Nemendur á Drangsnesi kepptu í Legókeppni

Skrifað af:

Ritstjórn

Lið Grunnskóla Drangsness: Tomás, Guðbjörg Ósk, Bjarni, Kristjana Kría og Friðgeir Logi. Mynd: Ásta Þórisdóttir

Síðastliðinn laugardag, 19. nóvember tóku um 150 grunnskólanemendur á aldrinum 10-16 ára þátt í tækni- og hönnunarkeppninni First Lego League í Háskólabíó. Þátttakendur komu alls staðar að af landinu en þetta var í fyrsta sinn sem grunnskóli af Vestfjörðum og Ströndum var skráður til þátttöku í keppnina. 

Það var Grunnskóli Drangsness sem reið á vaðið en fjórir nemendur í 5.-9. bekk, þau Friðgeir Logi Halldórsson, Guðbjörg Ósk Halldórsdóttir, Kristjana Kría Lovísa Bjarnadóttir Valen og Tomás Fisera hafa undirbúið sig fyrir keppnina síðan í skólabyrjun í haust. Marta Guðrún Jóhannesdóttir kennari er liðstjóri en henni til aðstoðar er Bjarni Þórisson sem kennt hefur námskeið í forritun við skólann. 

First Lego League keppnin 2022. Mynd: Kristinn Ingvarsson

First Lego League keppnin er alþjóðleg tækni- og nýsköpunarkeppni sem Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group settu á laggirnar seint á 10. áratugnum. Markmiðið með Legókeppninni er að efla færni og lausnamiðaða hugsun ásamt því að vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum. Keppnin byggist á verkefnum sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskiptahæfni. Verkefnin eru ólík á milli ára en öll fela þau í sér áskoranir sem sóttar eru til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Áskorun þessa árs kallast „Ofurkraftar“ (e. SuperPowered) og snýst um orkunýtingu og auðlindir jarðar.

Liðin í First Lego League keppni grunnskólanna 2022. Mynd: Kristinn Ingvarsson

Keppnin sjálf skiptist í fjóra hluta; forritun vélmennis úr tölvustýrðu Legói til að leysa tiltekna þraut, nýsköpunarverkefni sem tengdist orkumálum í nærsamfélagi nemenda, hönnun og forritun vélmennis og loks liðsheild. 

Liðið Dodici frá Vopnafjarðarskóla vann keppnina en hér má horfa á upptöku frá keppninni sem var streymt. 

Grunngildi keppninnar voru eftirfarandi:

Uppgötvun: Við könnum nýja færni og hugmyndir.
Nýsköpun: Við nýtum sköpunarkraft og þrautseigju við lausn vandamála.
Áhrif: Við nýtum það sem við lærum til að bæta heiminn.
Þátttaka: Við berum virðingu fyrir hvert öðru og fögnum fjölbreytileikanum.
Teymisvinna: Við erum sterkari þegar við vinnum saman.
Skemmtun: Við höfum gaman og fögnum því sem við gerum.

Lið Grunnskóla Drangsness kynnir nýsköpunarverkefni sitt. Mynd: Bjarni Þórisson

Stressandi en skemmtilegt

Í Háskólabíói var opið fyrir almenning að koma og fylgjast með á keppnisdaginn. Liðið frá Grunnskóla Drangsness bar nafnið Gemsarnir, fréttaritari strandir.is var í Háskólabíói og hitti lið Gemsanna og tók þau tali og spurði hvernig þeim fannst þetta hafa gengið. 

Kristjana Kría: „Fyrst er maður svolítið stressaður í fyrstu umferðinni, þá er þetta allt alveg nýtt fyrir manni, en þegar kom að umferð númer tvö var þetta allt miklu betra.“ 

First Lego League 2022. Mynd: Kristinn Ingvarsson

Strákarnir Tomás og Friðgeir sögðu að þeim hefði þótt skemmtilegt að taka þátt og Guðbjörg tók undir það og fannst þetta einnig hafa verið fræðandi. Þau voru öll sammála um að það hefði verið skemmtilegast að keppa í annað sinn. Þau hefðu viljað hafa haft meiri tíma í undibúning og þjálfun en voru öll sátt við árangurinn. 

Gemsarnir, lið Grunnskóla Drangsness. Mynd: Kristinn Ingvarsson

Gekk vonum framar

Bjarni Þórisson sem var liðinu innan handar í keppninni sagði að það hefði verið búið að ganga vonum framar. „Þegar þau voru síðast að æfa sig heima í skólanum gekk á ýmsu og þau náðu stigi í tuttugustu hverri tilraun og bjuggumst við að fá í kringum núll stig og fá kannski þátttökuverðlaun. En svo bara breyttum við alveg planinu okkar í gærkvöldi, og í staðinn fyrir að gera langa flókna braut þá gerðum við margar mjög stuttar og einfaldar og náðum að sópa inn 135 stigum.“

Bjarni er mjög sáttur með árangurinn og segir að þetta hafi verið lærdómsríkt fyrir þau öll. „Erfiðast var að ég mátti ekki tala neitt og ég klikkaði á því mjög oft og við fengum meira að segja einu sinni mínus-stig fyrir það“ viðurkennir Bjarni á léttum nótum.

Lið Grunnskóla Drangsness í Háskólabíói. Mynd: Bjarni Þórisson

Marta Guðrún kennari hópsins er mjög sátt við frammistöðu síns liðs og segir að þetta sé afrek út af fyrir sig að svona lítill fjögurra manna hópur skuli hafa náð að keppa í þessari keppni, en þau voru langsamlega fámennasta liðið. „Þetta var mikil áskorun fyrir okkur öll og við erum nú reynslunni ríkari“ segir Marta og býst við að Grunnskóli Drangsness muni halda ótrauður áfram í forritunarkennslu og mæta í keppnina að ári. 

Nýjustu fréttir og greinar

Öll sem þekkja til Steinu í Gröf vita að hún er mikið jólabarn og bókstaflega umbreytir húsinu í Gröf í fallegt jólahús á hverju ári.
„Í síðustu viku áskotnaðist undirrituðum sá heiður að taka sæti á Alþingi íslendinga fyrir Miðflokkinn.“ skrifar Högni Elfar Gylfason.
Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.

Mest lesið í vikunni

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Aðrar fréttir

Fyrsti í aðventu er núna á sunnudaginn. Fólk er farið að hlakka til jólastússins og jólamarkaðir eru fyrir mörgum mikilvægur liður í því.
Dúllurnar verða með jólatónleika í Sævangi 19. desember. Þar ætla þær að flytja ýmis jólalög og skemmta ásamt því að góðir gestir koma.
Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum mánudaginn 28. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu á Hólmavík milli kl. 16:00 og 18:00.
Kynningarfundur vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs Strandavegar um Veiðileysuháls í Árneshreppi, verður haldinn 22. nóvember.