin fræðslu í grunn- og leikskólanum á Hólmavík 18.-19. október og félagsheimilinu fyrir alla íbúa.
Ekki var hægt að halda aðalfund í Leikfélagi Hólmavíkur vegna manneklu. Stjórnin biðlar til íbúa að taka höndum saman og mæta á aðalfund eftir viku.