Nýtt útgerðarfélag á Ströndum: Samstíga og þakklát

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Það er í nógu að snúast hjá Björk Ingvarsdóttir í nýja fyrirtækinu. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Vissa útgerð ehf. er mánaðargamalt útgerðarfélag á Hólmavík í eigu hjónanna Bjarkar Ingvarsdóttur og Péturs Matthíassonar. Þau hafa starfað við útgerðina Hlökk ehf. í 10 ár, sem er rekin af foreldrum Bjarkar, en eru nú komin með eigin rekstur.

Við báðum Björk að greina frá tilurð þessarar yngstu útgerðar á Ströndum.„Foreldrar mínir hafa rekið útgerðina Hlökk á Hólmavík í yfir 20 ár. Við Pétur byrjuðum bæði að vinna við þá útgerð árið 2010. Þá beitti ég og Pétur var á sjó. Við höfum svo unnið við hana síðan.“

Beitningahópurinn í Ásgarði. F.v.: Kristján Garðarsson, Halldór Torfason, Hicham Mansri, Björk Ingvarsdóttir og faðir Bjarkar, Ingvar Þór Pétursson. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Vissu alltaf af hvort öðru

Jafnframt því að hafa beitt og veitt saman í meira en áratug hafa þau skötuhjú verið samferða í gegnum barnauppeldi, hundahald, heimilisrekstur og núna, rekstur fyrirtækis. Þau eru bæði Strandafólk, hún fædd og uppalin á Hólmavík og Pétur frá Húsavík, rétt sunnan við bæinn. „Við höfum alltaf vitað af hvort öðru. Pétur er fimm árum eldri en ég og er eldri bróðir vinkonu minnar. Þegar ég var 16 ára byrjuðum við saman og höfum verið það síðan.“ Þau eiga þrjú börn á aldrinum fjögurra til tíu ára og þrjá hunda.

Keyptu bát og vinnuaðstöðu

Vissa ehf gerir út á bátinn Hlökk ST 55. Mynd: Aðsend

Björk og Pétur keyptu annan bát útgerðar foreldra Bjarkar, línubátinn Hlökk ST 66, og vinnuaðstöðu við höfnina. Hún segir foreldra sína hafa viljað minnka við sig vinnu. „Þau eru samt sem áður ómetanleg í að hjálpa okkur að koma okkar eigin rekstri af stað. Pabbi beitir hjá okkur og gengur í öll verk og mamma er ómissandi í að kenna mér á bókhaldið auk þess að gera dásamlegar samlokur í nesti fyrir okkur í beitningunni.“ Hjónin keyptu einnig vinnuhúsnæði af foreldrum Bjarkar sem er kallað Ásgarður, niðri við höfnina, sem hún segir vera þægilega staðsetningu. „Það er stutt að fara með balana inn í frost eftir róðra og allt aðgengi gott.“

Starfsandinn er góður í Ásgarði. Hér er Hicham Mansri að störfum. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Hornbankinn heillar

Við erum með þrjá menn í vinnu við beitningu ásamt mér og pabba. Pétur er svo skipstjóri á Hlökkinni og eru tveir hásetar um borð með honum. Við gerum út á línu stærstan hluta ársins og er megin aflinn þorskur og ýsa. Á vorin gerum við svo út á grásleppu, sem er alltaf skemmtilegt. Á sumrin höfum við róið aðeins á handfæri líka, en það finnst mér persónulega eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ég grínast stundum með það að Hornbankinn sé uppáhalds staðurinn minn. Þar er bara sjór eins langt og augað eygir og ekkert síma- né netsamband. Það er oft skemmtileg tilbreyting frá hversdagslífinu. 

Arnþór Jónsson t.v., háseti á Hlökk og Pétur Matthíasson t.h., skipstjóri á Hlökk og annar eigandi Vissa ehf. Í glugganum sést í Björk. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Reynir að læra bókhald

Sem stendur eru mörg verkin sem þarf að sinna. „Þetta byrjar vel hjá okkur, fyrsti mánuðurinn,“ segir Björk. En þau eru vön sveiflunum. „Stundum veiðist vel en stundum ekki eins vel.“ Á heimaskrifstofunni skipuleggja hjónin róðra, panta það sem vantar og Björk reynir að læra bókhald en það er ekki hennar sérsvið.

„Við erum samstíga enda búin að vera lengi saman. Stundum gengur vel og stundum gengur illa, en við höfum gengið í gegnum það oft saman.“

„Við púslum þetta einhvern veginn, Pétur er kannski að fara á sjó á miðnætti og kemur heim aftur klukkan sex kvöldið eftir. Ég vinn þá frá átta til hálfþrjú-þrjú við að beita, kem heim og hreyfi hundana, sæki börnin, fer í búðina, vinn svo heima. Þetta er bara prógramm sem maður fylgir eins og allir. Við erum ótrúlega þakklát fyrir að geta rekið okkar eigið fyrirtæki og horfum björtum augum á framtíðina.“

Björk segir foreldra sína hafa verið ómetanlega í að koma rekstrinum af stað. Hér er Ingvar Þór, faðir Bjarkar, að beita hjá Vissa útgerð ehf. Mynd: Ásta Þórisdóttir
Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.