Ólíft í Trékyllisvík í vetur ef hræið verður ekki fjarlægt

Skrifað af:

Ritstjórn

Hnúfubakur í fjörunni við Finnbogastaði í Trékyllisvík. Mynd: Valgeir Benediktsson

Hnúfubak rak upp í fjöru í landi Finnbogastaða í Trékyllisvík í Árneshreppi á dögunum. Hvalurinn er orðinn útblásinn og mjög illa lyktandi. Nágranni telur að það verði ólíft í Trékyllisvík í vetur ef hræið verður ekki fjarlægt.

Valgeir Benediktsson í Árnesi 2 í Trékyllisvík telur að þetta sé kýr sem hafi rekið á land fyrir um fimm dögum en hann var ekki á svæðinu þá. „Skepnan er orðin gríðarlega útþaninn og illa lyktandi og nú eftir svona skamman tíma er varla hægt að hafa opinn glugga fyrir ólykt. Ef ekkert verður aðhafst til að fjarlægja hvalinn þá lýst mér illa á vetursetu hér í Trékyllisvik.“ segir Valgeir en hann býr á næsta bæ við Finnbogastaði. Þrátt fyrir áhyggjur af afdrifi hræsins slær Valgeir á létta strengi í færslu á Facebook, en þar segist hann ekki viss hvort þessi hvalreki sé happafengur fyrir nýja eigendur Finnbogastaða eða fyrir nágrannana og bætir við að til huggunar megi kannski geta þess að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, segir um rekann á Finnbogastöðum:

Reki er að nokkru gagni fyrir landinu. Ítak í rekanum hefur Helgafellskirkju eignað verið eftir máldaga, sem er milli Skarðs og áróss, hálfur hvalreki og að auki þriðjúngur úr helmíngi.

„Þetta þýðir að eigendur Finnbogastaða þurfa nú að ganga eftir því að sóknarnefnd Helgafellskirkju hirði hræið sem fyrst, og mega sjálfir þakka fyrir að geta haldið sporðinum af skepnunni“ skrifar Valgeir.

Ekki vitað hvað verður um hræið

Ekki er ljóst hvað gert verður við hræið en hvalrekinn hefur verið tilkynntur og mun Umhverfisstofnun taka ákvörðun um hvort og þá hvað verður gert við hræið. Íbúum í Árneshreppi er flestum í fersku minni þegar grindhvalavaða rak á land í byrjun október sl. en varðskip Landhelgisgæslunnar kom norður til að fjarlægja þau hræ, enda voru þau rétt við bæjardyrnar á Melum í Melavík og ljóst að það yrði mikil mengun af hræjunum, bæði lyktar- og sjónmengun en einnig fitumengun sem myndi ógna fuglalífi.

Auga hnúfubaksins. Mynd: Valgeir Benediktsson

Nýjustu fréttir og greinar

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Sveitasíminn er nýtt hlaðvarp á Ströndum sem Sauðfjársetrið heldur úti í tilefni 20 ára afmælis safnsins um þessar mundir.
„Flokkur fólksins hefur barist með kjafti og klóm fyrir strandveiðum fyrir sjávarbyggðirnar. Fyrsta skrefið er að tryggja 48 veiðidaga á ári.“
Trékyllisheiðarhlaupið verður haldið öðru sinni nk. laugardag 13. ágúst. Skráningarfrestur rennur út á miðnætti á morgun, miðvikudagskvöld 10. ágúst.
Hópur kvenna hafa komið af stað söfnun fyrir sjúkrabörum, spelkum og sjúkrakassa til að gefa staðarhöldurum í Reykjarfirði á Hornströndum.