Nýjustu Pókemon-fréttir af Ströndum

Skrifað af:

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Dagrún Ósk pókemon spilari
Dagrún Ósk pókemon spilari og skrímslið Clerfairy. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Nýjustu vendingar á Ströndum í Pókemonheimum urðu núna í vikunni, þegar að pókestoppið í Sævangi var uppfært í póke-gym og nýtt poke-stopp bættist við í skúlptúrinn Njörð sem er við göngustíg á Sauðfjársetrinu.

Fyrirbærið Pókemon kom fyrst til sögunnar árið 1995. Það birtist meðal annars í tölvuleikjum, teiknimyndum, safnspilum og fleiru. Sjálf man ég vel eftir pókemon spilunum sem voru gífurlega vinsæl í kringum 2005. Þetta voru lítil spjöld með myndum af allskonar skrímslum og furðuskepnum sem kallast einu nafni pókemonar.

Spjöldin nutu mikilla vinsælda á Hólmavík og raunar um veröld víða og skiptust krakkar á spilum hvar sem þeir hittust, markmiðið var að safna þeim öllum. Mig minnir meira að segja að á einhverjum tímapunkti hafi spilin verið bönnuð í Grunnskólanum á Hólmavík, þar sem þessi stanslausu býtti á spilum trufluðu kennslu. Krakkar smygluðu þeim þó áfram með sér í skólatöskum og skiptin héldu áfram í leyni. Upphaflegu pókemonarnir voru 151 talsins, en þeir eru núna 898 alls. Með tímanum döluðu þó vinsældir leiksins og ný æði og býtti tóku við.

Jón Jónsson með draugapókemoninu Ghastly í Sævangi. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir

PokemonGo leikurinn færði nýtt líf í pókemon

Árið 2016 gekk pókemon svo í endurnýjun lífdaga þegar að tölvuleikurinn PokemonGo kom fram á sjónarsviðið. Þá mátti sjá ungmenni ganga um borg og bý með andlitið ofan í símum sínum, að safna skrímslum sem skjóta upp kollinum hér og þar. Skrímslin eru fönguð í hnöttóttan búnað, svokallaða pókemon bolta. Til að nálgast bolta af þessu tagi þarf að heimsækja poke-stopp, sem eru oft staðsett á markverðum eða fallegum stöðum (sem pókemon stjórnendur út í heimi hafa dæmt verðuga). Á Ströndum má víða finna poke-stopp af þessu tagi, til dæmis í vitanum á Hólmavík, Hermannslundi, Galdrasýningunni, Krambúðinni og kirkjunni, auk þess í Húsavíkurkleifinni og búðinni á Drangsnesi.  

Þegar leikurinn er spilaður skrá þátttakendur sig í lið. Þau eru þrjú: Rautt, blátt og gult. Liðin geta svo barist saman við önnur lið til að ná yfirráðum yfir svokölluðum Gym-um eða poke-stöðvum. Gymin eru sjaldgæfari en poke-stoppin en er þó líka að finna á Ströndum, til dæmis hjá listaverkinu Seið, tjaldstæðinu og Flugstöðinni á Hólmavík og á Sauðfjársetrinu í Sævangi.

Nýtt póke-gym og póke-stopp á Sauðfjársetrinu

Reglulega bætast við ný stopp og gym sem hægt er að heimsækja og hefur fjölgað í hópi þeirra hér í nágrenninu á undanförnum árum. Nýjustu vendingar hér á Ströndum urðu einmitt á Sauðfjársetrinu núna í vikunni, þegar að pókestoppið í Sævangi var uppfært í póke-gym og nýtt poke-stopp bættist við í skúlptúrinn Njörð sem er við enda göngustígsins út í Orrustutanga.

Nýja pókestoppið í Nirði. Mynd: Dagrún Ósk

PókemonGo er stórsniðugur leikur fyrir fólk á öllum aldri sem hvetur til útivistar og heilsusamlegs símahangs, það er því um að gera að byrja að safna pókemon skrímslum ef þið eruð ekki þegar byrjuð á því.

P.S. Ég hef því miður ekkert komist í Árneshrepp í sumar og lýsi hér með eftir upplýsingum um pókemon stöðuna þar.

Höfundur: Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur og tryggur pókemon spilari

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.