Nýtt sjósportfélag í Steingrímsfirði var stofnað á Kaffi Galdri 24. mars sl.
Tilgangur félagsins er að efla iðkun sjó- og vatnaíþrótta og útivistar við Steingrímsfjörð. Félagið ætlar að byggja upp aðstöðu og þekkingu fyrir íþróttir og útivist á og við sjó á Steingrímsfirði, í samstarfi við sveitarfélög og björgunarsveitir. Þá ætlar félagið að standa fyrir námskeiðshaldi, kynningum hverskonar og lánum á búnaði eins og segir í stofnskrá félagsins. Stofnun sjósportsfélags var eitt af starfsmarkmiðum í Framtíðarsýn og markmiðum Sterkra Stranda sem er verkefni Brothættra byggða í Strandabyggð. Hugmyndin er upphaflega komin frá nemendum í Grunnskólanum á Hólmavík sem vilja bæta samfélagið og auka framboð á afþreyingu og útivist í heimabyggð sinni.
Á stofnfundinum skráðu fimmtán manns sig í félagið og var kosin ný stjórn félagsins.
Í stjórn sitja Áki Guðni Karlsson, Unnur Erna Viðarsdóttir, Bergsveinn Reynisson, Röfn Friðriksdóttir og Bjarni Þórisson. Ný stjórn kemur saman fljótlega og skiptir með sér verkum og skipuleggur næstu skref.
Enn er verið að velja nafn á félagið en meðal hugmynda eru Selkolla, Steingrímur, Marfló, Marbendill, Tindabikkja, Rán, Hólmi og Sjávardrífa.
Hafi fólk áhuga á að taka þátt er hægt að sækja um inngöngu í Facebook hóp félagsins: Sjóíþróttafélag í Steingrímsfirði


