Netið orðið hraðskreiðara í Kaldrananeshreppi

Skrifað af:

Guðbjörg Guðmundsdóttir

Sigurður Árni Vilhjálmsson og Finnur Ólafsson sáttir með unnið starf. Mynd: Óskar Torfason

Í gær var ljósleiðarakerfi innan Drangsness virkjað í fyrsta sinn. Þar með lýkur mikilvægu framfaraskrefi í eflingu innviða bæjarins og Kaldrananeshrepps alls.

Oddviti sveitarstjórnar hreppsins, Finnur Ólafsson, var glaður í bragði við þessa látlausu en mikilvægu athöfn. Aðspurður hvort hann teldi sveitunga sína ánægða með ljósleiðarann sagðist hann halda það. „Ég veit ekki betur en að það ríki almenn ánægja með að komast á 21. öldina! En nú er þetta komið, búið og gert og við snúum okkur að næstu verkefnum sem lúta að því að tryggja framgang samfélagsins hér.“

Fyrir nokkrum árum síðan kom út skýrsla starfshóps á vegum innanríkisráðuneytis sem kölluð var „Ísland ljóstengt“: Landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða. Helsta tillaga hópsins var að skilgreina aðgang að háhraða nettengingu sem grunnþjónustu sem standa skyldi öllu landsfólki til boða, óháð búsetu. Sveitarfélög óskuðu í framhaldinu eftir styrkjum í verkefnið og Kaldrananeshreppur hafði erindi sem erfiði í annarri atrennu að slíkum styrk.

Lagt fyrir ljósleiðara og rafmagni samtímis

„Við hófum undirbúning verkefnisins og jafnframt viðræður við Orkubú Vestfjarða um samnýtingu, semsagt, að þau myndu nýta tækifærið og koma rafstreng fyrir þriggja fasa rafmagn niður í leiðinni,“ segir Finnur. „Í fyrsta áfanga var ljósleiðarinn lagður frá hreppsmörkun yfir í Bjarnarfjörð og hann virkjaður.“ Það var Jón Steinn, verktaki á Hólmavík sem annaðist gröftinn fyrir leiðaranum.

Í öðrum áfanga voru þeir bæir sem eftir voru í firðinum tengdir og hafist var handa við að leggja strenginn áfram til Drangsness og náðist að leggja alveg til Hveravíkur. Í þriðja áfanga var strengurinn lagður frá Hveravík og út á Drangsnes. „Lokaáfanginn náðist svo í vor þegar dreifbýlið var klárað með því að tengja bæina við Bæ, norðan Drangsness.“

Finnur tók sjálfur þátt í að leggja ljósleiðarann. Mynd: Óskar Torfason

Hitaveitan sér um reksturinn

Í flestum tilfellum voru grafnir strengir í jörðu fyrir ljósleiðara og þriggja fasa rafmagni. Orkubúið var þó ekki með í framkvæmdum frá Bjarnarfjarðarhálsi að Hveravík. Sveitarfélagið fékk því miður enga styrki frá hinu opinbera til að leggja ljósleiðara inn á heimili á Drangsnesi. Þá var ákveðið að sveitarfélagið myndi annast það verk til þess að veita þá þjónustu sem íbúarnir kölluðu eftir. Nú er því verkefni lokið með virkjun ljósleiðarans inn á heimili í bænum. Það er Hitaveita Drangsness sem annast rekstur ljósleiðarans og viðhald.

Boxin tengd

Sveitarfélagið samdi við rafverktaka frá Akranesi um tengingar á ljósleiðaranum til að hægt væri að virkja strenginn. „Þeir fóru inn á heimilin til þess að setja heimtaugabox. Svo getur fólk samið við fjarskiptafyrirtæki um þjónustu yfir ljósleiðarann.“

„Í síðustu viku var síðasti þriggja fasa strengurinn lagður út í Bæ. Þar með varð síðasta eins fasa loftlína kerfisins úrelt hjá okkur.“  Nú eru aðeins þriggja fasa flutningslínur þar sem notast er við slíkt. Við kveðjum ánægðan oddvitann í þetta sinn og óskum íbúum Drangsness til hamingju með betra og öruggara samband við umheiminn.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Matkrókurinn kynnir matgæðinga á Ströndum sem deila uppáhalds uppskriftunum sínum. Helga Gunnarsdóttir deilir jarðarberja- og Baileys tertu.
Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur en hann hefur lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám. Kristín okkar ræddi við Eirík um veðrið.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.

Aðrar fréttir

Jólamarkaður verður í Hveravík í dag, laugardaginn 4. des. Markaðurinn stendur frá 13-17 og þar verður ýmislegt fallegt og girnilegt til sölu.
Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega í eldsvoða árið 2019. Hún deilir reynslu sinni til að efla umræðuna á sviði forvarna.
Barnakór Strandabyggðar gefur út nýtt jólalag eftir kórstjórnandann Braga Þór Valsson. Þetta er í þriðja sinn sem kórinn gefur út jólalag.
Einvalalið vestfirsks tónlistarfólks hefur tekið höndum saman og mun bjóða upp á jólatónleika á Hólmavík, Tálknafirði og Ísafirði í desember.