Nábrókin 2021

Skrifað af:

Ritstjórn

Það er alltaf mikill keppnisandi í mýrarboltanum. Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir.

Nábrókin er smáhátíð sem er haldin um verslunarmannahelgina í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum. Vegna takmarkana er hátíðin í ár hugsuð fyrir Strandafólk og fjölskyldur.

Saga hátíðarinnar hófst 2013 með keppni í mýrarbolta en síðan þá hefur hún undið upp á sig og nokkrir árvissir viðburðir settir saman í smáhátíð undir nafninu Nábrókin, sem vísar í galdrasögu svæðisins. Frá upphafi hafa um 10 lið keppt í mýrarboltanum á hverju ári og er mikil stemnig í kringum hann. Bæirnir í sveitinni hafa safnað í lið og margir eru með mikinn metnað í búningum og lukkudýrum.

Það eru systurnar Ellen Björg, Gerða og Árný Björnsdætur frá bænum Melum í Trékyllisvík sem eru driffjaðrinar að Nábrókinni og frá 2017 hafa þær troðið upp á hátíðinni í fjárhúsunum á Melum með hljómsveit sína sem þær kalla einfaldlega Melasystur. Þá er löng hefð fyrir sveitaballi í félagsheimilinu í Árnesi um verslunarmannahelgi og hefur bandið Blek og bytta spilað undanfarin ár.

Þrátt fyrir Covid-19 var Nábrókin haldin í fyrra, í smærri stíl þó en árin á undan, og mun svo einnig verða í ár enda um smáhátíð að ræða. Ekki er rúm til að taka á móti miklum fjölda og hátíðin í ár því aðallega hugsuð fyrir heimafólk og velunnara.

Dagskrá Nábrókarinnar 2021

Föstudagur:

Tónleikar Melasystra, kl. 21 í fjárhúsunum á Melum

Passað upp á fjölda og hólfað niður ef þarf. Haldið verður utan um skráningu á gestum.

Melasystur spila í fjárhúsinu á Melum. Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir.

Laugardagur:

Mýrarbolti á Melum í Trékyllisvík

Um hádegisbil (nánari tími auglýstur þegar nær dregur). Engar takmarkanir eru við íþróttaleiki en passa verður upp á nándarmörk áhorfenda og fjölda þeirra. Takmörkun er á skráningu keppnisliða og einungis 10 lið fá að keppa. Nú þegar hafa fimm lið skráð sig svo enn er pláss fyrir fimm lið en þátttökugjald fyrir hvert lið er 5.000 kr og er hægt að skrá sig á Facebook viðburði hátíðarinnar.

Reglur mýrarboltans:

  • Hvert lið verður að innihalda að minnsta kosti 5 leikmenn. Liðsmenn mega þó vera mun fleiri enda mikil orka sem fer í að hlaupa fram og til baka í drullusvaði.
  • Ekkert aldurstakmark er og því víðara aldursbil, því skemmtilegra!
  • Leyfilegt er að ýta og stjaka létt við andstæðingnum framan frá eða frá hlið. Dómarinn metur hvenær hrint er of harkalega. Bannað er að hrinda aftanfrá. Ekkert óþarfa tos í föt eða útlimi og bannað að kýla og sparka í andstæðinginn.
  • Búningar eru ekki skylda en það er ótrúlega skemmtilegt ef allir mæta í einhverju skemmtilegu þema eða búningum. Eitthvað til að aðskilja sig frá mótherjanum allavega.
Liðið frá Melum „Crazy cat lady“ tilbúið í keppni. Mynd: Ellen Björg Björnsdóttir

Sveitaball

Þessi dagskrárliður er ekki staðfestur og skýrist í vikunni hvort af verður eða ekki, en verið er að skoða nokkra möguleika og útfærslur. Hægt er að fylgjast með á Facebook síðu Nábrókarinnar.

Uppfært: Sveitaballi hefur verið aflýst en í staðinn mun Ragnar Torfason stýra brekkusöng á laugardagskvöldinu. Þetta kemur fram á viðburði Nábrókarinnar, hægt er að lesa tilkynninguna í heild hér.

Matur, gisting og afþreying

Tjaldstæði á svæðinu eru m.a. við Valgeirsstaði og Urðartind í Norðurfirði. Þá er Krossneslaug opin og nýuppgerð og hægt er að kaupa veitingar á Kaffi Norðurfirði.

Í Norðurfirði er einnig verslun og bensínstöð.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest
Share on email

Þín auglýsing hér?

Hafðu samband
auglysingar@strandir.is

Mest lesið í vikunni

Nýjustu fréttir og greinar

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Skúla Gautason.

Aðrar fréttir

Nemendur Grunnskólans á Drangsnesi seldu uppskeru sína úr skólagróðurhúsinu til að safna fyrir skólaferðalagi næsta vor.
Sigurlaug Gísladóttir, oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi mætti í Strandavarpið og ræddi við Sigurð Líndal.
Hafgustur ehf, ný útgerð á Hólmavík, hlaut þriggja milljóna króna styrk úr Matvælasjóði til veiða og fullvinnslu á grjótkrabba.